17.08.1917
Neðri deild: 36. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 895 í B-deild Alþingistíðinda. (449)

16. mál, dýrtíðaruppbót handa embættis- og sýslumönnum landssjóðs

Fjármálaráðherra (B. K.):

Jeg gat þess við 1. umr., að stjórnin hefði talið sjer skylt að fara sem næst því, er síðasta þing gekk frá í þessu máli, og að stjórnin gerði það með hálfum huga að takmarka dýrtíðaruppbótina eins og hún gerði. Hún hjelt, að þingið myndi finna að sparsemi stjórnarinnar og koma fram með tillögur til hækkunar uppbótinni. Hún gerði ráð fyrir, að þingið myndi verða í svo föstu samræmi við sjálft sig um 6 mánaða tíma. Eins og jeg hefi tekið fram áður er stjórninni þetta ekkert kappsmál, en af þeim ástæðum, er jeg nefndi, þorði hún ekki að þrengja dýrtíðaruppbótina meir en hún gerði, og bjóst þó við aðfinningum í gagnstæða átt Jeg gat þess og áður, að enn meira mætti minka dýrtíðaruppbótina með því að breyta »skalanum«, nema burt einstaka menn, sem ekki þyrftu uppbótar við, og jafnvel fella burt heila flokka. Hins vegar vissi stjórnin, að verð allra nauðsynja hafði hækkað stórum síðan aukaþingið sat á rökstólum og til þess, er frv. var samið, og skammaðist sín fyrir að hafa ekki tekið tillit til þess. Peningar eru nú í miklu minna verði en nokkru sinni áður, og launin þar af leiðandi í rauninni orðin lægri en upphaflega var til stofnað. Eins og jeg tók fram við 1. umr. var það ekki hugsun stjórnarinnar að skoða þetta sem styrk, heldur sem dálítinn þátt í þeim skaða, er menn bíða við verðfall peninganna. Tók hún því ekki tillit til ómaga þeirra, er menn hafa á framfæri, því að launalögin taka ekkert tillit til þess. Landið vill borga svo eða svo fyrir hvert starf, án tillits til ástæðna þeirra, er stöðurnar eiga að skipa.

Nú er skoðun háttv. nefndar (meiri hluta) önnur. Hún skoðar þetta sem styrk og raskar þannig þeim grundvelli, sem frv. er bygt á.

Jeg hefi ekkert út á það að setja, að nefndin vill bæta kennurum við, þótt stjórnin hafi viljað spara. En það verð jeg að telja mjög óheppilegt, ef svo verður fyrir mælt, að þeir fái enga dýrtíðaruppbót, sem einhverja framleiðslu hafa til lands eða sjávar, svo að nokkru nemi. Stjórnin mun eiga örðugt með að vega þetta, hver hafi framleiðslu »svo að verulegu nemi«. Og mjer finst, eftir hljóðinu í háttv. deild undanfarið, sem menn muni ekki hafa lagt upp mikinn arð af framleiðslu á þessu ári, hvorki af sjávarútvegi nje landbúnaði. Þetta er þýðingarlaust, en gerir stjórninni örðugra fyrir. Væri þá betra að strika þá alveg út, er hafa einhvern sjávarútveg eða landbúnað. Svo kann jeg ekki við, að uppbótin sje færð þannig niður, að ekki komi aðrir til greina en þeir, er hafa undir 3500 kr. laun. Maður skyldi ætla, að mikið ætti að sparast við þetta. En það eru ekki nema 3—4 menn, er hafa milli 3500 kr. og 5000 kr., sem stjórnin setti sem lágmark. Þegar nú dýrtíðaruppbótin af þessum launum er ekki nema 5%, virðist ekki mikið sparað.

Um einhleypa menn er búið að tala. Það gæti komið til mála, að þeir, sem einhleypir eru, hefðu hálfa dýrtíðaruppbót, og er í því tilliti betri till. háttv. þm. S.-Þ. (P. J.). En það yrði oft afarerfitt fyrir stjórnina að finna út, hverjir hafa fyrir fleirum en sjer að sjá, þótt einhleypir sjeu kallaðir, því að kunnugt er, að einhleypir menn hafa oft fyrir tveimur eða fleirum að sjá. Held jeg því best, að þeirri skilgreiningu væri slept. Hitt er annað mál, eins og jeg sagði við 1. umr., hvort menn vilja hækka »skalann« eða lækka. Hefði jeg haldið rjettara að hækka hann, en háttv. meiri hluti vill lækka. Skal jeg svo ekki fjölyrða frekar, en tel eftir ástæðunum ekki sanngjarnt að lækka uppbótina frá því, sem stjórnin hefir lagt til. Um brtt. háttv. þm. S.-Þ. (P. J.) á þgskj. 433 vil jeg ekki ræða, en get verið samþykkur einni þeirra, er jeg gat um áður.