17.08.1917
Neðri deild: 36. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 887 í B-deild Alþingistíðinda. (448)

16. mál, dýrtíðaruppbót handa embættis- og sýslumönnum landssjóðs

Frsm. minni hl. (Bjarni Jónsson):

Jeg spurði háttv. þm. S.-Þ. (P. J.), hvort hann vildi ekki tala á undan mjer, sem er frsm. minni hlutans í þessu máli. Jeg hugði, að svo væri, þar sem hann tilheyrir meiri hluta, þótt jeg viti ekki, hvort hlutur hans er meiri en háttv. 1. þm. Árn. (S. S.). En úr því að svo er ekki, þá ætla jeg að mæla fáein orð. Það er leiðinlegt hlutverk að þurfa að standa hjer þing eftir þing og dag eftir dag og endurtaka það sama upp aftur og aftur fyrir háttv. þm.

Það, sem aðallega ber á milli, er það, hvers eðlis þessi fjárveiting sje og hverju nafni hún eigi að nefnast. Sumir úr meiri hlutanum segja, að einu gildi, hvað hún sje kölluð. En þar skilur okkur á, því að við látum okkur ekki einu gilda, hvaða nafn hlutunum er gefið. Við viljum gefa hverjum hlut það heiti sem hann á samkvæmt eðli sínu. Hjer er því tvent um að ræða, sem hefir orðið að ágreiningsefni, fyrst eðli málsins og svo sjálf upphæðin. Jeg hefi tekið það fram oft áður, að í þessu máli er að eins um tvent að ræða, eins og málshátturinn segir: »Aut est, aut non est, tertium non datur«. Annaðhvort er landsstjórnin hjer að greiða verkamönnum sínum uppbót fyrir, að kaupverð þeirra hefir fallið, eða hjer er um beina hjálp að ræða.

Meiri hluti þessarar nefndar hefir fallist á, að þetta beri að skoða sem hjálp. En nú vil jeg spyrja þá háttv. herra, hvaðan kemur þeim þessi rjettur til að veita embættismönnum landsins hjálp? Hafa kjósendur þessara háttv. þm. falið þeim á hendur að taka embættismenn upp á sína arma, eins og þurfalinga, og veita þeim hjálp?

Jeg vil biðja menn að athuga þetta vel og minnast þess, þótt síðar verði. Við, minni hlutinn, álítum, að háttv. þm. hafi enga heimild til að velja eina stjett manna úr, og það þá stjettina, sem ætti að vera úrræðabest til að sjá sjer sjálf borgið, þótt hún sje ekki ríkust, og veita henni fátækrastyrk. Þeir gæta ekki að því, að með þessu athæfi móðga þeir heila stjett manna, sem síst á það skilið. Jeg lít svo á, að hjer sje ekki um annað en sanngjarna kröfu að ræða, að landsstjórnin veiti embættismönnum uppbót á kaupi þeirra, sem ekki hefir hækkað, þótt kaup allra annara starfsmanna hafi hækkað. Enda þótt jeg hafi tekið þetta fram áður, vil jeg biðja menn um að festa það í minni sjer, því að þeir verða að vera á því hreina með, hvað hjer er að gerast. Við höfum rakið þetta í nefndaráliti minni hlutans, að hvaða leyti embættismenn standa öðruvísi að vígi í þessu máli en aðrir verkamenn ríkisins. Jeg vona, að það sje svo ljóst framsett þar, að þeir, sem lesa mega, sjái skoðun okkar óbjagaða, og jeg hygg, að hún sje svo rjett, að henni verði ekki hnikað með rökum.

Það er að vísu altaf hægt að segja: »Jeg og Ketill segjum nei«, eins og Skugga-Sveinn sagði forðum, en það er engin röksemd. Það hlaut altaf svona að fara, eins og nú er raun á orðin, að nefndin klofnaði út af þessum skoðanamun um það, hvers eðlis þetta mál sje. Og háttv. 1. þm. Árn. (S. S.), sem nú sýnist vera dottinn í nokkra aðra hluta, gæti sparað sjer hótanir eða svigurmæli um, að svo kynni að fara, ef við værum ekki ánægðir með það, sem meiri hlutinn býður okkur, að engin uppbót fengist. Því að jeg þykist vita, að íslenskir embættismenn sjeu svo skapi farnir, og jeg vona, að embættisbróðir minn, háttv. 1. þm. Árn. (S. S.), sje það líka, að þeir þoli illa, að þeim sje sýnd svívirðing. Og jeg hygg, að þeir vilji heldur bíða fjárhagslegt tjón en taka á móti fátækrastyrk, sem þeim er rjettur, eins og þeir væru sveitarómagar.

Nú skal jeg fara nokkrum orðum um einstök atriði hjá háttv. 1. þm. Árn. (S. S.) og þessum margfalda meiri hluta, og hvernig hann hugsar sjer að veita þessa hjálp. Háttv. 1. þm. Árn. (S. S.) telur sjálfsagt, að taka beri tillit til heimilsþarfa. Nú vil jeg spyrja háttv. þm. (S. S.), sem búfræðing, hvort hann telji sjálfsagt að gjalda þeim kaupamanni hærra kaup, sem á fyrir börnum að sjá, heldur en hinum, sem er frjálshaldinn maður. Jeg hygg, að hann muni svara því neitandi því að heimurinn er nú einu sinni ekki betri en þetta. Það væri að vísu æskilegt, að menn væru svo fallega hugsandi, að borga barnamanni hærra kaup, fyrir ef til vill ver unnið verk, en hinum, sem engan ómaga hefir, en jeg hygg, að hvorki landsstjórnin nje menn alment hafi tekið þá stefnu enn sem komið er.

Meiri hluti heldur því fram, að taka beri tillit til þarfa þess, sem uppbótarinnar á að njóta, og þar erum við, minni hlutinn, honum sammála, að því leyti, að við leggjum til, að sá fái meiri uppbót, sem minni launin hefir, og því eingöngu tekið tillit til launanna, en ekki til efnahagsins. Við lítum svo á, að þingið geti samkvæmt stjórnarskránni tekið eignarnámi hjá mönnum, ef nauðsyn krefur, en ekki, að hægt sje að taka tillit til eigna einstaklingsins, eða ráðstafa þeim eftir eigin geðþótta.

Jeg fæ ekki skilið, að það komi landsstjórninni neitt við, t. d. þótt jeg væri svo heppinn að mjer hlotnaðist skyndilega arfur, eða þá það, hvort jeg sem bóndi á 1 kú eða 10 kýr, svo framarlega, sem það er fengið á heiðarlegan hátt. Þegar jeg vinn mitt verk fyrir landið með ákveðnu kaupi, þá kemur því ekkert við, hvað jeg annars kann að eiga.

Þá er annað atriði hjá háttv. meiri hluta, sem er mjög athugavert og einkennilegt. Þeir leggja mikla áherslu á það í þessari úthlutun, hvort menn hafa framleiðslu eða ekki. Og skilst mjer helst, að hjer eigi að hefnast á framleiðendum. Þann hugsunarhátt fæ jeg með engu móti skilið. Hvort er betra fyrir mig að hafa 1000 kr. í tekjur af fje í banka, eða 1000 kr. tekjur af búi mínu, sem fylgir strit og erfiði að fleyta fram? Hví á sjerstaklega að taka tillit til þeirra króna sem fást fyrir kjöt, ull eða aðrar afurðir úr búinu, en ekki til hinna krónanna, sem menn fá fyrirhafnarlaust, sem rentur af peningaeignum? Þessi aðferð hlýtur að vera bygð á nýjum hugsunarlögum, sem hingað til hafa verið óþekt, og ef Aristoteles væri kominn hjer á meðal vor, mundi hann roðna af fávisku sinni, að hafa ekki þekt svona merkileg lög áður, svo að hann gæti sett þau í rökfræði þá, er hann er höfundur að.

Þá er eitt enn hjá háttv. meirihluta, að hann vill færa niður það takmark á launum, sem miða á við þessa uppbót, og segir sem svo, að af 3500 kr. geti menn vel bjargast. Þetta get jeg vel skilið hjá þeim háttv. þm., að þeir vilji ekki, að sveitarómagarnir fái ofmikið. En hví má þá ekki eins fara hina leiðina, og láta alla fá 3500 kr., taka ofan af þar, sem meira er fyrir, og skeyta við það, sem minna er, fyrst að þeir á annað borð hafa tekið að sjer að bjarga þessari stjett manna, svo að hún deyi ekki úr hungri?— Jeg vil að eins skjóta, þessu til hinnar stóru niðurjöfnunarnefndar í þessum stóra hreppi, hvort hún ekki vilji taka þetta til íhugunar, og má ske jafna niður á ný.

Þá gerir háttv. meiri hluti enn fremur ráð fyrir, að hver embættismaður fái mjólkurstyrk handa börnum sínum, þannig, að hvert barn undir 15 ára aldri geti fengið sem svarar ½ pela af mjólk á dag. Í þessu kemur fram mikil hjartagæska og hugulsemi, sem á vel samstætt við aðrar dygðir háttv. meiri hluta. Að eins furðar mig á því, vegna hvers þeir hafa ekki orðið háttv. þm. S.-Þ. (P. J.) samferða, og látið veslings gamalmennin njóta þessara hlunninda líka. Þá hefði þeirra góða hjartalag komið enn betur í ljós, því að gamalmennin þurfa engu síður á mjólk að halda en börnin, því að oft á gamalt fólk engu betra með að vera án mjólkur en börn, og að því leyti lýsir hans till. betri mannspörtum, en vera má, að þar ráði nokkru um, að hann er orðinn hniginn að aldri og veit, að elli og dauði bíða okkar allra, og man, að ellin er til og að fleiri ómagar eru til en börn 15 ára og yngri. Þetta hefði verið skiljanlegt eftir hugsanagangi meiri hlutans, og hann hefði átt að vera sjálfum sjer svo samkvæmur að taka alla framfæringa með.

Hjer kemur enn ein perla. Ef verkamaður landssjóðs er einhleypur, og hefir yfir 2000 kr. laun á ári, þarf engar skaðabætur að gjalda honum. Jeg veit ekki, hvort háttv. meiri hluti hefir athugað það, að þessi maður getur verið í þann veginn að gifta sig; getur að eins staðið á hjónavígslu, og leyfisbrjefið fengið. (S. S.: Þá kemst hann í hinn flokkinn). Þá er hann búinn að taka við náðargjöfum nefndarinnar, og ekki víst, að hann átti sig á viturlegri ráðstöfun hennar.

En þetta er dálítið einkennilegt frá annari hlið tekið, því að ef nefndin vill jafna niður eftir efnahag, þá á hún að vita, að nýgiftur maður, sem ekkert á af blessuðum börnunum, getur ásamt konu sinni lifað með litlu meiri kostnaði og verið betur staddur en einhleypur maður, sem verður að kaupa sjer fæði og alla aðhlynningu. Getur því nefndin sparað mikið með því að strika einnig út alla gifta en barnlausa starfsmenn landsins, því að þeir þurfa ekki meiri styrk en einhleypingarnir. Það er auðsjeð, að þessir menn hafa ekki setið lengi í hreppsnefnd, úr því að niðurjöfnunin tekst ekki betur en þetta.

Þá er einn flokkur manna, sem hv. meiri hluti hefir sett inn, og jeg sjálfur hafði mikla löngun til að setja inn, og var að hugsa um að gera, í samráði við fjelaga mína. En á landssjóði hvílir engin skylda í þessu efni, og líklega væri rjettara, að þingið gæfi út lög, er skylduðu hjeruðin til að veita starfsmönnum sínum uppbót, eins og landssjóður sínum. En mig hefði langað til að taka þá hjer upp, en um það hefi jeg ekki getað ráðgast við fjelaga minn í minni hlutanum. Aftur er hjer dálítil rúsína í endanum. Háttv. meiri hluti hefir ekki sjeð sjer fært að ganga lengra en til þeirra barnakennara, sem eru fastir við skóla, er landssjóður styrkir. Mannúðin nær ekki lengra. Hinir, sem eru lausir, eru eins og ógiftu mennirnir, að þeim er ekki hjálpar þörf. Hvers vegna eru háttv. niðurjöfnunarnefnd svo mislagðar hendur? Hún ætlast líklega til, að hjeruðin veiti þeim sveitarstyrk, með missi kosningarrjettar? Hvers vegna vill háttv. meiri hluti, að sumir fari á landshreppinn og sumir á sveitina?

Hjer er ein grein í nefndaráliti háttv. meiri hluta, sem jeg ætla, að háttv. frsm. (S. S.) mintist ekkert á, og jeg er alveg samþykkur. Það er, að Búnaðarfjelag Íslands veiti sínum starfsmönnum sömu launabót og landssjóður. En jeg vil nú heita því að fylgja því fram, að ef þingið gengur illa frá sínum skaðabótum, þá skuli ekki betur gengið frá skaðabótum Búnaðarfjelagsins. (S. S: Um það getur þingmaðurinn engu ráðið). Háttv. ráðunauturinn ætti ekki að tala svo digurt; það getur vel skeð, að jeg verði formaður fjelagsins, og þá skal jeg muna svo ágætan embættismann sem háttv. ráðunautinn.

Þá kemur það atriði, sem er auðskilið deiluatriði á þingi, þótt allir hugsi, svo sem vera ber, að þetta sje sanngjarnar skaðabætur, sem veittar eru til að bæta það upp, að gjaldeyririnn er nokkurs konar fölsk mynt. Þótt menn sjeu sammála um þennan augljósa hlut, þá getur menn greint á um, hve mikil sú uppbót skuli vera. Úr því að fullar bætur eru eigi veittar, er ekki nema eðlilegt, að ágreiningur verði milli meiri og minni hluta. Legg jeg því ekki neina sjerstaka áherslu á það, að háttv. meiri hluti er okkur ekki sammála um það. Sumir hyggja, að landssjóður sje ekki fær um að standa straum af sanngjörnum kröfum, er á honum hvíla. Má það vera, en benda vil jeg á, að þegar borið er saman við veitingu þingsins í vetur, þar er allir hinir sömu þingmenn sátu, nema hinn eini, sem nú er því miður horfinn, og þegar alt var ódýrara en nú, leggur þó meiri hlutinn nú til, að veittar verði minni skaðabætur. Mikið má hagur landssjóðs standa illa, er nú skal minna veita, þótt skaði starfsmanna sje miklu meiri en áður.

Áður en jeg sest niður, vil jeg benda á, hvað eiginlega er á seiði, þegar kaup starfsmanna rýrnar svo sem orðið er. Þegar löggjafinn ákvað kaup starfsmanna landsins, ákvað hann það í peningamynt. Jeg er sannfærður um, að hann hafði þá ekki hugmynd um, að vara sú, er hann borgar með, peningarnir, væri svo stopul í verði. Og löggjafinn ætlast til, að launin hafi ætíð sama notagildi sem þegar þau eru sett. Þess vegna er í sjálfu sjer gjaldeyrir landssjóðs orðinn fölsk mynt, kaupið minna en löggjafinn ætlaðist til. Formlega er þetta öðruvísi; í lögunum er ákveðin viss krónutala, og þýðir ekkert að fara í mál, en í raun og veru er þetta svona. Hvað er þá um, er landssjóður ræður mann til verks fyrir 3000 kr., og sá þarf svo 7000 kr. til að lifa við. Þegar landið lætur hann bera þennan skaða, er þetta ekki annað en 4000 kr. skattur, lagður á manninn, sem hefir 3000 kr. tekjur. Rjett á litið, er því hjer skattur lagður á eina stjett manna í landinu; tekið af henni nokkuð af því kaupi, er um var samið. Úr þessu verður ekki bætt á annan hátt en að Alþingi ákveði að bæta upp verðfall gjaldeyrisins, því að kaup og gjaldeyrir er ákveðið með lögum, og verður ekki hnikað til, nema breytt sje gjaldeyri eða ný launalög samin. Þetta alt mátti laga með því ráði, er hjer var um rætt í gær, um nýjan verðmæli. En nú hefir því máli verið vísað til nákvæmari rannsóknar og er því úr sögunni að sinni.

Þegar litið er rjett á mál þetta, eins og það er í eðli sínu, skil jeg ekki, að margir þm. treysti sjer til að mótmæla því, að það sje rjett, að landið taki einhverja hlutdeild í skaða verkamanna sinna. Og ekki get jeg ímyndað mjer, að neinn háttv. þm. hyggi kjósendum vaxa í augum, þótt ríkið hagi sjer ekki ver en bændur sjálfir í þessu efni. Hygg jeg að alþingiskjósendur íslenskir ætlist til þess, að litið sje upp til Alþingis og ríkisins, hins íslenska ríkis, og þess vegna hygg jeg engan kjósenda munu átelja, þótt ríkið veitti þær skaðabætur, er stjórnin hefir farið fram á og með þeim hætti, er jeg hefi áður lýst

Jeg skal geta þess, að við höfum látið marga hluti standa óbreytta í frv. stjórnarinnar, og hugðum, að meiri hlutinn mundi svo vitur og höfðinglyndur að taka það upp, og mun það samkomulagsatriði frá okkar hálfu, hverjir og hve margir skuli upp teknir, er eigi gátu fylgt með.

Í raun og veru er það alveg sama fyrir fjárhag landsins, hvort skaðabætur eru greiddar úr landssjóði eða sýslu- og hreppasjóðum. Það er að eins formsmunur, en eigi efnis.

Jeg vil að endingu minna á, að landssjóður og þjóðin eru engir aðskildir aðiljar. Landssjóður er engin búri, sem á að hokra fyrir sig og gæta þess, að aurarnir í kistuhandraðanum aukist. Landssjóður er þjóðin sjálf, og skaði einstaklinganna er þjóðarskaði. Það er þjóðin, sem er vinnuveitandi þeirra, er vinna sjerstaklega fyrir hana.

Getur ekki ríkið lagt skatt á aðra, er það vantar fje? Það getur ríkið. En get jeg það? Á ríkið að hjálpa einstaklingunum eða einstaklingarnir ríkinu, er á hallast? Á landssjóður ekki að styðja menn í hallæri gegn því að taka aftur af þeim fullkomnar skaðabætur, er hallærinn er lokið?