07.07.1917
Neðri deild: 5. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 864 í B-deild Alþingistíðinda. (435)

16. mál, dýrtíðaruppbót handa embættis- og sýslumönnum landssjóðs

Fjármálaráðherra (B. K.):

Jeg benti á það í framsöguræðu minni, að þingið gæti breytt mælikvarðanum, lækkað hundraðsgjaldið og strikað út þá menn, sem því litust ekki uppbótarþurfar. Jeg sagði og, að stjórninni hefði litist rjettast að skoða dýrtíðaruppbótina sem litla þátttöku í því fjártjóni, er embættismennirnir bíða við dýrtíðina, og annað ekki. Og ekki er rjett að áfella stjórnina fyrir það, að hún lagði launin til grundvallar, því að þann grundvöll var síðasta þing ótvírætt búið að leggja. Þessum grundvelli hefir stjórnin haldið, en þrengt hann með því að taka ekki aukatekjur til greina. Skoðanaskiftum hefi jeg engum tekið, að jeg held. Jeg kvaðst greiða till. atkv. af því, að málið væri svo illa undir búið, og nefndin væði algerlega í villu og svima, og jeg tók það fram, að jeg gæti ekki verið búinn að mynda mjer fullkomna skoðun um málið, vegna þess, að stjórnin hafði ekki undirbúið málið.

Menn geta altaf deilt um það, hvort launahæð eða þörf skuli vera grundvöllurinn, er veita skal dýrtíðaruppbót. Jeg held, að launin eigi að vera grundvöllur. En þingið um það. Einungis vill stjórnin fá að vita upp á hár, hverjum hún á að borga dýrtíðaruppbót.

Háttv. þm. Borgf. (P. O.) gat þess, að sumir menn hefðu verið svo göfugir að neita að þiggja dýrtíðaruppbót. Það er rjett, að einn embættismaður, læknirinn í Hafnarfirði, tók ekki á móti henni. En hann færði þar til þá ástæðu, að hann gæti ekki verið þektur fyrir að taka við dýrtíðaruppbót, af því að hún hefði ekki verið veitt af öllum launum.

Hvað snertir óánægju í landinu, get jeg sagt það um mitt kjördæmi, að þar hefir ekki komið fram ein einasta rödd á þeim 4 þingmálafundum, sem þar hafa haldnir verið. Á þrem þeirra var jeg sjálfur staddur, en ekki á þeim 4., og kom þar heldur engin rödd fram. Er þó mitt kjördæmi eitt hinna fjölmennustu utan Reykjavíkur.

Eitt lítið atriði enn vildi jeg minnast á. Háttv. 1. þm. Eyf. (St. St) hefir ekki kynt sjer frv. nógu vel, er hann heldur því fram, að í því sje veitt eins og í vetur 50% uppbót þeim, er lifa á ýmsu öðru og njóta tekna af því. Það er tekið fram í frv., að uppbótin veitist því að eins, að landssjóðsstarfið sje aðalstarf. (St. St.: Það má deila um, hvert starfið af mörgum sje aðalstarfið). Það er aðalstarfið, sem menn hafa aðalframfærslu sína af. Menn geta sjeð á skrá þeirri, er fylgir frv., að þar eru ekki teknir aðrir en þeir, sem hafa það há laun, að þeir geti lifað af á »normal«-tímum. Skrá þessi er geymd hjá fjárveitinganefnd. Jeg vildi annars óska, að menn reyndu að líta rólega á málið. Margir hafa viðurkent, að stjórnin hafi gert tilraun til að spara, þótt sumum þyki ekki nóg að gert í því efni. En þinginu er í lófa lagið að taka til sinna ráða, lækka »skalann« eða nema þá burt, er eigi eru taldir verðir uppbótar.