05.07.1917
Neðri deild: 3. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 828 í B-deild Alþingistíðinda. (416)

16. mál, dýrtíðaruppbót handa embættis- og sýslumönnum landssjóðs

Þorsteinn Jónsson:

Háttv. 1. þm. Reykv. (J. B.) hefir þegar tekið margt af því fram, er jeg vildi segja. Í þessu máli, sem nú er um að ræða, býst jeg við, að menn geti vart fundið sameiginlega leið. Rjettlátasta leiðin í máli þessu er ófær, ófær af þeirri ástæðu, að fjárhagsástæður landsins leyfa ekki, að hún sje farin. Sú leið er, að landssjóður borgi starfsmönnum sínum verðfall peninganna, sem orðið hefir frá því að stríðið byrjaði. Það, sem hjer er rætt um, hefir verið kallað dýrtíðaruppbót, en eins vel mætti kalla það dýrtíðarhjálp. Fyrst að ekki er bætt upp verðfall peninganna, heldur verið að hjálpa opinberum starfsmönnum, sem á því þurfa að halda, mætti þetta heita hjálp. Annars varðar það minstu, hvort þetta kallast hjálp eða uppbót, eða blendingur af hvorttveggja. Dýrtíðaruppbótina verða þeir að fá, sem helst þurfa þess með, en reyna verður að sneiða hjá því að veita þeim embættismönnum uppbót, er afleiðingar dýrtíðarinnar hafa ekki náð mikið til. Það hygst stjórnin reyndar að gera með mismunandi uppbót eftir launahæð. Hún fer sömu leiðina og dýrtíðarnefndin í vetur. En sú leið er áreiðanlega mishepnuð sem rjettlátasta leið í máli þessu. Mjer er líka kunnugt um það, að þjóðin í heild sinni er mjög óánægð yfir því, hvernig þetta mál var afgreitt á þinginu í vetur. Það kom í vetur till. fram á þinginu um að taka tillit til ómegðar embættis- og sýslunarmanna landssjóðs, en sú till. var ekki athuguð nógu vel og feld. Við nánari athugun hefi jeg komist að þeirri niðurstöðu, að hún var rjettmæt, eftir því sem sakir standa, og ætti því að veita dýrtíðarhjálp fyrir hvern ómaga. (Sk. Th.: Hvað meinar þm. með ómaga?) Þann, sem ekki getur unnið fyrir sjer og er á annars manns framfærslu. Sjálfsagt er að takmarka dýrtíðarhjálpina, eftir því sem þingið sjer sjer fært, og veita þeim hana þá helst, sem helst þurfa hennar með.

Jeg er stjórninni ósammála um fleiri atriði þessa máls. Stjórnin hefir slept einstaka stjettum, sem engu síður væri ástæða til að veita uppbót en þeim, sem hún velur úr. Jeg skal t. d. nefna þar póstana. Enda vill þjóðin helst veita þeim opinberum starfsmönnum uppbót, er helst þurfa hennar við, hvort sem þeir eru fastlaunaðir landssjóðsmenn eða ekki.

Mjer skildist háttv. 1. þm. Reykv. (J.B.) vera á móti því, að þeir fengju uppbót, er framleiðslu hafa, en sjálfsagt verður erfitt að finna þar milliveg. Þó efast jeg ekki um, að nokkuð sanngjarna leið mætti finna. Mjer dettur núna í hug, hvort ekki mætti draga af uppbótinni vissan prósentufjölda fyrir hvert ábúðarhundrað. (Sk Th.: En þeir, sem stunda útgerð?) Jeg játa, að jeg hefi ekki hugsað þetta atriði málsins til fullnustu, heldur bendi að eins á þetta til athugunar. Sú nefnd, er tekur við málinu, verður að kanna þær leiðir, er hún sjer heppilegastar í máli þessu, en sneiða hjá þeirri handahófsleið, er farin var á síðasta þingi, eða öðrum álíka villigötum.

Jeg held, að rjettast væri að vísa þessu máli til bjargráðanefndar, og legg því til að 1. umr. verði frestað þangað til að sú nefnd hefir verið skipuð.