23.08.1917
Neðri deild: 41. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 186 í B-deild Alþingistíðinda. (42)

1. mál, fjárlög 1918 og 1919

Einar Jónsson:

Jeg var svo heppinn að eiga enga brtt., svo að jeg get verið stuttorður, enda kemur það sjer vel, þar sem þingmenn nær allir ganga úr sætum sínum, er jeg tek til. Það eru að eins 3 atriði, sem mig langaði að minnast á, og skal jeg fara fljótt yfir sögu. Allir, sem talað hafa, hafa byrjað ræður sínar með því annað hvort að þakka eða vanþakka nefndinni. Mjer finst jeg enga ástæðu hafa til hvorugs, en þó geta verið fremur þakklátur en hitt. Eitt get jeg þó ekki felt mig við hjá nefndinni. Jeg hefði kunnað betur við, að hún hefði farið eftir stjórnarfrumvarpinu með launaákvarðanir til ýmsra starfsmanna, og haldið sjer við þá samninga, sem stjórnin hafði gert við þá, t. d. póstmeistara, vegamálastjóra o. fl. Hæstv. fjármálaráðherra (B. K.) lýsti yfir því, að nefndin hefði ekki leitað sjer upplýsinga um þessa samninga, en það þykir mjer hart. Það getur að vísu rjettlætt gerðir nefndarinnar að nokkru leyti, að tímarnir hafa breyst síðan stjórnarfrumvarpið var samið. En, eins og jeg hefi tekið fram, finst mjer, að þessir menn hefðu átt að finna sig í því að standa við það, sem þeir voru einu sinni búnir að ganga inn á, en eigi krefja nefndina um annað nje meira á bak við stjórnina, þótt þeir yrðu fyrir tekjuhalla, þar sem þó má ganga út frá, að þeir fái dýrtíðaruppbótina. Þetta var 1. atriðið. Í því líkar mjer betur gerðir stjórnarinnar heldur en nefndarinnar. Aftur á móti er jeg nefndinni þakklátur fyrir það, að hún vill fella í burt liðinn í 11. gr. A. 4, eftirlit vegna bannlaganna. Jeg hefi sýnt, að þótt farið væri að veita fje til aukins eftirlits með þessum ólögum, þá kæmi það ekki að neinum notum. Þess vegna er sjálfsagt, að þessi fjárveiting falli niður. Þótt upphæðin væri 100 sinnum hærri en það, sem stjórnin leggur til að veita, þá kæmi það samt að jafnlitlum notum, og hvað á þá að gera með að fleygja fje í slíkt?

Þriðja atriðið, sem jeg ætlaði að fara nokkrum orðum um, eru ummæli hæstv. fjármálaráðherra (B. K.) um brúna á Jökulsá á Sólheimasandi. Hann sagðist tala um það mál af kunnugleika, en jeg verð að álíta, að hann segi það ekki satt. Ef hann væri nokkuð kunnugur málavöxtum, þá hlyti hann að tala af nokkuð mikilli ósanngirni, en jeg trúi síður, að það sje ástæðan til þess. Jeg verð því að álíta, að hann þekki ekkert til þess, sem verið er að tala um.

Jeg verð að andmæla ummælum hæstv. ráðh. (B. K ), því að nýir þingmenn, sem ekki hafa heyrt talað um þetta mál, mundu geta glæpst á því að taka þessi ummæli gild, einkum þar sem því er haldið fram, að þau sjeu sögð af kunnugum manni, en jeg neita, að svo geti verið, nema hæstv. ráðherra (B.K.) vilji ganga inn á, að hann segi þetta af ósanngirni. Það nær ekki nokkurri átt, að hægt sje að byggja brú á þessa á fyrir 5— 10,000 kr. Það er svo fjarri öllum sanni, að mig furðar á, að nokkur skuli láta annað eins til sín heyrast. Til samanburðar get jeg bent á eitt dæmi. Brúin á Ytri-Rangá kostaði 39,458 kr. Sú brú er bygð á tveimur steinstöplum úti í ánni, svo að bogarnir eru 3 í alt. Hver bogi er líklega álíka stór eins og brú á hvern ál af Jökulsá mundi verða.

Nú eru álarnir, sem brúa þarf, að minsta kosti 4. Eftir sama hlutfalli kosta brýr á þá alla 52,612 kr. Líklega yrði ekki komist hjá að brúa 5. álinn, og þá er brúin orðin 65,765 kr., í staðinn fyrir 5—10,000 kr. Verkfræðingurinn hefir áætlað, að brúin mundi kosta 78,000 kr. Jeg skal ekkert fullyrða um það, hvort sú áætlun muni vera rjett, en hygg þó, að hann hafi haldið sjer við það lægsta, sem til brúarinnar þarf, eins og venja er til með áætlanir verkfræðinga yfirleitt. En þótt kunnugur maður úr Mýrdalnum hafi fullyrt, að hægt væri að byggja brú fyrir 10,000 kr., þá mun jeg fyr hafa þrætt við hann um þetta, og líklega getað sannfært hann, af því að hann er kunnugur og rjettsýnn maður. Jeg veit, að þessi maður er hlyntur brúargerðinni og því hefir hann viljað fá byrjunarfje til fyrirtækisins, í von um, að því yrði þá haldið áfram úr því. Jeg hygg, að hann hafi frekar sagt þetta af ásetningi, til þess að leika á ráðh. (B. K.), heldur en að hann hafi álitið, að það væri rjett. Það getur verið dálítið villandi, sem hæstv. ráðh, (B. K.) hjelt fram, að áin sje smáspræna, og ekki komi hlaup í hana nema á 200 ára fresti. Það getur verið, að fyrir komi ár, sem ekkert hlaup kemur í ána, en hin árin eru fleiri, sem hlaupin eru mörg, og oft skamt á milli þeirra. Mjer er nær að halda, að það líði aldrei svo heilt ár, að ekki komi fleiri eða færri hlaup. Vatnið safnast fyrir í holur uppi í jöklinum, þangað til það er orðið svo mikið, að það brýtur skarð úr jöklinum og flæðir þá yfir alt. Þetta getur komið fyrir oft á hverju ári, og þá er einmitt mest þörf á brú. Þess á milli er áin ekki sjerlega mikill farartálmi, en þegar hlaup er í ánni, þá kæmi 5000 kr. brúin að engu gagni. Milli hlaupanna rennur áin í einum ál, sem hún hefir runnið í lengi. En þegar hlaup koma í ána, þá dreifir hún sjer í 3, 4 eða 5 ála. Yfir þá alla þarf að byggja brýr, svo traustar, að hlaupin skoli þeim ekki burt. — Það hefir áður verið sýnt, að brú geti staðið á þessum álum, með því að vitna í svo nefnda Stóru steina á sandinum. Það eru klettar, sem eru hjer um bil 4 faðmar á hvern veg og 2 mannhæðir. Þessir steinar hafa legið svo lengi á sandinum, sem menn muna eftir, og aldrei haggast. Sýnir það, að steinsteypustöplar undir brú geti staðið, ef þeir eru gerðir jafnþungir þessum steinum og jafntrúlega um þá búið. Jeg man svo langt, að hæstv. fjármálaráðh. (B. K.) var líka á móti því, að bygð væri brú á Ytri-Rangá, en vildi láta fylla hana með sementspokum og búa þannig til braut á botninum. Nú er búið að brúa þessa á, með góðri og traustri brú, yfir vatninu, en ekki undir. Jeg hjelt þá, að þetta væri blekking hjá hæstv. ráðherra(B. K.). Eitthvað svipað dettur mjer í hug nú, nema ef það getur verið ókunnugleiki, sem kemur honum á þessa skoðun. Líklega hefir hann aldrei farið yfir Jökulsá á Sólheimasandi, og vona jeg, að hann dragi það ekki lengur. Ef hann yrði þá fyrir sæmilegu hlaupi, er jeg viss um, að hann gengi fljótt inn á till. háttv. fjárveitinganefndar.