07.08.1917
Neðri deild: 27. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 806 í B-deild Alþingistíðinda. (393)

14. mál, fyrirhleðsla fyrir Þverá og Markarfljót

Frsm. (Stefán Stefánsson):

Það er ekki nema eðlilegt, að þingmenn vilji fá að vita vissu sína, þegar um svona stórmál er að ræða.

Háttv. 1. þm. Húnv. (Þór. J.) drap á það, að nú mundi 20% hækkunin á kostnaðaráætluninni ekki verða líkt því nægileg, eftir því sem kauphækkun er nú orðin. Á þetta atriði mintist jeg, og ljet einmitt í ljós, að við nefndarmenn byggjumst við meiri hækkun. En þá reikninga, sem kostnaðaráætlunin byggist á, höfum við nefndarmenn ekki átt kost á að sjá, enda hygg jeg, að hvorki við nje aðrir háttv. þingmenn gætu eiginlega mikið um þá útreikninga dæmt. En jeg lít svo á, að verkfræðingurinn hafi, á þeim tíma, sem hann samdi áætlunina, álitið þá upphæð mundu nægja. En svo er á það að líta, að síðan hefir alt stórkostlega hækkað í verði. En í sambandi við það vil jeg geta þess, að hann býst alls ekki við, að unnið verði að verkinu fyr en tímarnir verða hagkvæmari til slíkra starfa.

Annað, sem þingm. (Þór. J.) spurði um, er ekki heldur gott að segja með fullri vissu, nefnilega það, hve fljótið stígur hátt, þegar það fer í foráttu. En af landslaginu má ráða það, að það getur aldrei stigið mjög hátt, heldur hlýtur fljótið að breikka eða flæða víðar yfir, eftir því sem vatnsmagnið eykst, af því að engir bakkar eru að því, en flatneskjan víðáttumikil.

Um hæð garðanna veit jeg ekki, enda verður hún auðvitað dálítið mismunandi eftir landslaginu, en garðurinn við Þórólfsfell verður hæstur af allri fyrirhleðslunni. En hvað það snertir, hve fljótt þetta land muni gróa upp, þá var okkur sagt þar eystra, að reynslan væri sú, að eftir 4—5 ár væri kominn sæmilegur gróður, þar sem líkt hagaði til og með þessar sandauðnir, og fáist hæfileg áveita yfir þetta land, eins og ætlast er til af verkfræðingnum, þá er naumast að gera ráð fyrir, að þetta taki lengri tíma.

Loks skal jeg geta þess, að upphæð sú, sem nú er áætluð í fjárlögunum til framhalds verkinu, fellur að sjálfsögðu niður, ef þetta frv. verður samþykt. Og enn fremur, eins og jeg tók fram, að ekkert verður unnið að verkinu meðan svo er ástatt, sem nú er, bæði um alla vinnu og áhöld, sem óumflýjanlegt er að fá áður en nokkuð verulega er tekið til starfa.

Þá spurði jeg verkfræðinginn að því, hvort ekki mundi mjög erfitt að koma öllum þeim tækjum, sem þyrftu, á þessar stöðvar, en hann kvað það ekki vera; þeim mundi verða skipað í land þar við sandana og ekið þangað að vetrinum.

Jeg játa það, að upplýsingar um verkið eru má ske ekki nógar. En hve nær verða þær svo fullkomnar, að ekki megi segja, að eitt eða annað atriði sje ekki fullljóst, enda eru það venjulegar ástæður sumra manna, þegar aðrar þrjóta, að bera þessu við, því að eiginlega er það reynslan ein í þessu efni, sem gefur fullkomnar upplýsingar.