28.08.1917
Neðri deild: 45. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 955 í B-deild Alþingistíðinda. (467)

16. mál, dýrtíðaruppbót handa embættis- og sýslumönnum landssjóðs

Sveinn Ólafsson:

Jeg hefi leyft mjer að bera fram dálitla brtt., sem er prentuð hjer á þgskj. 546, og er við 1. gr. hún lýtur að því að orða á annan veg 6. liðinn, því að mjer virðist hann óljós, en held hins vegar, að það hafi vakað fyrir nefndinni, að uppbótin ætti að ná til allra kennara yfirleitt. Mjer finst það mjög ósanngjarnt, ef farkennarar í sveitum ættu ekki að fá neina uppbót, því að allir vita, hve launakjör þeirra eru slæm. Eins og kunnugt er eiga þeir samkvæmt fræðslulögunum að fá 6 kr. um vikuna og fæði ókeypis, þótt svo sje eigi alstaðar, því að sumstaðar eru þeir ráðnir fyrir fast kaup um viku, 13—15 kr., og fæða sig sjálfir eða kaupa fæði.

Þetta eru afarlítil laun, og þótt tíminn, sem fer til þessa starfs, sje vetrartíminn, og því geti talist vafasamt, hvort kenslan er þeirra aðalstarf, eins og tiltekið er í frv., finst mjer, að uppbótin ætti hiklaust að ná til þeirra, þar sem þeir vinna allan veturinn fyrir óhæfilega lágt kaup. Það er líka víst, að þessir menn starfa á komanda vetri, þótt aðrir skólar en barnaskólar leggist niður, og er því sanngjarnara, að þeir njóti uppbótarinnar.

Úr því að starfsmönnum landsins er á annað borð bætt upp kaup, finst mjer sjálfsagt að hafa ekki þessa kennara út undan, því að jeg held, að margir fái uppbót, sem síður þurfa þess en þeir, og áreiðanlega margir, sem miður vinna fyrir henni en þeir.