05.07.1917
Neðri deild: 3. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 788 í B-deild Alþingistíðinda. (381)

14. mál, fyrirhleðsla fyrir Þverá og Markarfljót

Sigurður Sigurðsson:

Jeg vil leyfa mjer að vekja athygli á því, að það getur verið töluvert vafasamt, til hvaða nefndar eigi að vísa þessu máli. Jeg tel því ekki vel borgið hjá landbúnaðarnefnd, án þess að jeg vilji á nokkurn hátt draga skóinn niður af þeim mönnum, sem þá nefnd skipa. Mjer virðist þetta mál eiga alveg eins vel, eða engu síður, heima í allsherjarnefnd, eða jafnvel í fjárveitinganefnd. Jeg bendi þó sjerstaklega á allsherjarnefnd, því að í henni situr háttv. 2. þm. Rang. (E. J.), sá þm. hlutaðeigandi kjördæmis, sem sæti á hjer í deildinni. Auk þess er háttv. 2. þm. Árn. (E. A.) í allsherjarnefndinni, og er hann líka allvel kunnugur þessu máli. En í landbúnaðarnefnd eru flestir Norðlendingar og Austfirðingar, og án þess, að jeg vilji lasta þá eða á nokkurn hátt gera lítið úr getu þeirra og þekkingu, þá má benda á, að það hefir stundum komið fyrir, að þm. Norðlendinga og Austfirðinga hefir gengið illa að skilja þarfir og kröfur Suðurlandsundirlendisins. Þetta mál gæti líka átt heima í fjárveitinganefnd, þar sem hjer er um fjárútlát í stórum stíl að ræða. En jeg tel þó heppilegast að skipa sjerstaka nefnd í málið, af því að það er einstakt í sinni röð, og mætti svo vísa til sömu nefndar svipuðum málum, sem seinna kunna að koma fram á þinginu.

Úr því að jeg stóð upp, vil jeg leyfa mjer að segja nokkur orð um málið sjálft. Jeg ætla ekki að blanda mjer í ágreininginn milli háttv. þm. S.-Þ. (P. J.) og hæstv. atvinnumálaráðherra. En þegar jeg lít á fjárhæð þá, sem ætlast er til að varið sje til þessa verks á ári hverju, einar 12000 kr., þá virðist mjer það vera mikið spursmál, hvort ekki sje ópraktiskt að veita svo lítið í einu. Þessu verki er þannig háttað, að því minna, sem unnið er að því á ári hverju, því meiri hætta er á, að það geti skemst, sem búið er að gera, og þar af leiðandi gangi fjeð, sem til verksins er varið, að meira eða minna leyti í súginn. Það þarf að ganga svo tryggilega frá því, sem á hverju ári er unnið, að það geti ekki skemst. Þetta skilja nú ef til vill ekki þeir, sem ókunnugir eru, en þetta er þó í raun og veru ofur eðlilegt, og þannig er því háttað. Það er afarnauðsynlegt, að unnið sje af sem mestu kappi að þessu verki, bæði til þess að fyrirbyggja, að það skemmist, sem þegar hefir verið gert, og annað hitt, að því meira sem gert er, því meiri trygging er fengin fyrir því, að ráðin verði bót á þeirri plágu, sem gengið hefir yfir Rangárvallasýslu af völdum Markarfljóts og Þverár. Þetta verk lýtur því ekki einungis að því að græða upp tapað land, heldur miklu fremur og fyrst og fremst að hinu, að fyrirbyggja frekari skemdir en orðnar eru.

Um arðinn, sem kann að fást af þessu verki síðar meir, er ómögulegt að segja neitt að svo stöddu. Það má búast við, að það eigi nokkuð langt í land, að nokkur verulegur arður fáist af því landi, sem nú er komið í sand. og aur. Það hlýtur að taka langan tíma að græða upp þetta mikla og góða land, sem Þverá og Markarfljót hafa lagt í auðn, og það jafnvel þótt mikið verði gert af völdum mannanna til að koma því í lag.

Viðvíkjandi því, sem sagt var, að ekki væri gert ráð fyrir endurgjaldi til landssjóðs fyrir þær 15000 kr. sem veittar eru í gildandi fjárlögum, þá skal jeg geta þess, að þær voru veittar beinlínis í þeim tilgangi að fyrirbyggja, að þetta verk, sem gert er ráð fyrir í frv., valdi skemdum á eignum manna austur undir Eyjafjöllum.

Loks skal jeg geta þess, út af því sem minst hefir verið á, hvort jarðirnar þarna austur frá væru opinber eign, að þær eru bæði eign einstakra manna og hins opinbera. Má minna á, að Oddahverfið t. d. er opinber eign og sömuleiðis Breiðabólsstaður í Fljótshlíð. Svo mun og vera um fleiri jarðir.

Jeg skal nú ekki fjölyrða frekar um málið. Að eins vil jeg endurtaka það, að jeg tel ekki heppilegt að vísa málinu til landbúnaðarnefndar. Tel rjettast að kjósa sjerstaka nefnd, en ella vísa því til fjárveitinganefndar.