07.08.1917
Neðri deild: 27. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 820 í B-deild Alþingistíðinda. (401)

14. mál, fyrirhleðsla fyrir Þverá og Markarfljót

Matthías Ólafsson:

Jeg ætla ekki að vera langorður, en stend að eins upp til að svara háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) örfáum orðum. Hann fór að beita hártogunum og útúrsnúningum út af því, sem jeg hafði sagt í fyrri ræðu minni, og reyndi af veikum mætti að koma með fyndni, eins og hans er vandi.

Hann lagði mjer þau orð í munn, að ef jeg hefði farið austur og skoðað það, sem hjer er um að ræða, mundi jeg hafa átt hægra með að ákveða, hvernig jeg greiddi atkvæði í þessu máli. En það voru ekki mín orð heldur tók jeg það fram, að hefði jeg farið þarna um fyrir austan þá hefði jeg getað gert mjer ljóst, hve mikið af landi lægi undir skemdum. Því að mjer er ekki svo farið, að jeg geti ekki veitt því eftirtekt, sem jeg sje í kringum mig, þegar jeg ferðast um, þótt mig langi helst til að halda, að háttv. þm. V.-Sk. (G Sv.) sje þannig háttað, því að, eins og allir vita, þá eru sumir menn svo sljóvir, að þeir geta komist á gamalsaldur án þess að vita neitt verulega um það, sem fram hefir farið í kringum þá. Jeg held, að það væri heppilegt fyrir hvern sem væri að geta sjeð með eigin augum hve mikið land liggur undir skemdum, og hve mikið mögulegt er að græða upp af því, sem þegar er skemt. (G. Sv: Það er búið að gera grein fyrir því). Já, en jeg byggi ekki svo mikið á þeim upplýsingum, því að menn eru ekki altaf svo samviskusamir. Jeg hefi oft heyrt menn telja smálækjaraprænur skaðsemdarár, og annað því líkt.

Hann (G. Sv.) álasaði mjer líka fyrir það, að jeg teldi málið illa undirbúið, en jeg verð að halda fast við það, eftir sem áður. Jeg álít nauðsynlegt að rannsaka nákvæmlega áður en farið er lengra, hve vatnsmagnið er mikið, því að eftir því verður styrkleiki garðsins að vera, og vona jeg, að háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) geti gert sjer grein fyrir því, að það er munur á 10 metra þykkum garði og 2 metra, bæði hvað kostnað og styrkleika snertir. Svo hefir það ekki heldur verið athugað nægilega, hvort ekki hagi svo til þar eystra, að ísar á vetrum geti belgt svo upp vatnið og valdið þrýstingi á einum stað, að það brjóti garðinn eða valdi á honum skaða.