07.08.1917
Neðri deild: 27. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 810 í B-deild Alþingistíðinda. (395)

14. mál, fyrirhleðsla fyrir Þverá og Markarfljót

Einar Jónsson:

Jeg get ekki látið vera að þakka háttv. deild fyrir góðar undirtektir í þessu máli, og í annan stað nefndunum fyrir álit þeirra.

Jeg skal að eins stuttlega minnast á athugasemdir háttv. 1. þm. Húnv. (Þór. J.). Mig undrar ekki, að menn vilji fara gætilega, þegar um jafnstórt fyrirtæki er að ræða, og fá allar upplýsingar, sem unt er. En um það get jeg ekki verið samdóma háttv. 1. þm. Húnv. (Þór. J.), að upplýsingarnar um þetta mál sjeu ónógar enn sem komið er. Mjer finst þær, þvert á móti, eins greinilegar og frekast er hægt að búast við.

Aðaláætlanirnar eru gerðar af 2 verkfræðingum, sem eru reyndir að því að gera rjettar áætlanir. Annars hefir það komið fyrir, að lagt hefir verið út í landssjóðsfyrirtæki, sem ekki hefir verið mögulegt að gera nákvæmar áætlanir um fyrirfram.

Vötnunum hagar svo til þarna fyrir austan, að það væri óhugsandi að gera fullkomlega nákvæma áætlun um verkið fyrirfram. Þau eru svo breytileg og erfið viðfangs. Háttv. 1. þm. Húnv. (Þór. J.) efaðist um, að kostnaðaráætlunin væri ábyggileg. Jeg gæti tekið undir það að nokkru leyti með honum. Það gæti vel breyst á þann hátt, að kostnaðurinn yrði ekki nærri eins mikill og áætlað er. Til þess þyrfti ekki annað en þá heppni, að vötnin breyttu sjer, t. d. að Þverá legðist sjálfkrafa í Markarfljót, sem oft hefir komið fyrir. Yrði þá hægara við að eiga, en auðvitað nauðsynlegt samt að inna verkið af hendi, því að búast mætti við, að áin leitaði farvegs síns aftur, þegar minst varði. En því er ekki að neita, að vötnin gætu hagað sjer á hinn veginn, og verkið orðið talsvert dýrara en hjer er gert ráð fyrir. Það var fundið að því, að vatnshæðin og vatnsþrýstingurinn hafi ekki verið rannsakað. Það er rjett, sem frms. (St. St.) sagði, að þau hækka lítið, heldur flæða út í vöxtum. Garðarnir eiga að koma í veg fyrir, að þau brjóti niður lönd. Þeir þurfa ekki að vera háir; nóg ef undirstaðan er góð og traust — undir því er alt öryggi komið. Þá þyrfti ekki að óttast, þótt það flæddi yfir þá í vatnavöxtum. Það mundi ekki gera mikið tjón.

Það er örðugt að svara þeirri spurningu, hve langan tíma það muni taka, að landið grói upp. Oft hefir land, sem árnar hafa gert ónýtt, gróið upp aftur á 3—4 árum. En sje áin búin að róta upp jarðveginum niður í möl, getur það tekið alt að 20 árum eða má ske enn lengri tíma.

Verðhækkunarskatturinn, sem háttv. þm. S.-Þ. (P. J.) mintist á, er þannig lagaður, að jeg er honum ekki mótfallinn á sínum tíma. Hann væri ekki nema sanngjarn, þegar landið fer að gera gagn. En ósanngjarnt væri, ef hann væri lagður á strax fyrstu árin eftir að byrjað er á fyrirtækinu, og meðan kostnaður, án alls arðs, hvílir á viðkomendum tilfinnanlega. En jeg skildi háttv. þm. S.-Þ. (P. J.) svo, að ekki væri ætlast til þess.

Það er ekki nema sanngjarnt, að menn spyrjist fyrir, eins og sumir háttv. þm. hafa gert. Tali þeir við mig og samþingismann minn (E. P.), munum við gefa rjettar upplýsingar og sannfæra þá um nauðsyn þessa fyrirtækis. Jeg spái, að sýslan verði svo heppin að öðlast velvilja deildarinnar. Jeg vona, að menn missi ekki móðinn við svo nauðsynlegt stórfyrirtæki, þótt tímarnir sjeu erfiðir í bili.