17.08.1917
Neðri deild: 36. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 914 í B-deild Alþingistíðinda. (456)

16. mál, dýrtíðaruppbót handa embættis- og sýslumönnum landssjóðs

Gísli Sveinsson:

Jeg get glatt þá háttv. deildarmenn, er tímalausir teljast vera, á því, að jeg hefi gleymt ýmsu, er jeg vildi hafa tekið fram út af ummælum þeirra, sem talað hafa hjer í dag. En jeg hygg, að það geri ekki mikið til, því að flest er það gömul saga, kunn frá fyrri tímum. Háttv. frsm. meiri hlutans (S. S.), sem nú er ef til vill þrískiftur orðinn, kemst svo viturlega að orði, hvað það atriði snertir, sem meiri hluti nefndarinnar hefir tekið upp, fram yfir bæði frv. stjórnarinnar og till. minni hlutans, nefnilega kennarana, að ekki mundi verða vinsælla að skylda hreppa- og bæjarfjelög til að greiða þeim uppbót en að láta landssjóð gera það. Mjer þykir það vera undarleg aðferð, þegar leita á uppi, hvað vera mundi rjettlátt, eða hvað ranglátt, að fara þá í staðinn að syngja hátt um, hvað mundi verða vinsælt eða óvinsælt hingað og þangað úti um sveitir. Vjer hljótum, til þess að vera samkvæmir sjálfum oss, að fylgja þeim mælikvarða, sem nú eru færðar sönnur á að er sá sanngjarnasti af því, sem fram hefir komið.

Alt frá því 1915, að lögin um dýrtíðaruppbótina þá voru samþ., og þar til að aukaþing í vetur setti ákvæði um dýrtíðaruppbót til starfsmanna landsins, alt frá þeim tíma og þar til nú hefir ekki enn fundist betri nje sanngjarnari mælikvarði að miða við en sá, sem aukaþingið í vetur komst að og notaði. Það má segja um þá háttv. þm., sem vilja hverfa frá þeim grundvelli, sem þá var lagður og þeir sjálfir samþyktu, og taka annan grundvöll til að byggja á — það má segja um þá, að þeir hafi söðlað um. Því að ef þeir hafa viðurkent hann áður, þá urðu þeir líka að halda sjer við hann nú, nema þeir geti sýnt fram á, að hann sje ranglátur, sem þeir ekki enn hafa gert, nje komið með neinn betri. Þegar nú um það er að ræða, út frá hverju eigi að ganga í þessu máli, þá er ekki nema um tvent að ræða. Annaðhvort á að fara eftir þeim sanngjarna mælikvarða, að hjer sje verið að greiða starfsmönnum landsins rjettmætar skaðabætur, að meira eða minna leyti, eða þá hitt, að verið sje að hlaupa undir bagga með þeim og veita þeim hjálp. Þetta var það, sem olli skiftingu nefndarinnar, enda furðar mig ekki á því, þar sem þetta er höfuðatriði. Svo framarlega sem allir viðurkenna, eins og jafnvel meiri hlutinn gerir, að rjett sje að bæta embættismönnum upp halla, sem þeir verða fyrir, af því að þeim er goldið kaup í föllnum gjaldeyri, þá þarf meira en góðan vilja til að komast að þeirri niðurstöðu, að hjer sje um gustukahjálp að ræða. Þess vegna mótmæli jeg því, að það sje rjettur hugsunarháttur að álykta þannig, ef gengið er út frá þessum forsendum.

Viðvíkjandi því, sem háttv. frsm. meiri hlutans (S. S.) sagði um kennarana, þá er jeg þeirrar skoðunar, að fullkomlega rjettmætt sje, að bæjar- og hreppsfjelög greiði þeim einhverja uppbót úr sínum vasa. Og ef þau vilja ekki gera það af frjálsum vilja, þá gefa kringumstæðurnar fulla heimild til að skylda þau til þess. Um þetta atriði er nefndin ekki sammála. Meiri hluti nefndarinnar segir berlega, að hann vilji ekki, að þau geri það, heldur ætlist til, að það lendi á landssjóði. Það á auðvitað ekkert skylt við þessa niðurstöðu, að í meiri hluta nefndarinnar eru tveir kennarar, sem af skiljanlegum ástæðum bera hag sinnar stjettar fyrir brjósti. En mjer fyndist ekki nema rjett og sanngjarnt á þeim tímum, sem nú eru, að löggjafarvaldið sæi svo um, að hrepps- og bæjarfjelög greiddu sínum starfsmönnum dýrtíðaruppbót, eins og landið gerir við sína starfsmenn. Það mætti ef til vill segja, að það sje þó mannúðlegt að skella þeim á landssjóðinn, þar sem kjör þeirra sjeu ella ekki neitt öfundsverð. En þetta er ekki nema svolítill hluti af öllu því, sem þessi meðaumkvunar-mælikvarði meiri hlutans ætti að ná til; fleira yrði þá að takast með. Hví þá ekki láta þetta ná jafnt til allra starfsmanna, og demba þeim öllum á landssjóð, svo að bæjar- og sveitarfjelög geti í friði setið að sínu? Þótt jeg sje skattskyldur borgari hjer í Reykjavík, þá get jeg ekki betur sjeð en að bærinn sje bæði fær um og skyldugur til að greiða sínum starfsmönnum dýrtíðaruppbót, en ekki landssjóður. Öllum er vitanlegt, að barnakennarar heyra miklu fremur til sveitar- og bæjarfjelögum heldur en landinu, eins og fyrirkomulagið er, þótt aldrei nema skólarnir sjeu að nokkru styrktir af landssjóði. Það er því ekki nema hálfunnið verk að taka kennarana þannig út úr. Þegar það var gert á aukaþingi í vetur, var það mest til að gefa bæjarfjelögum undir fótinn með að veita samskonar uppbót seinna meir.

Háttv. frsm., 1. þm. Árn. (S. S.), taldi fyrir nefndarinnar hönd, litla ástæðu til að styrkja, frá hans sjónarmiði sjeð, með hárri uppbót embættismenn landsins, þegar allur almenningur yrði að sveitast blóðinu.

Þetta er mjög óviðurkvæmilegt orðalag hjer á þessum stað, og það kann ekki góðri lukku að stýra, ef slíkur söngur sem þessi heyrist hjeðan, þegar um það er að ræða að bæta starfsmönnum landsins upp það skakkafall, sem þeir hafa orðið fyrir af völdum dýrtíðarinnar. Það þýðir ekki í þessu sambandi að vitna í það, að einhverjir almenningsmenn eigi örðugt uppdráttar, enda veit jeg ekki betur en að hjer sjeu á ferðinni frv. um að hlaupa undir bagga með almenningi. Það getur verið, að á einstaka stað á landinu láti mönnum vel í eyrum að heyra fulltrúa sína viðhafa slík orð í þingsalnum og á mannfundum, og jeg er sannfærður um, að mikið af þeim andróðri, sem borið hefir á, á móti dýrtíðaruppbót embættismanna, er að kenna því fordæmi, sem fulltrúar kjördæmanna hafa gefið, bæði hjer og heima, er þeir slá á þá strengi, að verið sje að láta embættismönnum gustuk í tje, á kostnað þurfandi almennings.

Háttv. frsm. (S. S.) taldi till. meiri hlutans miðlun, sem þeir líklega, bæði utan og innan nefndar, er helst enga uppbót vildu veita, ættu að geta unað við. Það getur nú meir en verið, að þeir þingmenn sjeu til, sem enga uppbót vilja veita, en það er einkennilegt, að þeir skuli ekki þora að koma fram í dagsbirtuna, ef þeir hafa rök fyrir sínu máli. Mjer þætti gaman að heyra þau rök, því að það væri skemtilegra en að heyra þingmenn greiða atkv. með dýrtíðaruppbótinni með eftirtölum. Það væri rjett, að þingmenn skiftust alveg í flokka um þetta mál, og teldu uppbótina annaðhvort rjettmæta eða ótæka leið.

Það er þá fyrst við tillögur meiri hl. að athuga, að þær ganga út á að færa niður hundraðsgjaldið og lækka launamarkið. Enn fremur er lögð áhersla á að útiloka þá menn, sem þeir halda að sjeu vel stæðir, og sjálfsagt sje að neita þeim um bætur, þótt rjettmætar sjeu. Þá vilja þeir og ekki veita þeim uppbót, sem framleiðslu hafa að nokkrum verulegum mun, og vitna í lögin frá 1915, 4. gr., þar sem eigi er ætluð uppbót þeim mönnum, sem lifa af framleiðslu. Það ákvæði er betra, því að það er hreint. Það er ólíkt hægra fyrir stjórnina að fara eftir því en að greina sundur, hvað er veruleg og hvað óveruleg framleiðsla. Það er alls kostar ókleift fyrir hana. Að vísu hefir lögunum frá 1915 ekki verið fylgt bókstaflega, en það sjá allir, að það er alt annað að taka með þá, sem sama sem enga framleiðslu hafa, eða greina sundur svona alment, hvað er veruleg og hvað óveruleg framleiðsla. Í öðru er spursmálið það að taka með örfáa menn, en hinu að útiloka alla þá, sem verulega framleiðslu hafa.

Þegar litið er á, hvort uppfylt er nokkuð meira »rjettlæti« með þessu, eða þeim mælikvarða, sem meiri hluti bjargráðanefndar segist fylgja, styrkþurftarmælikvarðanum, þá sjest fljótt, að svo er ekki, því að margir verða útilokaðir, sem að sjálfsögðu þyrftu uppbótar við. Í fyrsta lagi eru útilokaðir þeir, sem verulega framleiðslu hafa. Nú getur staðið svo á, að maður hafi verulega framleiðslu, en sje þó styrkþurfi, því að allir vita, að framleiðsla er brúttó, en hjer er ekki átt við nettó-arð af framleiðslunni; hjer er reiknað eftir því, hve mikil framleiðslan er, en ekki eftir því, hve mikill arður er af henni. Nú getur vel komið fyrir, að maður, sem framleiðslu stundar, sje ómagamaður og skuldamaður, og hafi orðið að leggja mikið í kostnað, og ætti því frá sjónarmiði meiri hlutans að vera styrkþurfi, en samt á hann ekki að fá uppbót, af því að hægt er að sanna, að hann hafi verulega framleiðslu.

Í annan stað undanskilur meiri hlutinn ekki stóreignamenn, þótt þeir ættu hundruð þúsunda í bankanum og fái þúsundir króna í vexti á ári; þeir fá uppbót, en hinir, sem berjast í bökkum, fá ekki neitt, af því að þeir hafa það, sem meiri hlutinn kallar verulega framleiðslu. Þessi grundvöllur meiri hlutans, að fara eftir framleiðslu, getur því verið mjög ranglátur.

Enn fremur vill meiri hlutinn taka tillit til þess, hvort starfsmenn landsins eru einhleypir eða ekki. Nú vill svo til, að einhleypir menn geta, fyrir utan það, að þeir, sem vinna sama starf, eiga heimtingu á sama kaupi — að einhleypir menn, segi jeg, geta verið eins þurftugir fyrir uppbót eins og hinir, sem eru kvæntir og eiga gott heimili, en engan ómaga, — því að jeg get ekki kallað góða konu ómaga, þótt háttv. meiri hl. virðist ætla að svo sje, því að hann ætlast til, að kvænti maðurinn, þótt barnlaus sje, fái uppbót. Nú getur þó staðið svo á, að einhleypi maðurinn standi ver að vígi en sá kvænti; því að hann getur verið fátækur og skuldugur, átt fyrir einhverjum að sjá, og staðið að öllu leyti ver en hinn, sem kvæntur er. Auk þess er það alkunna, að maður, sem á heimili, stendur betur að vígi með að lifa sparlega en ýmsir einhleypingar, sem verða að kaupa alla hluti dýrum dómum af framandi fólki. Ef svo litið er til uppbótar, sem meiri hl. ætlar fyrir börnin, þá er líka ærið misjafnt, hvernig menn framfæra börn sín, því að, eins og kunnugt er, veita ýmsir, sem börn eiga utan hjónabands, þeim börnum mjög ljelegt framfæri, og er því lítil ástæða að veita slíkum mönnum uppbót fram yfir aðra, nema háttv. þing taki upp þá stefnu, að veita sjerstakar uppbætur fyrir það að framleiða börn.

En hvað sem þessu líður, er það algerlega rangur mælikvarði að taka tillit til heimilisástæðna manna, þegar verið er að tala um borgun fyrir ákveðið verk, enda því ekki fylgt hjer áður í launaákvörðunum.

Háttv. þm. S.-Þ. (P. J.), sá er sjerstaka afstöðu hefir tekið til þessa máls, og komið með miðlun á miðlun ofan, þ. e. a. s. ef hægt er að kalla tillögur hv. meiri hluta miðlun, — komst svo að orði, að peningauppbætur væru ekki nægilegar, og það yrði því einnig að taka tillit til þarfa manna. Annars var erfitt að sjá, að hvorum hlutanum hann hallaðist meir, því að hann kvaðst vera með báðum, og verður það að teljast talsverður ágalli, að hann skuli ekki hafa tekið hreinni afstöðu til málsins. En jeg spyr: Hví eru peningauppbætur ekki nægilegar, ef þær eru gerðar svo sem rjettlæti tilsegir?

Hv. 2. þm. N.-M. (Þorst. J.) taldi sömu hugsun vaka fyrir öllum, bæði hæstv. stjórn, meiri hluta og minni hluta bjargráðanefndarinnar. Þótt það eigi nú svo að heita, að báðir hlutar nefndarinnar vilji »bæta« starfsmönnum þess opinbera upp einhvern halla, er það afarólíkt, sem þeir ganga út frá, og þess vegna verður útkoman svo ólík, sem raun er á orðin, og hún hlyti altaf að verða ólík, enda þótt sú hugsun meiri hlutans kæmi betur í ljós, að bæta þeim upp hallann, sem helst þyrftu þess með. Hann og fleiri meiri hluta menn treysta sjer ekki til að segja, hvort verði dýrara fyrir landssjóð, að fara eftir þessum mjög órjettlátu tillögum meiri hlutans, eða þeim tiltölulega rjetta og sanngjarna grundvelli, sem lagður var af aukaþinginu í vetur. Þeir hafa jafnvel látið í ljós vafa um, hvort yrði ódýrara. Ef það er tilfellið, er mjer alveg óskiljanlegt, hvers vegna þeir vilja fara þá leið, sem þeir hafa haldið hjer fram. Það gæti verið meining í því, ef hægt væri að sanna, að það yrði ódýrara fyrir landssjóð. — Þá gæti verið meining í því, segi jeg, að spara landssjóði fje á kostnað annara. Ef þeir treysta sjer ekki til að sýna það, eða ef þeirra leið verður dýrari, þá sje jeg ekki, að till. þeirra sje nein bót mælandi. Ef líta skal á þennan grundvöll, sem lagður var í vetur, er fróðlegt að sjá, hvað gerst hefir úti í frá, hjá almenningi. Nú er það vitanlegt öllum, að löngu áður en starfsmenn landssjóðs fengu uppbót var orðin mikil kauphækkun hjá öllum þorra manna, eins og rjett var og sjálfsagt. Ef einnig er litið á, hvað ýms fjelög hafa gert, t. d. þau, sem stjórnað er af tómum bændum, eins og Sláturfjelag Suðurlands, þá stingur það mjög í stúf við tillögur háttv. meiri hluta, því að á síðasta aðalfundi fjelagsins var samþykt að veita sömu dýrtíðaruppbót í öllum aðalatriðum og þá, er starfsmönnum landssjóðs var veitt á aukaþinginu í vetur. Nú er mjer alveg óskiljanlegt, hvers vegna bændafulltrúar meiri hlutans vilja ekki byggja á sama grundvelli og sýnt er að bændur fylgja í sínum eigin fjelagsskap, að því ógleymdu, að bæjarstjórn Reykjavíkur, sem stendur nærri meiri hlutanum, þar sem einn meiri hlutamaður á sæti í bæjarstjórninni, hún veitti sínum starfsmönnum sömu uppbót og þingið í vetur gerði ráð fyrir. Nú er ekki víst að bæjarstjórnin haldi því áfram, er hún sjer, að við erum hjer að taka á okkar arma þá menn, sem hún á að launa, og veitum þeim dýrtíðaruppbót. Jeg tel það meðal annars óheppilegt fyrir þá sök, að bæjarstjórnin og fleiri hafa tekið upp þá stefnu, sem Alþingi fylgdi í vetur. Ef þingið breytir nú um til hins verra, er hætt við, að starfsmenn annara stofnana verði ver settir með dýrtíðaruppbót. (E. A.: Ekki Búnaðarfjelagsins). Það er rjett; jeg býst við, að starfsmenn Búnaðarfjelagsins fái uppbót úr landssjóði, enda hefir ekki gleymst að taka það fram í nefndarálitinu. Einhverjum í meiri hlutanum hefir víst þótt mjög áríðandi, að það gleymdist ekki. (J. B.: Hv. 1. þm. Árn. (S. S.) átti ekki þá uppástungu). Háttv. 1. þm. Reykv. (J. B.) komst svo að orði, að hann hefði mikla tilhneigingu til að koma með eða aðhyllast ýmsar tillögur, sem ekki voru í samræmi við álit meiri hlutans, enda hefði hann ekki verið sammála honum um ýmislegt. Það er mjög illa farið, þegar menn kæfa niður tilhneiginguna til þess rjetta. Jeg get ekki slept að minnast á það, að háttv. þm. (J. B.) taldi þann grundvöll sem lagður var af þinginu í vetur, »hjálpargrundvöll« og færði sem rök fyrir þeirri skoðun, að orðin »bráð hjálp« komu fyrir í nefndaráliti fjárveitinganefndar á því þingi. Ef háttv. þm. (J. B.) vill halda því fram, að þetta sje nokkur sönnun, skal jeg á sama hátt sanna, að minni hluti bjargráðanefndar byggir á sama grundvelli, því að í nál. hans kemur líka fyrir orðið »hjálp«. En nú hefir bjargráðanefndin klofnað, einmitt af því, að minni hlutinn vildi ekki viðurkenna, að hjer væri um hjálp að ræða, og þessu hefir þm. ekki neitað. Menn sjá því, hvað byggjandi er á þessari röksemdafærslu háttv. 1. þm. Reykv. (J. B.).

Háttv. þm. (J. B.) talaði líka um, að ástandið væri breytt til hins verra frá því, sem var síðastliðinn vetur, og ætlaði sjer víst að sýna með því, að ástæða væri til að skera uppbótina fremur við neglur sjer nú en þá. Jeg skal benda háttv. þm. (J. B.) á það, að hafi þá verið þörf á að veita ríflega uppbót á launum, þá er þörfin ekki síður brýn nú, enda er þetta játað af öllum, jafnvel háttv. meiri hluta bjargráðanefndar. Jeg skil því ekki, að nokkur skyni gæddur maður geti fallist á þessa röksemdaleiðslu háttv. þm. (J. B.). Ef háttv. þm. (J. B.) hefir átt við nokkuð, þá var helst að skilja, að hann áliti landssjóðinn nú vera svo illa staddan, að hann stæði sig ekki við að borga uppbótina, og hins vegar væri ekki ástæða til að gera mun á embættismönnum og öllum almenningi, með öðrum orðum, ef nokkur kæmist á kaldan klaka, þá ættu embættismennirnir að komast það líka. Jeg vona, að ekki þurfi að eyða orðum að öðru eins og þessu, því að allir hljóta að sjá, hve herfilega villandi þetta. Það getur að sjálfsögðu komið til mála, að landssjóður hlaupi undir baggann með öllum þeim, sem verða illa stæðir, hvort sem hann gerir það með því að veita dýrtíðarhjálp, með því að selja vörur undir verði, eða með því að útvega öllum næga og nógu vel launaða atvinnu. Það geta allir komist í óverðskuldaðar kröggur vegna þeirra hörmunga, er nú geisa, og á það ekki að koma neitt við þessu máli. Hjer er ekki um annað að ræða en grundvöllinn, sem byggja á lögin um uppbót á launum starfsmanna landsins, og engum vinnuveitanda mundi detta í hug að gera neyð almennings að grundvelli fyrir kaupgreiðslu, enda væri það í mesta máta rangt. Ef vinnuveitendur færu eftir tillögum þessa háttv. þm. (J. B.), þá miðuðu þeir verkalaunin við það, að verkamenn þeirra yrðu ekki betur settir en þeir, sem í þröng væru komnir eða mundu komast. Það sjá því allir, að ekki nær nokkurri átt að gera þetta að rakaatriði.

Ummæli háttv. 1. þm. Reykv. (J. B.) um, að rjett væri að útiloka frá kaupbót þessari, dýrtíðaruppbótinni, framleiðslumenn, eru þegar hrakin í sambandi við orð annars háttv. þingmanns, og skal jeg því ekki fara um þetta fleirum orðum.

Úr því að háttv. meiri hluti bjargráðanefndar tók með nokkurn mann annan en þann, sem beint vinnur fyrir landssjóðinn, og úr því að hann þykist byggja á þeim grundvelli að veita uppbótina sem hjálp, þá skil jeg ekki, hvernig á því getur staðið, að hann skilur eftir farkennara og ýmsa lausakennara, en tekur með fasta kennara og vill veita þeim »hjálp«. Því verður þó tæplega neitað, að farkennarar munu að öllum jafni ekki vera betur staddir en fastakennarar. Þetta er því einkennilegra, sem í meiri hluta bjargráðanefndar eru einmitt tveir kennarar, og fádæmi, að þeir skuli verða til þess að fremja slíkt ranglæti á stjettarbræðrum sínum. En þeir munu nú báðir vera fastakennarar.

Jeg hefi nú sýnt það og sannað, að skilningur háttv. meiri hluta bjargráðanefndarinnar á þessu máli sje í öllum aðalatriðum misskilningur, og þess vegna komi till. þeirra ekki að þeim notum, sem þeim er ætlað. Það var því ver farið en heima setið af háttv. meiri hluta, að þeir fóru að leggja »annan grundvöll« en þann, sem lagður var í stjórnarfrumvarpinu og samþyktur hafði verið í vetur af miklum meiri hluta alls þingsins.

Ef vitna á í það, að hagur landssjóðs sje svo, að hann geti ekki risið undir þessari útgjaldabyrði, eins og háttv. þm. Borgf. (P. O.) gerði, þá er því fyrst og fremst þar til að svara, að ekki er sannað, að till. meiri hlutans hafi minni útgjöld í för með sjer, og auk þess er það ósannað mál, að hagur landsins sje svo bágborinn, að ekki sje hægt að fá lán, enda neitar stjórnin því. Það er alkunnugt, að þótt taka þurfi lán, og það jafnvel til eyðslu, þá þarf ekki endilega að leiða af því, að landið sje fjárhagslega illa statt. Enda þarf ekki um það að deila, að nú á að taka lán til þess, að ekki þurfi að auka útgjöld landsmanna, meðan neyðin er mest. Og það er rjett, að þær byrðar, sem við nú verðum að takast á herðar vegna ástandsins í heiminum, komi líka að nokkru niður á eftirkomendunum.

Jeg vildi enn leyfa mjer að minna á tvö atriði, sem jeg sje ekki að komi fram í stjórnarfrumvarpinu nje í till. þeim, sem fyrir liggja. Það eru fyrst tímakennarar við landsskólana. Það ber að taka það skýrt fram, að þeir eigi að fá dýrtíðaruppbót, eins og aðrir kennarar við þá skóla. Þeir hafa eins kensluna sjer að aðalatvinnu og lifa á henni. Jeg vænti þess, að þetta verði leiðrjett við 3. umr. Sömuleiðis vil jeg taka það fram, að mjer virðist ekki næg ástæða til að gera undantekningu með þá menn, sem nefndir eru í 2. lið 1. gr., nefnilega, að hafi eftirlaunamenn launaðan starfa hjá landssjóði, þá skuli uppbótin að eins greidd af hærri laununum. Mjer virðist ekki spursmál um að veita uppbótina af öllum laununum, enda er hjer ekki nema um örlitla upphæð að ræða, því að þessir menn eru, eftir því sem mig minnir, ekki nema 2, eða ef til vill ekki nema einn. Það er því fremur ástæða til að veita þessum mönnum uppbót af samanlögðum launum, sem laun þeirra munu einmitt miðuð við það, að þeir hafa ofurlítil eftirlaun. Nú þurfa þessir menn að lifa eins og aðrir, og er því síst ástæða til að útiloka þá frá öllu rjettlæti, þótt þeir fái kaup sitt tvennu lagi. Að minsta kosti ætti það ekki að skaða að aðgæta, að hverju gagni slík »sparsemi« verður. Ef háttv. nefnd gerir ekki brtt. um þetta hvorttveggja til 3. umr., þá mun jeg leyfa mjer að koma fram með hana, og býst jeg við, að menn muni samþ. hana, ef deildin er ekki staðráðin í að samþ. ekkert nýtilegt í þessu máli.