07.08.1917
Neðri deild: 27. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 801 í B-deild Alþingistíðinda. (391)

14. mál, fyrirhleðsla fyrir Þverá og Markarfljót

Framsm. (Stefán Stefánsson):

Það eru nú liðin sjö ár síðan byrjað var á að verja lönd í Rangárvallasýslu fyrir ágangi Markarfljóts austur með Eyjafjöllum, enda þá fyrst veitt fje úr landssjóði í því skyni,

Í fjáraukalögum fyrir 1911 standa 2400 kr., sem var varið til fyrirhleðslunnar við Seljalandsmúla. Þetta var þó að eins ¼ kostnaðar, en ¾ voru veittir annarastaðar frá, ¼ frá Búnaðarfjelagi Íslands og ½ frá hjeraðinu.

Nú reyndist það svo, að þessi fjárveiting var langt frá því að vera nægileg. En árið 1915 fór fram rannsókn og mælingar á því landi, sem liggur undir skemdum af Þverá og Markarfljóti, og fjárveitingin í síðustu fjárlögum, 15,000 kr., studdist aðallega við þær mælingar, en þá var ekki sett neitt skilyrði fyrir fjárveitingunni um fje annarsstaðar frá, og sýndi þingið 1915 ólíkt örlæti í þessu máli en þingið 1911. Nú hefir í sumar verið unnið fyrir mikinn hluta þessa fjár að framlengingu garðsins við Seljalandsmúla, er jeg áður gat um, og endurbótum á honum, en fjenu mun ekki vera öllu eytt enn þá, enda verkinu ekki heldur lokið. Hvort eftirstöðvar fjárins munu nægja til þess að fullgera verkið, skal jeg ekki um segja, en bæði vegna þess, að verkalaun hækkuðu mjög mikið, og líka af því, að nægur vinnukraftur fekst ekki nú um heyskapartímann, var vinnunni hætt í bráð.

Jafnframt þessum framkvæmdum hefir það verið rannsakað af verkfræðingum, hvort takast muni að koma í veg fyrir allar frekari skemdir af ágangi Þverár og Markarfljóts, og hvað það muni kosta. Er það álit þeirra, að þetta megi takast og það á þann hátt að veita Þverá í hinn gamla farveg Markarfljóts, að búa svo um, að ekki verði skemdir þegar alt vatnið fær framrás vestur með Eyjafjöllunum, að gerður sje fullnægjandi útbúnaður til þess að ná jökulvatni til áveitu í Vestur-Landeyjum og víðar, þar sem hægt er. Til alls þessa er gert ráð fyrir að muni þurfa 5 varnargarða, sem eru að lengd alls 5780 metrar. Allir þessir garðar eru nefndir í athugasemdum við frumv. stjórnarinnar á þingskj. 14, og býst jeg við, að allir háttv. þingdeildarmenn hafi kynt sjer þær, svo að jeg þurfi ekki nánar að skýra það atriði. Viðvíkjandi því, hvað allar þessar fyrirhleðslur eða framkvæmdir muni kosta, skal jeg geta þess, að landsverkfræðingurinn, Geir Zoëga, áætlar allan kostnaðinn 167 þús. kr., og er þá í þeirri áætlun gert ráð fyrir 20% hækkun frá því, sem í hinni upphaflegu áætlun var gert ráð fyrir. Þessi 20% eru lögð á vegna verðhækkunar á efni og dýrari vinnu en áður. En nefndin vill láta þess getið, að hana mundi ekkert furða á því, þótt þessi áætlun reyndist að mun oflág. En, eins og tekið er fram í nefndarálitinu á þingskj. 186, þá vill öll landbúnaðarnefndin mæla með því, að fje verði

veitt til fyrirtækisins, eins og með þarf, eða óumflýjanlegt er til þess, að verkið verði sem tryggilegast.

Hjer er fyrst og fremst um geisistórt og fagurt land að ræða, sem liggur nú undir skemdum. Enn fremur um land, sem nú er orðið að auðn, en ætla má að grói upp og verði aftur frjósamt land, er tímar líða. Það land, sem þannig er ástatt um og heyrir undir Fljótshlíðarhrepp, hefir mælst að vera um 7,500 hektarar að stærð. En það af slíku landi, sem heyrir til Rangárvalla-, Vestur-Landeyja- og Holtamannahreppi, hefir mælst að vera um 7000 hektarar að stærð. Og alt þetta land er búist við að geti gróið upp á skömmum tíma. Hjer er því ekkert smáræðisverk að vinna, og auk þess afarmikið land að verja. Það af landinu, sem liggur í Fljótshlíðarhreppi, er að mestu gróðurlaus auðn eða árfarvegir, gamlir og nýir, sem líkur eru fyrir að grói fljótt upp. En alt landið, sem um er að ræða, liggur innan Rangárvallasýslu, og er því von, að þetta sje hið mesta áhugamál sýslubúa, enda eru þeir fúsir til að leggja fram ¼ kostnaðarins við verkið, en það verður samkvæmt áætluninni 42 þús. kr., en vel að merkja, það verður meira, sem kemur á hjeruðin, ef kostnaðurinn verður meiri en 167 þús. kr. Þetta vill landbúnaðarnefndin taka fram, og má þá segja, að landssjóður hafi gengið feti framar en áður við sviplíkar framkvæmdir, sem miða að aukinni framleiðslu; en þess ber að gæta, að hjer er arðurinn fremur seintekinn, og svo er hjer líka að ræða um land, sem liggur undir yfirvofandi hættu, en ekki venjulegt ræktunarfyrirtæki, svo sem áveitu, eða því um líkt, enda er hjer í svo mikið ráðist, að ekki er von, að hjeruðin geti borið þyngri byrði en það, sem þeim er hjer ætlað.

Annars skal jeg geta þess, að jeg hefi leitað mjer upplýsinga hjá landsverkfræðingnum um þetta mál. Mjer var nefnilega nokkur forvitni á að vita, hvort hann áliti fyrirtækið verulega trygt, og kvað hann ekki vera ástæðu til að búast við neinu því, sem væri óviðráðanlegt. Svo að því leyti ætti ekkert að vera að óttast. Þá spurði jeg hann, hvort gert væri ráð fyrir, að vagnarnir, sem flyttu að grjótið í garðana, gengju fyrir gufukrafti, og kvað hann svo ekki vera, heldur rynnu þeir eftir spori undan halla, eða, með öðrum orðum, renna af eigin þunga. En ef sá kraftur nægði ekki fyllilega, mundi hestkraftur verða notaður. Loks spurði jeg hann að, hvort gert væri ráð fyrir, að garðarnir yrðu hlaðnir ofan á sandinn; höfðu sumir getið þess til, og leist mjer það ekki sem tryggilegast. Hann kvað meininguna vera að grafa garðana svo langt niður, að sem tryggust undirstaða fengist.

Þá hefir nefndin lagt til, að með tíð og tíma yrði lagður verðhækkunarskattur á þær jarðir, sem njóta góðs af framkvæmd þessa verks, en nánari ákvæði um slíkan skatt bíða síns tíma, eða þangað til víst er um árangur verksins.

Eitt er það, sem jeg hefi ekki minst á. Það er bygging brúar, sem ráðgert er að hvíli á fyrirhleðslugörðunum milli Stóru-Dímonar og Litlu-Dímonar, og er áætlað, að hún kosti um 150 þús. kr., sem auðvitað yrðu að öllu leyti veittar úr landssjóði.

Þessa brú verður óumflýjanlega að byggja, þegar öll vötnin eru komin saman í einn farveg.

Jeg skal svo ekki fara fleirum orðum um málið að þessu sinni, en vona, að frv. fái að ganga fram breytingalaust.