07.07.1917
Neðri deild: 5. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 876 í B-deild Alþingistíðinda. (441)

16. mál, dýrtíðaruppbót handa embættis- og sýslumönnum landssjóðs

Magnús Pjetursson:

Jeg bjóst við að geta legið af mjer þennan storm, og hefði að líkindum getað það, ef ræða háttv. 1. þm. Árn. (S. S.) hefði ekki komið því til leiðar, að allar festar slitnuðu. (S. S.: Það var leiðinlegt.) Reyndar mátti altaf búast við, að í þeim skjá mundi þjóta, líkt því sem nú hefir þotið. Hann byrjaði með því að fara rangt með orð mín, og kallaði það ósvífni af mjer að segja, að engin óánægja hefði verið út af dýrtíðaruppbótinni í vetur. Þetta hefir mjer aldrei dottið í hug að segja, heldur mótmælti jeg því, að öll þjóðin væri óánægð, því að jeg hefði enga óánægju heyrt. Meiri hluti þjóðarinnar getur þar fyrir verið dýrtíðaruppbótinni andvígur, þótt jeg telji það alveg ósannað. Ef háttv. 1. þm. Árn. (S. S.) hefði ekki haft hugann austur í Flóa, hefði hann átt að geta tekið rjett eftir, og jeg tel það ósvífni að búa til orð, sem aldrei hafa verið töluð, til þess eins að geta glamrað um þau.

Jeg er þakklátur háttv. þm. Mýra. (P. Þ.) fyrir það, hve stillilega hann talaði og að hann hafði kynt sjer þingmálafundargerðir. Það, að helmingur allra þingmálafunda hefir annaðhvort ekki rætt málið eða verið með því, ber vott um, að það er ekki megn óánægja meðal þjóðarinnar út af dýrtíðaruppbótinni, eins og margir hafa viljað halda fram, og sannar það fyllilega mitt mál.

Það var víst annars háttv. 1. þm. Árn. (S. S.), sem færði það sem sönnur fyrir því, að þetta ætti að heita dýrtíðarhjálp, að embættismenn hefðu krafist þess að fá dýrtíðarhjálp. Þetta er jafnrangt eins og annað hjá sama hv. þm., og verst er, að það hlýtur að vera vísvitandi rangt. (S. S.: Þm. hefir heyrt skakt). Jeg hefi heyrt rjett, því að jeg skrifaði það niður, en hvort hv. þm. (S. S.) hefir vitað hvað hann sagði, læt jeg ósagt um. Það var eitt, sem mig furðaði á að heyra hv. 1. þm. Árn. (S. S.) segja. Hann játaði sem sje, að það væri erfitt að komast að fastri niðurstöðu, en maður á því ekki að venjast að heyra slíkt frá þeim hv. þm. (S. S.), að hann treysti sjer ekki til að ráða fram úr öllu. Jeg er líka hissa á því oftrausti, sem hann hafði á stjórninni, er hann vildi fá henni vissa upphæð í hendur og láta hana ráða, hvernig hún útbýtti þeirri upphæð. Jeg hefði getað skilið þetta, ef hann vildi bregða fæti fyrir stjórnina, því að þetta hlyti að verða sannkölluð gildra fyrir hana. Ef allir þingmenn treysta sjer ekki til að komast að fastri og rjettri niðurstöðu, þá er það sannarlega líka ofvaxið stjórninni, þótt hún sje nú skipuð 3 mönnum. Jeg ætla ekki að svara því, sem háttv. 1. þm. Árn. (S. S.) vjek að háttv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.), því að jeg ætla hann mann til að svara fyrir sig.

Jeg man ekki, hver háttv. þm. talaði um það, að sumir embættismenn heimtuðu skilyrðislaust fulla dýrtíðaruppbót. Mjer vitanlega hefir engum dottið í hug að fara fram á það. Till. frá síðasta þingi fór ekki í þá átt, að þeir einu sinni, sem mest fengu, fengju fulla uppbót, heldur var gengið út frá því, eins og háttv. 2. þm. Rang. (E. J.) mintist á, að allir ættu að spara og taka þátt hver í annars kjörum. Það vakti að minsta kosti fyrir síðasta þingi að láta þá, sem meiri laun hafa fengið, taka meiri þátt í annara kjörum en þá lágt launuðu.

Það er undarlegt að heyra menn altaf vera að klifa á því, að meðferð fjárveitinganefndar á síðasta þingi sýni og sanni, að þetta sje hjálp og ekki annað. Vitanlega lagði fjárveitinganefndin verðfall peninganna til grundvallar, og játar þá líka um leið, að landið skuldi í raun og veru öllum starfsmönnum sínum jafnmikið og nemur verðfallinu. En af því, að landið hefir ekki efni á að borga verðfallið til fulls, þá borgar það að eins nokkurn hluta af skuldinni, og þá þeim mest, sem það hefir áður farið verst með.

Það er margt fleira, sem jeg hefi skrifað upp hjá mjer úr ýmsum ræðum, en hirði ekki að fara lengra út í þá sálma. Jeg býst við miklum umræðum við 2. umr. þessa máls, og verð þá ef til vill að taka til máls.

Annars finst mjer þessar ræður allar hafa verið næsta tilgangslausar á þessu stigi málsins og til þess eins að eyða fje og tíma, og svo til þess, að þeir gætu brýnt goggana hver með öðrum, sem ætla sjer að rífa í sundur alla sanngjarna dýrtíðaruppbót.