28.08.1917
Neðri deild: 45. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 953 í B-deild Alþingistíðinda. (465)

16. mál, dýrtíðaruppbót handa embættis- og sýslumönnum landssjóðs

Frsm. meiri hl. (Sigurður Sigurðsson):

Jeg var að bíða eftir því, að flutnm. brtt. tækju til máls og færðu ástæður fyrir þeim. Með því að orðnar eru miklar umræður um frv., bæði við 1. og 2 umr., virðist mjer, eins og stendur, ekki vera ástæða til að halda þeim mikið áfram. Jeg skal að eins í stuttu máli gera grein fyrir afstöðu meiri hluta bjargráðanefndarinnar eða meiri hluta þess meiri hluta gagnvart brtt. Það er þá fyrst brtt. frá háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) á þgskj. 546, sem fer fram á, að öllum föstum kennurum við alþýðu- og barnaskóla, þeim er stunda kenslu minst 5 mánuði, verði veitt dýrtíðaruppbót. í frv. eru teknir með allir fastir kennarar við fasta alþýðuskóla, en jeg skil þessa till. svo, að með henni eigi að koma farkennurum undir sama hatt og láta þá líka njóta dýrtíðaruppbótar.

(B. J.: Ætti ekki að taka tímakennara líka með?) Nei, alls ekki. Jeg held, að mjer sje óhætt að segja, að allur meiri hlutinn, að undanteknum einum manni, sje á móti þessari till. Þá er brtt. frá háttv. þm.

V.-Sk. (G. Sv.) á þskj. 541, og er hún í 2 liðum. Um þann fyrri er það að segja, að nefndin lætur hann liggja á milli hluta, en um þann seinni það, að meiri hluti meiri hlutans er honum algerlega mótfallinn og leggur til, að hann sje feldur. Þá er brtt. frá háttv. 2. þm. S.-M. (B. St.) á þgskj. 533, sem heimtar staðfesta skýrslu um efni og ástæður þeirra embættismanna, sem framleiðslu hafa á sjó eða landi. Um þessa brtt. er mjer óhætt að fullyrða það, að allur meiri hluti bjargráðanefndarinnar er á móti henni og leggur einróma til, að hún sje feld. Í stuttu máli er það að segja, að meiri hluti meiri hlutans er á móti öllum þessum brtt., að undanteknum fyrri liðnum á þgskj. 541, sem nefndin gerir ekki að neinu kappsmáli, en er sama um, hvort verður samþykt eða ekki. Fleira hefi jeg svo ekki að segja að sinni.