17.08.1917
Neðri deild: 36. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 926 í B-deild Alþingistíðinda. (457)

16. mál, dýrtíðaruppbót handa embættis- og sýslumönnum landssjóðs

Einar Jónsson:

Jeg skal lofa því og efna það að vera ekki margmála, enda er mjer farið að blöskra, hve mikið er um þetta mál rætt. Þætti mjer sanngjarnara að veita embættismönnum heldur ríflegri dýrtíðaruppbót en eyða öllu þessu fje í gagnslausar umræður. Það er líka sannarlega hart, að menn skuli ekki geta þagað um þetta mál, þegar öll skjöl og skilríki liggja frammi, hverjum manni til afnota, svo að hægt er að mynda sjer skoðun samkvæmt þeim, en vonlaust um að snúa nokkrum manni með þessum endalausum ræðum. Þó tekur ræða háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) út yfir allan þjófabálk, því að hún er hvorttveggja í senn, lengsta ræðan, sem um málið hefir verið haldin, og jafnframt sú þýðingarminsta. Það er annars einkennilegt, að einmitt þeir mennirnir, sem nú njóta uppbótarinnar, viðhafa stærstu orðin um ranglætið, sem verið sje að fremja af meiri hluta bjargráðanefndarinnar, og vilja sífelt láta færa meir og meir út kvíamar í öllu þessu drasli.

Mjer sýnist nú, að sanngjarnt væri að útiloka þá embættismenn frá því að fá dýrtíðaruppbót, sem ekki þurfa að vinna að embætti sínu á sumrin. Sömuleiðis ætti ekki að veita þeim embættismönnum, sem eru þingmenn, neina dýrtíðaruppbót. Þingfararkaupið er fyrir þá alveg fundið fje, en við bændur erum hjer okkur til stórskaða, en erum þó öfundaðir af tekjum, og jafnvel skattlagðir þeirra vegna á ýmsum sviðum. Það verður líka að vera af einhverju, að Reykvíkingar leggja alt kapp á að flytja þingið á sumarið. Það er þeim til hagræðis, en okkur til bölvunar. Jeg býst líka við því, að embættismenn mundu ekki harma það, þótt við bændur kæmumst ekki á þing sökum annríkis. Þá gætu þeir veitt sjálfum sjer dýrtíðaruppbót eins og þá lysti.

Jeg vil annars undirstrika það, sem háttv. þm. Borgf. (P. O.) sagði og færði rök fyrir, að ástæður eru nú mikið aðrar en síðastliðinn vetur, og því ástæða meiri nú en þá til að takmarka sem mest fjáraustur úr landssjóði. Og því er þó ekki hægt að neita, að till. meiri hlutans í bjargráðanefndinni hafa minni fjárútlát í för með sjer en till. stjórnarinnar, Jeg held því fram, að það er ekki ámælisvert, þótt bændur vilji eitthvað draga úr fjáraustrinum. Ef starfsmenn landsins eru illa stæðir, þá er ekki nema sjálfsagt að hlaupa undir baggann með þeim, ef landssjóður getur það. En enginn gerir meira en honum er mögulegt.

Sumir háttv. þm. hafa nú reynt eftir mætti að gera eins mikinn glundroða í þessu máli og þeim var mögulegt, en það fá þeir þó ekki sannfært nokkurn mann með fullu viti um, að embættismenn, sem sjálfir eru framleiðendur, eigi jafnan rjett á uppbótinni eins og hinir, sem enga framleiðslu hafa. Þeir geta aldrei vilt okkur svo sýn, að við sjáum ekki, að þeir sem hafa framleiðslu, þurfa og eiga enga dýrtíðaruppbót að fá.

Jeg skal svo ekki orðlengja um þetta frekar, en vona einungis, að umr. verði ekki haldið áfram í alla nótt. Jeg mun síðar sýna með atkvæði mínu, hvernig jeg lít á hinar einstöku brtt.