07.08.1917
Neðri deild: 27. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 818 í B-deild Alþingistíðinda. (400)

14. mál, fyrirhleðsla fyrir Þverá og Markarfljót

Jörundur Brynjólfsson:

Jeg þekki ekki af eigin sjón staðhætti á því svæði, sem hjer ræðir um. En mjer hefir skilist, að fyrirhleðsluna eigi að gera í tvennum tilgangi; í fyrsta lagi til þess að fyrirbyggja, að óskemt land eyðileggist, og í öðru lagi til að græða upp skemt land. Mjer er það ekki fullljóst, hve mikið af óskemdu landi vatnagangurinn muni geta eyðilagt, en allmikið mun það vera, og mjer hefir skilist á háttv. framsm. (St. St.), að hjer muni vera að ræða um 40—50 þúsund dagsláttur, sem gróa upp ef fyrirhleðslan verður gerð. Þetta er mikið land og hlýtur að gefa af sjer mikinn arð, sje það í góðri rækt. Jeg þekki að fornu fari töluvert til sveitabúskapar og jarðræktar, og mjer er ant um, að hvorttveggja blómgist sem best. Og mjer dylst það eigi, að það er miklu meira um vert að styðja fyrirtæki slík sem þessi heldur en að vera að berjast fyrir því, að búnaðarfjelagastyrkurinn sje hækkaður um fáar þúsundir króna, eða að vera að streitast við að fá styrkinn fyrir hvert unnið jarðabótadagsverk hækkaðan t. d. úr 15 aurum upp í 16 aura o. s. frv. Jeg er samdóma háttv. 1. þm. Húnv. (Þór. J.) um, að málið sje eigi enn nægilega undirbúið af verkfræðingum.

Þegar t. d. spurt er, hvað vatnið geti hækkað mikið, þá fæst ekki annað svar í áliti verkfræðingsins en að það sje ekki mjög mikið, því að það flæði út yfir landið. Nú skilst mjer, að takmarkið með stíflunum sje þó það, að varna því, að það breiðist út jafnmikið og áður; en þá hlýtur það að hækka í farveginum, þegar það verður að renna í stokk. Það ætti ekki að vera vandi fyrir verkfræðing að segja, hve mikið það mundi hækka, en það hefir hann ekki gert. Þannig mætti fleira nefna, er sýnir, að áætlunin er ekki svo nákvæm, sem æskilegt hefði verið.

En þótt málið sje eigi enn svo vel upplýst sem skyldi, þá mun þó eigi frágangssök fyrir þingið að styðja að því, að það gangi fram. Mjer finst, að það geti og verði að treysta svo mikið gætni og forsjá verkfræðings þess, sem starfið verður falið, að hann muni ekki hefja verkið fyr en fullkomin rannsókn hefir farið fram og því að eins leggja til, að það sje framkvæmt, að hann telji það gerlegt. Það er altaf svo; þegar ráðist er í fyrirtæki, sem heimta sjerþekkingu, að menn verða að byggja vonir sínar og skoðun á áliti einstakra manna, sem hafa þá þekkingu til brunns að bera á málinu sem þá brestur sjálfa. Svo er og um þetta mál. Jeg tel það sjálfsagt, að prenta hefði átt með frumv. allar þær upplýsingar, sem fyrir hendi eru frá hálfu verkfræðinganna, svo og greinargerð fyrir þeim spjöllum, sem vötnin kunna að gera á óspiltu landi, ef ekkert verður hafst að, o. fl. o. fl. svo að hver og einn, sem um málið á að fjalla gæti skapað sjer sem glegsta skoðun á því. En þrátt fyrir það, þótt jeg hefði æskt þess, að málið væri mikið betur upplýst en það er frá þeirra hálfu, sem um það hafa fjallað, sjerstaklega verkfræðinganna — þrátt fyrir það, segi jeg, mun jeg þó greiða atkvæði með frv., því að mjer dylst ekki, að hjer er um bráðnauðsynlegt fyrirtæki að ræða, fyrirtæki, sem margborgar sig, ef það hepnast, eins og vonandi er að verði.

Í umræðunum hafa komið fram nokkur fleiri atriði, sem ástæða hefði verið til að minnast á, en jeg sleppi að tala um að sinni.