17.08.1917
Neðri deild: 36. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 949 í B-deild Alþingistíðinda. (463)

16. mál, dýrtíðaruppbót handa embættis- og sýslumönnum landssjóðs

Frsm. minni hl. (Bjarni Jónsson):

Það er nú orðið mörgu að svara í þessum löngu ræðum, sem flotið hafa sætara en hunang af vörum háttv. þingmanna, en jeg ætla mjer ekki þá dul að svara því öllu, enda eru röksemdirnar úr öðrum heimi röksemdanna en þeim, sem jeg þekki. En þrautseigja sumra háttv. þm. er aðdáanleg. Þeir standa hjer dag eftir dag og jafnvel ár eftir ár og segja það svart, sem er hvítt, og vita þó, að sá, sem þeir tala við, er ekki litblindur. Þeir vilja ómögulega skilja það, að hjer er ekki um neitt að ræða annað en kaupið, sem vinnuveitandi geldur verkamanni sínum. Allir starfsmennirnir eiga því fullan rjett á skaðabótum. Það er von, að sumir spyrji um, af hverju sjeu ekki veittar fullar skaðabætur. Það er fóstur háttv. þingbænda, að uppbótin varð ekki fullkomin, og samt sem áður halda þeir því fram, að þeir vilji ekki kalla þetta hjálp. Þessir sömu háttv. þm. segjast fara eftir þörf manna. Já, skárri er það sanngirnin, sem till. þeirra byggjast á. Þeir vilja láta alla fasta kennara, sem hafa þolanleg laun, fá dýrtíðaruppbót, en tímakennara, sem sitja við sultarlaun, vilja þeir ekki láta fá nokkurn eyri. Með þessu móti fengju 5—6 kennarar við barnaskólann hjer í Reykjavík dýrtíðaruppbót, en allur fjöldinn, sem helst þarf uppbótar með, fengi ekki neitt, og getur þó verið, að jafnvel sumir þeirra eigi börn, þótt háttv. meiri hluti bjargráðanefndarinnar geri ekki ráð fyrir því. Það væri annars ekki úr vegi fyrir þann háttv. meiri hluta að taka eitthvert tillit til þess, hvort um hjónabandsbörn væri að ræða eða ekki. Jeg skal geta þess, að það er háttv. meiri hluti, en ekki jeg, sem hjer er að níðast á framleiðendum, og stendur það í góðu sambandi við það hugarfar, sem setti verðhækkunartollinn hjer um árið. Það er því einkennilegra, að þeir skuli vilja níðast á framleiðendum, sem háttv. 1. þm. Árn. (S. S.) hefir nú reiknað út að skaði sje að því að búa, og ætti því fremur að gefa svo sem 50 kr. með hverri kú. Mjer er það annars ekki vel ljóst, hvernig nokkur maður með fullu viti fer að deila um jafnsjálfsagðan hlut sem það, hvort landið skuli bæta verkamönnum sínum þann halla, sem þeir verða fyrir af verðfalli peninga, þegar aðrir vinnuveitendur hafa hækkað laun sinna verkamanna um 70%. Það er einkennilegt að bera okkur saman við aðrar þjóðir. Þær veita sínum embættismönnum skaðabætur, án þess að nokkur maður mæli á móti því. Hvort landið er vel eða illa statt kemur þessu máli ekki minstu ögn við. Ef landið getur ekki borgað verkamönnum sínum laun þeirra, þá á það að segja þeim upp vinnunni með hæfilegum fyrirvara. Háttv. 1. þm. Árn. (S. S.) segir, að landið sje nú svo statt, að það geti ekki hjálpað. Og þetta segir hann eftir að háttv. 2. þm. Árn. (E. A.) hefir sýnt það ljóslega, að þetta er vitleysa, sýnt það svo svart á hvítu, að jafnvel háttv. 1. þm. Árn. (S. S.) ætti að hafa skilið það, þótt hann sje litblindur. Það er alveg satt, að ekki er til fje nú í landssjóði, en sjálfsagt er að taka lán til þessara og annara útgjalda, enda gera það nú allar þjóðir.

Jeg skal ekki tefja tímann með því að ganga í gegnum ræður manna og einstakar tillögur. Það hafa þeir gert háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) og háttv. 2. þm. Árn. (E. A.), en jeg vil að lokum að eins drepa á eitt atriði. Landið þarf ekki að þakka þessum háttv. meiri hluta mönnum fyrir framkomu þeirra, þegar ræður þeirra flytjast til annara landa, því að það mega menn vita, að svona ræður hafa talsverð áhrif á lánstraustið erlendis. Það eru engin smáræðis áhrif, sem það getur haft, ef það berst út, að menn, sem eru forsprakkarnir í sjálfu Búnaðarfjelagi Íslands og auk þess hafa setið mörg ár í fjárlaganefnd, halda því fram, að landið hafi ekki efni á að borga starfsmönnum sínum sómasamleg laun. Slíkar ræður gera meira ógagn en margir halda.