05.07.1917
Neðri deild: 3. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 824 í B-deild Alþingistíðinda. (414)

16. mál, dýrtíðaruppbót handa embættis- og sýslumönnum landssjóðs

Fjármálaráðherra (B. K.):

Ráðuneytið gerði ráð fyrir því, að þetta frv. yrði lagt fyrir fjárveitinganefnd. Þetta frv. eða frv. í þessa átt, ætlaðist þingið til, að stjórnin legði fyrir nú. Það er nú fram lagt í þessari mynd. Auðvitað hefði mátt hafa slíkt frv. í margskonar mynd, og spurning getur verið um það, hvort stjórnin hefir hjer hitt það rjetta. Ráðuneytinu þótti þingsályktunartillaga síðasta þings draga illan dilk á eftir sjer, sem sje uppbótin nema miklu meiru en þingið gerði ráð fyrir. Þess vegna hefir stjórnin viljað þrengja sviðið betur, þannig, að uppbótin væri að eins veitt þeim, sem eru í þjónustu landsins, og við þetta hefst fram nokkur sparnaður. En miðað er við sömu formúlu sem við síðustu uppbót, og sömu flokkaskipun; að eins er þó hækkað launahámarkið upp í 5000 kr. Fjárveitinganefnd hefir verið send sundurliðuð skrá um það, hverjum stjórnin ætlast til að uppbótin verði veitt, og sömuleiðis skýrsla um uppbótina í vetur. Nú er það unnið, að hjer þarf ekkert að setja af handahófi, ábyggilegar reglur eru fyrir öllu; og þótt þingið vilji breyta, t. d. strika út eða bæta við á skránni, þá er fyrirhafnarlítið að reikna út endanlega upphæð. Ráðuneytið hefir íhugað þetta mál vandlega, og jeg hygg tæplega, að fundið verði heppilegra fyrirkomulag, eða að frv. batni, ef gerðar verða á því verulegar breytingar.

Jeg skal taka það fram, af því að búast má við, að stjórninni verði legið á hálsi fyrir að hafa ekki tekið tillit til efnahags manna, að það hefir hún ekki gert, heldur að eins bundið uppbótina við launin. Hjer er sem sje ekki að ræða um styrk, heldur lítilfjörlegar bætur á launatapi, sem dýrtíðin hefir valdið. Þess ber að gæta, að þótt starfsmenn landsins fái þessa uppbót, þá nemur hún ekki nándar nærri eins miklu og almenn verkalaun hafa hækkað. —

Stjórnin hefir ekki heldur tekið tillit til þess, hvort menn ættu börn fram að færa, og liggur það í því, að launalög eru aldrei miðuð við, hve þurfandi starfsmaðurinn er, heldur við það, hversu mikið þurfi að greiða fyrir verkið.

Með tillögum stjórnarinnar sparast 120 þús. kr., miðað við uppbótina í vetur.

Að öðru leyti skal jeg ekki fara nánara út í frv. nú, en skírskota til athugasemdanna við það. Vænti jeg, að lokinni umræðu, að frv. verði vísað til fjárveitinganefndar, eins og stjórnin hefir ætlast til.