07.08.1917
Neðri deild: 27. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 808 í B-deild Alþingistíðinda. (394)

14. mál, fyrirhleðsla fyrir Þverá og Markarfljót

Pjetur Jónsson:

Jeg vil gera grein fyrir, á hvaða hátt fjárveitinganefnd athugaði þetta mál.

Sumir nefndarmenn höfðu í hitt eð fyrra haft það með höndum, en nefndin vildi ekki gjalda því samþykki sitt, án þess að hafa kynt sjer það að nýju og leitað álits verkfræðings um það, með því að tala við hann. Jeg segi þetta til þess, að menn sjái, að nefndin hefir ekki fallist á fjárhagsatriðið í frv. athugunar- eða undirbúningslaust.

Háttv. frsm. (St. St.) er búinn að segja margt eftir verkfræðingnum; jeg þarf fáu við það að bæta. Áætlun hans er bygð á verkinu, eins og það mundi verða talið í dagsverkum. Kostnaðaráætlunin er að mestu leyti gerð eftir vinnuverði á undan styrjöldinni, miðað við áætlaðan dagsverkafjölda, og síðan hefir verkfræðingurinn bætt við 20% fyrir væntanlega verðhækkun, vinnu o. fl. Það getur svo hver og einn sem vill áætlað sjálfur, hve miklu hærri vinnulaunin verði. Raunar er dagsverkafjöldinn fult eins góður mælikvarði fyrir því, hvað fyrirtækið í raun og veru kostar, eins og krónuupphæðin, því að ef dagsverkið hækkar í verði, þá er það sama sem að krónan lækki. Það þarf því ekki að verða í verunni dýrara fyrir það, þótt dagsverkið hækki. En ekki þar fyrir, jeg get hugsað mjer, að fyrirtækið kosti ekki minna en 200 þús. kr.; það er 50 þús. kr. meira en gert var ráð fyrir 1915. Þetta hygg jeg að fjárveitinganefndin hafi gert sjer ljóst.

Það gladdi mig að sjá, að landbúnaðarnefndin hefir tekið til greina bendingu frá mjer við 1. umr., um að ekki sje nema rjett, að landssjóður njóti góðs af, ef fyrirtækið hepnast, fyrst að hann leggur fram ¾ hluta af öllum kostnaðinum. Hann ber ábyrgðina, ef fyrirtækið hepnast ekki. Skaðinn lendir þá mestallur á honum. Þetta er stórt fyrirtæki, sem er hlutaðeigendum ofvaxið. Því hleypur landssjóður undir bagga. En þótt þetta sje rjett og gott, þá er þar fyrir engin ástæða til, að landssjóður fari að gefa mönnum þessum stórfje, ef fyrirtækið hepnast. Jeg vil því undirstrika þessi orð landbúnaðarnefndar: »Rjett virðist nefndinni, að landsstjórnin hlutist til um, að verðhækkunarskattur verði á sínum tíma greiddur landssjóði af jörðunum á þessu svæði, sem bótum taka og varðar eru skemdum«. Jeg vil skoða þetta sem skuldbindingu fyrir stjórnina til að koma skipulagi á verðhækkunarskatt, í sambandi við þetta fyrirtæki, fyrir næsta þing. Það virðist rjett að taka þennan verðhækkunarskatt einan sjer, meðan ekkert er afráðið um verðhækkunarskatt yfirleitt. Hann á ekki að ná til annarar verðhækkunar en þeirrar, sem eingöngu er að þakka þessu fyrirtæki, beint eða óbeint; en skattinum má svo skifta hlutfallslega milli landssjóðs og sýslusjóðs, eftir tillagi hvors um sig. Menn hafa kann ske það á móti verðhækkunarskatti, að örðugt sje að virða jarðirnar til slíks skatts. Jeg skal viðurkenna, að það getur verið örðugleikum bundið. En skattur þessi verður að komast á vegna margra annara fyrirtækja, og vandræðin út af virðingunum mega ekki verða þar í vegi, enda fara minkandi þegar ísinn er brotinn. Hjer er kominn rekspölur á í sumum löndum öðrum; því er ekki farið fram á neitt út í loftið, heldur það eitt, sem verður að vera.