06.07.1917
Neðri deild: 4. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 836 í B-deild Alþingistíðinda. (422)

16. mál, dýrtíðaruppbót handa embættis- og sýslumönnum landssjóðs

Bjarni Jónsson:

Jeg hafði hugsað mjer, þegar þetta mál var hjer síðast til umræðu, að svara nokkrum orðum út af því, sem þá kom fram í málinu. Í því skyni hefi jeg hafið dauðaleit í endurminningunni, en ekki fundið neitt, sem þyrfti að svara, nema það eitt, er því var haldið fram, að dýrtíðaruppbótin á launum starfsmanna landsins árið sem leið væri talin hjálp. Þessu þarf í rauninni ekki að svara öðru en því að vísa til prentaðs nefndarálits frá þinginu í vetur, þar sem uppbótin er kölluð kaupgjald, en ekki styrkur. Sömuleiðis bera ræður framsögumanna það með sjer, að það er kaupgjald, en ekki styrkur, eins og lesa má í þingtíðindunum. Og enn fremur sýnir atkvæðagreiðslan, að um kaupgjald var að ræða, en ekki styrk. Það þarf því mikil brjóstheilindi til að bera það fram nokkrum mánuðum seinna, að þetta hafi verið styrkur. Annars vita menn, eins og gamall málsháttur segir, að aut est aut non est, tertium non datur. Annaðhvort er það kaupgjald eða ekki kaupgjald. Jeg vænti líka, að menn þekki principium exclusi medii inter duo contra-dictoria. Það er eitt af þessum þremur lögmálum, sem menn neyðast til að hugsa eftir, ef menn ætla á annað borð að hugsa. Ef það er kaup, þá verða menn að muna, að verkamaðurinn er verður launanna, hvort sem hann er kvæntur eða ekki. En ef það er hjálp, eins og sumir halda fram, hvar standa þeir hinir sömu þá gagnvart kjósendum sínum? Hvaða rjett hafa þeir þá til að taka embættismannastjettina út úr og hjálpa henni? Það tekur sig ekki heldur illa út að hafa það eins og á aukaþinginu í vetur, þegar þeir þóttust hjálpa embættismönnunum á þennan hátt, en steindrápu fyrir mjer tvö frv., sem fóru fram á að hjálpa alþýðu manna. Með þessu slá þeir sjálfa sig, er þeir ætla alveg ófyrirsynju að hjálpa embættismanninum, sem allajafna hefir meiri og betri úrræði en aðrir, eða kann að minsta kosti betur að ríða víxlum, en á sama tíma drepa þeir frv., sem fara fram á að hjálpa öllum almenningi, sem þeir segja þó að fremur sje hjálparþurfi. Jeg vildi ekki koma fram fyrir mína kjósendur eftir slíka frammistöðu, því að þeir eru menn rjettsýnir, sem vilja gjalda hverjum það, sem hann á, en vilja líka, að hjálp sje veitt þeim, sem hjálpar þurfa. Nú hvíslar hjer einn ráðunautur í búspekinni að mjer, að það sje víst gustuk að hjálpa embættismönnunum, því að þeir sjeu altaf kveinandi um kjör sín. Sjálfur er hann embættismaður og tekur laun og dýrtíðaruppbót af almannafje, og jeg vona, að hann fái á sínum tíma eftirlaun fyrir vel unnið starf, eða hans fólk, ef hann verður einhvern tíma dauðlegur. (S. S.: Jeg vona, að háttv. þm. Dala. (B. J.) verði þá ofanjarðar, til að greiða atkvæði með því).

Það er sjálfsagt, að þetta mál komi fyrir fjárveitinganefnd, því að það er ekki annað en viðbót við einn gjaldalið í nokkrum greinum fjárlaganna, sem fjalla um kaup starfsmanna landsins. Annars er það harla undarlegt, að menn skuli vera að deila um það, undir hverja fastanefnd málin heyri. Það fer eftir verksviði hverrar einstakrar nefndar, en það er eins og menn vilji vísa málum til nefnda eftir því, hvort þeir menn, sem í nefndunum sitja, eru málunum hlyntir eða ekki.

Jeg skal svo ekki ræða meira um þetta að sinni, en síðast þegar jeg talaði í þessu máli gleymdi jeg að bera fram fyrirspurn til stjórnarinnar því viðvíkjandi. Svo er mál með vexti, eins og allir vita, að í vetur voru teknir með í uppbótinni menn, sem ekki eru beinlínis starfsmenn landssjóðs, t. d. barnakennarar. Þetta var skilið svo af sumum, að það væri veiting til hjeraðanna, og jeg leit svo á, að það væri hart aðgöngu að gefa út lög á miðjum vetri, sem skipuðu þeim að gjalda sínum starfsmönnum uppbót, eins og landssjóður gyldi sínum, án þess að ljetta þeim byrðina að einhverju leyti.

Þá hefði átt að fylgja stjórnarfrv. annað frv., þar sem hjeruðunum væri gert að skyldu að bæta sínum starfsmönnum, eftir sama mælikvarða, þann skaða, er leiðir af því, að gjaldeyrir fellur. Vildi jeg því spyrja stjórnina, hvort hún hefði fyrirhugað nokkurt frv. í þessa átt.