28.08.1917
Neðri deild: 45. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 956 í B-deild Alþingistíðinda. (468)

16. mál, dýrtíðaruppbót handa embættis- og sýslumönnum landssjóðs

Björn Stefánsson:

Jeg bjóst við, að brtt. mín, á þgskj. 533, myndi fá góðar undirtektir hjá báðum hlutum bjargráðanefndarinnar, því að mjer finst hún nálgast það takmark, sem báðir keppa að, sem sje það að bæta þeim upp kaup, sem þurfa. Það hefir meiri hlutinn játað, að væri sitt takmark, en hinn ekki beinlínis, en sýnt það þó með tillögum sínum, að hann vill bæta þeim upp, sem helst þurfa, af því að hann treystir sjer ekki til að taka allar kröfur um uppbætur á verðfalli peninga til greina. Jeg fylgdi meiri hlutanum að málum um daginn með það að veita ekki stöndugum framleiðendum uppbót, en það er einnig athugandi, að meðal framleiðenda geta verið þeir, sem þurfa uppbótar við, ekki síður en aðrir, og jeg vil ekki, að svo sje frá lögunum gengið, að þeir sjeu undir öllum kringumstæðum útilokaðir, þótt þeir kunni að hafa nokkrar rollur eða hlut í bát. Tillaga mín miðar að því að hjálpa þeim, sem hjálpar þurfa, og því, að veita þeim embættismönnum, sem framleiðslu stunda, en eiga við þröngan kost að búa, uppbót, ekki síður en öðrum, ef þeir þurfa þess með. Það væri eðlilegast, að sveitarstjórnirnar staðfestu skýrsluna, en jeg vildi samt ekki setja það ákvæði, því að jeg bjóst við, að það mundi særa þær viðkvæmu taugar hv. minni hluta fyrir því, að nokkur kæmi þar nærri, er embættismenn eiga hlut að máli, sem við fátækramálefni sýsla. Jeg býst líka við, að það skifti minstu að láta hreppstjóra eða lögreglustjóra staðfesta skýrsluna.