17.08.1917
Neðri deild: 36. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 936 í B-deild Alþingistíðinda. (461)

16. mál, dýrtíðaruppbót handa embættis- og sýslumönnum landssjóðs

Þórarinn Jónsson:

Það eru aðallega tvö atriði, sem um er deilt í máli þessu, um skyldu landssjóðs til að veita dýrtíðaruppbót og um grundvöllinn, sem hún eigi að byggjast á, og má það undrum sæta, hversu langar deilur hafa risið um þetta. Það kom í ljós á þinginu í vetur, að þingmönnum þótti skylt að bæta embættismönnum og sýslunarmönnum landsins að einhverju laun þeirra. En ýmislegt hefir þó eigi verið rjett, sem nú hefir verið um það sagt. Það er fyrst og fremst ekki rjett að miða dýrtíðaruppbót þá, sem nú á að veita, við dýrtíðaruppbót þá, sem ofan á varð í vetur. Þá komu fram till. um að veita uppbótina á annan hátt en á endanum varð; þær voru feldar, og greiddu þá ýmsir, er þeim voru fylgjandi, eigi að síður atkvæði með þingsál.till., af því að þeir vildu ekki ónýta málið, þótt þeir teldu sínar till. rjettmætari. Það er ekki við því að búast, að þessir menn telji það sjálfsagt að miða dýrtíðaruppbótina við þá uppbót, sem þeir voru óánægðir með, eins og hún varð, og er jeg einn í þeirra tölu.

Jeg álít það skyldu að bæta embættis- og sýslunarmönnum, svo sem kostur er á og ástæður leyfa, halla þann, sem þeir hafa orðið fyrir vegna dýrtíðarinnar. En það er líka skylda þessara manna að taka þátt í erfiðleikum þjóðarinnar og gera sjer að góðu, þótt eigi sje kostur á að borga þeim að fullu tjón það, sem þeir hafa orðið fyrir við verðfall peninga. Sje þetta rjett, þá er það ekki rjett, að verðfall peninganna eigi að vera eingöngu grundvöllurinn undir dýrtíðaruppbótinni.

Jeg skil ekki, að jafnskýrir menn og þeir eru, sem segja, að eingöngu eigi að miða uppbótina við verðfallið, sjái það ekki, að þeir hafa ekki sjálfir fylgt þeirri reglu, og ekki hefir stjórnin heldur gert það; væri henni fylgt, ættu allir að fá hlutfallslega jafnt. En hjer er þeim veitt tiltölulega mest, sem lægst hafa launin, og þeim engin dýrtíðaruppbót ætluð, sem hafa þau hæst. Hjer er farið fram á að veita dýrtíðaruppbótina eftir efnum og ástæðum.

Háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) tók það fram, að sá, sem hefði framleiðslu, gæti haft eins mikla þörf fyrir dýrtíðaruppbót eins og hinn, sem hefði hana enga. Þótti honum gæta ósamræmis í áliti meiri hlutans. En jeg vil þá mega spyrja, getur það ekki líka komið fyrir, að hátt launaður maður hafi meiri þörf dýrtíðaruppbótar en lágt launaður? Sá lágt launaði getur átt stórfje í bönkum, og ástæður hans að ýmsu leyti verið þannig, að hagur hans sje betri en hins hátt launaða. Hjer er því grundvöllurinn hinn sami hjá báðum og ósamræmið hið sama.

Eftir því, sem hjer hefir verið bent á, sje jeg ekki betur en grundvöllurinn Sje hinn sami hjá stjórninni, minni hlutanum og meiri hlutanum; allir hneigjast að því að veita uppbótina eftir efnum og ástæðum. Verður þá deilan aðallega um það, hve langt skuli fara eða unt sje að fara. Ástæður eru nú breyttar frá því í vetur. Embættismenn geta vart lifað á launum sínum, framleiðendur munu tapa á framleiðslunni, og framtíðarhorfur verkamanna eru ískyggilegar. Það má segja, að framleiðendur muni geta bjargast áfram, þótt þeir tapi, ef þeir verða ekki fyrir óvæntum stóráfellum; og verið er að ræða um að bæta embættismönnunum að einhverju fyrir misærið, en þegar þeir og vjer rennum augunum yfir ástandið, eins og það er, þá geri jeg ráð fyrir, að þeir muni gera sjer að góðu minni upphæð en í vetur var veitt; því að þegar um uppbótina er að ræða, verður að hafa hliðsjón af því, að hjálpa þarf líka verkalýðnum til að draga fram lífið. Háttv. þm. Dala. (B. J.) sagði, að ef hallæri kæmi, þá ætti landssjóður að hlaupa undir bagga og mundi gera það. Það hafa áður komið hallæri hjer, og landssjóður hefir hjálpað, en jeg veit ekki til, að hann hafi hingað til veitt aðra hjálp en lán; hann hefir veitt hallærislán eða dýrtíðarlán, sem átt hefir að endurgreiða, þegar betur áraði. Eins verður líklega að gera nú og veita alþýðu manna lán af landsfje og embættis- og sýslunarmönnum landssjóðs takmarkaða dýrtíðaruppbót. Jeg minnist á þetta í sambandi við annað frv., sem fram hefir komið, frv. um að selja mönnum vörur langt undir sannvirði. Sá vegur, sem þar er bent á, er ófær; hann mundi kosta landið margar miljónir króna; auk þess er ekki gott að draga úr hvötinni hjá mönnum til að bjarga sjer sjálfir. Hitt gæti komið til mála, sem frsm. meiri hlutans (S. S.) hefir minst á, að gefa eitthvað síðar meir upp af skuldum þeim, sem skapast, ef afar erfitt reynist að borga þær. En það ætti alls ekki að gera nema í ítrustu nauð. Jeg minnist á alt þetta til að benda á, að ástæður allar sjeu nú mun ískyggilegri en þær voru í vetur, og því reki nauður til, að dýrtíðaruppbótin sje ákveðin lægri nú en þá. Embættismennirnir hljóta að taka þátt í hinum almennu erfiðleikum, og með því að spara á allar lundir yrðu þeir þjóðinni til fyrirmyndar og ynnu með því þarft verk og vinsælt. Þetta mun hafa vakað fyrir meiri hlutanum, og eftir því hefir hann sniðið till. sínar. Það hefir verið talað um það, að þeir, sem samþyktu till. um dýrtíðaruppbótina í vetur, mundu ekki hafa skift um skoðum síðan, og því fylgja nú till. stjórnarinnar. Jeg gat þess áðan, hvernig stóð á því, að jeg og fleiri greiddum atkvæði með till. í vetur; það var ekki af því, að vjer værum ánægðir með hana, heldur kusum við þann kostinn fremur en að málið ónýttist með öllu. Það er því ekki að skifta um skoðun, þótt vjer sjáum oss ekki fært að fylgja því nú, sem vjer vorum óánægðir með þá.

Hæstv. fjármálaráðherra (B. K.) þótti þingið hafa verið furðu fljótt að skifta um skoðun. Hann ætti þó ekki að þurfa að furða sig svo mjög á því, því að sjálf stjórnin hefir verið enn fljótari að því. Í stjórnarfrv. því, sem nú liggur fyrir þinginu, er ætlast til, að allir embættismenn og sýslunarmenn fái uppbót á launum þeim, er þeir hafa fyrir aðalstarf sitt í þágu hins opinbera. En í tillögunni í vetur stendur þannig, að hjá þeim embættis- og sýslunarmönnum, er jafnframt landssjóðslaununum hafa aukatekjur, er metnar verði til peninga, af embætti sínu eða sýslan, komi launin eða tekjumar samanlagðar til álita við greiðslu og útreikning dýrtíðaruppbótar. Þetta er gersamlega ólíkt hinu, og stjórnin hefir vikið frá hinum fyrra grundvelli sínum.

Nú ganga og undan heilir flokkar manna, sem þá fengu uppbót, t.d. kennarar; þá var svo langt farið, að uppbótin náði til sveitakennara og fjelaga, sem nutu landssjóðsstyrks og höfðu menn í þjónustu sinni. Jeg hafði í vetur, eins og nú, löngun til, að allir embættismenn nytu uppbótar, því að það er engin sönnun fyrir því, að maður með 5000 kr. launum sje betur stæður en annar með 1500 kr. launum; það geta verið margar og eðlilegar orsakir til þess. Meðal annars ættu lágu launin, ef launum er rjettilega skipað, að benda til þess, að sá, sem þau hefir, hafi fremur lítinn starfa að vinna fyrir þau, og gæti því einnig unnið að öðru.

Það er satt, sem háttv. þm. S.-Þ. (P. J.) sagði, að hjer er ekki verið að veita fulla uppbót á peningaverðfallinu, heldur er verið að leita að þörfinni og leitast við að ráða bót á henni, eftir efnum og ástæðum; því er það hlægilegt að vera að tala hjer um sveitarstyrk, þar sem það er fyllilega viðurkent, að um uppbót sje að ræða.

Háttv. þm. Dala. (B. J.) sagði, að nefndin hefði klofnað af því, að meiri hlutinn hefði viljað kalla uppbótina hjálp. En hvorki hefi jeg heyrt þessu haldið á loft í umræðunum, nje heldur kannast meiri hlutinn við það; hann segir í nál., að nafnið hafi ekkert aðalatriði verið fyrir sjer; og harla einkennilegt má það heita að slíta strax samvinnu vegna ósamkomulags um nafnið; nefndin gat þó auðsjáanlega rætt mörg önnur atriði málsins saman, hverjum fje skyldi veita og eftir hvaða reglum o. s. frv. og skilið svo.

Hæstv. forsætisráðherra og fleiri hafa tekið það fram, að þingið mætti ekki ganga skemra nú en í vetur. Þetta segja þeir, þótt það sjáist svart á hvítu, að stjórnin hefir gert það sjálf, eins og jeg drap á áðan.

Háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) sagði, að sá grundvöllur, sem þingið bygði á í vetur, væri hinn besti, hinn sanngjarnasti og hinn rjettlátasti, en hann vjek ekki að því, að stjórnin hefir vikið frá þessum grundvelli, Það er auðsætt, ef vel er athugað, að það er sami grundvöllurinn, sem allir byggja á, hvað sem hver segir, bæði meiri hlutinn, minni hlutinn og stjórnin. Annars væri hjer að eins um einfalt reikningsdæmi að ræða, ef öllum ætti að veita hlutfallslega jafna uppbót, og þá þyrfti ekki að eyða mörgum orðum um málið.

Jeg býst við, að jeg muni greiða atkvæði með tillögum meiri hlutans, þótt jeg sje ekki fullkomlega ánægður með þær, og hefði óskað, að uppbótin hefði getað gengið jafnara yfir. Þó geri jeg það ekki að kappsmáli, og geri ekki ráð fyrir að koma með brtt. um það. Jeg játa, að það sje erfitt fyrir stjórnina að ákveða, hvar takmörkin sjeu milli þeirra, sem hafa verulega framleiðslu, og hinna; og hygg jeg, að kippa mætti því ákvæði burt, án þess að nokkurt ranglæti væri framið.

Það er svo erfitt að koma með brtt. í þessu máli, af því að svo vandasamt er að sjá, hvort þær skaða ekki jafnmikið eða meira á öðrum sviðum, þótt þær bæti úr á einu.