07.07.1917
Neðri deild: 5. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 881 í B-deild Alþingistíðinda. (444)

16. mál, dýrtíðaruppbót handa embættis- og sýslumönnum landssjóðs

Björn Stefánsson:

Jeg get ekki stilt mig um að láta það í ljós, að mjer þykir það ekki efnileg þingd. til að ráða fram úr dýrtíðarvandræðum þjóðar sinnar, sem hefir varið miklum tíma í 3 daga — eins dýr eins og pappír og prentun er nú — til 1. umr. þessa máls, umræðu, sem mest hefir snúist um þau tvö atriði, í hvaða nefnd málið ætti að fara, og hvaða nafn ætti að gefa þeirri fjárveitingu, sem hjer ræðir um. Hvorttveggja þetta finst mjer smáatriði í samanburði við alvöruna, sem á bak við er. Nafnið út af fyrir sig snertir ímyndaða rjettlætismeðvitund, en í raun og veru er það hjegómatilfinningin, sem það særir.

Við erum ekki ein af ófriðarþjóðunum, en ófriðurinn hefir samt náð til okkar að ýmsu leyti, eða áhrif hans, og valdið okkur nokkrum vandræðum, þótt ekki hafi hann skapað okkur hallæri nje neyð enn sem komið er.

Það hefir verið viðurkent, að það sje engin lagakrafa, sem hjer er um að ræða, heldur sanngirniskrafa — ekki svo að skilja, að jeg sje að gera minna úr sanngirniskröfunni en lagakröfunni; því fer fjarri. En þá kemur spurningin, hvað sje sanngirniskrafa í þessu máli.

Sanngirniskrafa verður það, að þjóðfjelagið í heild og þeir þegnar þess, sem eru þess megnugir, hjálpi þeim, sem ekki geta staðið óstuddir á þessum hörðu tímum.

Það er alment viðurkent af þjóðinni, að henni beri að borga þjónum sínum sæmileg laun. En þá er það krafa hennar um leið, þegar hún á við erfið kjör að búa, að þá taki embættismennirnir þátt í þeim kjörum hennar og þrengi kost sinn að einhverju leyti, eftir því sem ástæðurnar eru til.

Jeg get ekkert sagt um, hver sje vilji þjóðarinnar í þessu efni, en þeir fáu, sem jeg hefi talað við, hafa ekki látið í ljós neina kvörtun yfir því, að peningarnir voru greiddir í þessu skyni. Það hafa menn talið eðlilegt og sjálfsagt út af fyrir sig. En undan hinu hafa menn kvartað, að dýrtíðaruppbótin var látin ganga jafnt yfir ríka og fátæka, svo að þeir menn fengu stundum álitlega fjárhæð, sem betur voru staddir en hinir, sem fjeð greiddu. Mjer dettur í hug það, sem einn bóndi í Breiðdalnum sagði, þegar hann heyrði þetta: »Það er öðruvísi en á dögum Faraós, þegar mögru kýrnar gleyptu hinar feitu; nú eru það feitu kýrnar, sem jeta þær mögru«.

Það hefir töluvert verið þráttað um, til hvaða nefndar þetta mál ætti að ganga. Mjer virðist það liggja opið fyrir, að það gangi til bjargráðanefndar, því að hvort sem þetta er kallað dýrtíðarhjálp eða dýrtíðaruppbót, þá er hjer um dýrtíðarráðstöfun að ræða, sem mjer virðist hvergi eiga heima nema þar.

Einn háttv. þm. var að tala um, að það væri leiðinlegt að hlusta á þessar sífeldu eftirtölur. En það má engu síður segja, að það sje leiðinlegt að hlusta á þá heimtufrekju og það vanþakklæti, sem komið hefir fram í ræðum sumra háttv. þingmanna. Það væri yfir höfuð sannarlega leiðinlegt, ef þetta mál skyldi lenda út á þá braut, að fjeð yrði veitt með eftirtölum og þegið með vanþakklæti.

Háttv. 1. þm. Húnv. (Þór. J.) komst að þeirri niðurstöðu, að sínir kjósendur mundu vera vitrari en kjósendur annara þingmanna. Jeg held, að það sje ekki ráðið til að fá þessari umræðu fljótlega lokið, að við förum hjer að meta vitsmuni kjósenda okkar. Þess vegna ætla jeg að leiða þessi ummæli hans hjá mjer, án frekari athugasemda.