24.08.1917
Neðri deild: 42. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 202 í B-deild Alþingistíðinda. (47)

1. mál, fjárlög 1918 og 1919

Framsm. fjárveitinganefndar (Bjarni Jónsson):

Jeg skal gera mjer far um að vera stuttorður og vísa til nál. sem víðast. En þess vil jeg biðja háttv. þm., að þeir kynni sjer nál., svo að ekki þurfi það að koma fyrir, sem kom fyrir við síðustu atkvæðagreiðslu, að menn greiði atkvæði móti sannfæringu sinni af ókunnugleika. Það kom og fyrir þá, að fjárveiting til starfa, sem stjórnin hefir þegar ráðið menn til, var feld.

14. gr. hefir orðið fyrir nokkrum breytingum í höndum nefndarinnar. Útgjöldin hafa verið lækkuð um 25,600 kr., en hækkuð um 32,300 kr. Endanleg hækkun verður því 6,700 kr. Þess skal þó getið, að nefndin hefir eigi getað gengið frá greininni. Ýmislegt, sem snertir greinina, er enn óákveðið. T. d. er ekkert ákveðið enn um skólahald í vetur. Nú er á leiðinni þingsályktunartill. um að gefa stjórninni heimild til að láta skóla falla niður í vetur. Til þessa liggja ýmsar ástæður, og er sú mest, að mönnum þykir varhugavert að safna fólki til Reykjavíkur undir veturinn. Þessa grein verður nefndin því að taka sjerstaklega til athugunar seinna.

Jeg skal þá fara nokkrum orðum um 1. lið 14. gr., og fylgi þá sömu röð og atkvæðaskráin, en vísa að öðru leyti til nál. Jeg vildi þá fyrst mega minnast á mál, sem var til umræðu í fjárveitinganefndinni, þegar fjáraukalögin voru til umræðu. Það var um launaauka eins kennarans í lögfræði. Nefndin gekk inn á að samþykkja þá samninga, sem stjórnin hafði gert við manninn, af því að hún leit svo á, að Háskólinn mætti ekki án hans vera, en ekki af því, að hún teldi rjett að halda áfram á þeirri braut. En jeg vil segja eitt um þetta, þó ekki fyrir nefndarinnar hönd, heldur frá eigin brjósti, og það er, að stjórnin ætti að reyna að sjá um, að Háskólinn fengi að njóta þess manns, sem gegndi þessu embætti, því að það er ungur fróðleiksmaður, sem að mínum dómi hefði átt að fá Hannesar Árnasonar styrkinn síðast, til þess að nema rjettarheimspeki, og jeg álít, að stjórnina beri skylda til að sjá um, að svo ungur og efnilegur maður þurfi ekki að velja sjer annan verkahring.

Jeg hefi ekkert að athuga við 105. lið á atkvæðaskránni; það er að eins flutningur. Flestum í nefndinni þótti rjettara, að liðurinn stæði í 14. gr., en jeg fyrir mitt leyti vildi heldur, að báðir liðirnir yrðu settir saman í 1. lið, en það vildu nefndarmennirnir hinir ekki fallast á. Jeg vil nú skjóta því til stjórnarinnar, hvort henni þætti ekki heppilegra að steypa þessu saman, og gæti hún þá gert við það brtt., sem nefndin athugaði svo til 3. umr.

Næst er 106. liður, en það er ekki annað en flutningur.

Þá er 107. liður Nefndin vildi ekki hækka laun leikfimikennarans við lærða skólann, — fyrirgefið þið, almenna mentaskólann ætlaði jeg að segja, — en hækkar þó liðinn um 500 kr., sem verður persónuleg launaviðbót Ólafs Rósenkranz, svo að laun hans verða alls 1200 kr. Nefndin leit svo á, að ekki mætti sýna minni sóma svo gömlum og góðum kennara, sem ávalt hefir haft lág laun, en gegnt þessu starfi svo lengi, að hann hefir víst áreiðanlega verið kennari allra þeirra lærðra manna, sem sitja á þessu þingi.

Þá er 108. liðurinn. Hann er um fjárveitingu til stærðfræðikennara við gagnfræðaskólann á Akureyri, Þorkels Þorkelssonar, sem hefir samið talnafræði eða algebru, sem notuð er við gagnfræðaskólann á Akureyri. Skólastjórinn þar fór þess á leit við stjórnina, að honum yrði veittur styrkur til að gefa bókina út af því fje, sem varið er til útgáfu kenslubóka, en nú stóð svo illa á, að sú fjárveiting stóð í fjárlögunum undir almenna mentaskólanum, og stjórnin taldi sjer því skylt að spyrja stærðfræðikennarann þar að því, hvort hann myndi nota bókina til kenslu þar, en hann kvað nei við. Nefndin kveður því rjett að lagfæra þetta og veita fje þetta eftirleiðis til útgáfu kenslubóka við alla gagnfræðaskólana. Hún leggur því einnig til, að Þorkeli Þorkelssyni verði veittar 300 kr. til útgáfu bókar þessarar, því að hann hafði gefið hana út eftir tilmælum skólastjórans, í von um styrk af því fje, sem veitt er til útgáfu kenslubóka, en þegar hann fjekk afsvarið, var prentun bókarinnar langt komin, og því ofseint að snúa við.

Þá er 109. liður. Nefndinni þótti rjett að verða við tilmælum Björns Jakobssonar, leikfimikennara, um að veita honum fasta stöðu við Kennaraskólann með 1700 kr. árslaunum. Sökum þess, að skólastjóri Kennaraskólans mælir hið besta með manninum, og hann er þektur að samviskusemi og dugnaði, þykir nefndinni rjett að tryggja skólanum þennan mann fyrir leikfimikennara. Það er mjög nauðsynlegt fyrir kennaraskóla landsins að hafa góðan leikfimikennara, því að hann verður að geta kent nemöndum að kenna aftur öðrum. Þessum manni lætur sá starfi vel, og hefir hann sýnt í hvívetna skyldurækni. Jeg veit, að margir þm. hafa sjeð dæmi um dugnað hans, því að hann hefir oft æft þá flokka, er sýnt hafa íþróttir sínar á íþróttavellinum. Eins og sjá má af nál. ætlast nefndin ekki til, að þessi staða verði föst fyr en skólinn tekur til starfa aftur, ef hann liggur niðri í vetur. Þangað til ætti maðurinn að hafa sömu laun og í fyrra, og þess vegna lætur nefndin fjárhæðina til tímakennara standa óbreytta, og hefir það því engin aukin útgjöld í för með sjer, þótt báðar upphæðirnar verði samþyktar.

Um næstu liði vísa jeg til nál. Viðvíkjandi 114. lið vil jeg geta þess, að hjer í Reykjavík eru 3 yfirsetukonur, sem hafa skift á milli sín að veita þeim stúlkum, sem á yfirsetukvennaskólann hjer í Reykjavík ganga, verklega tilsögn, sem þær mega ekki án vera, þrátt fyrir skólanámið; en þessi tilsögn tekur svo mikinn tíma, að þessar 3 yfirsetukonur treysta sjer ekki til að veita hana fyrir þá borgun, sem þær hafa áður haft.

Um 115. lið vísa jeg til nál. Svo vil jeg endurtaka það, sem jeg sagði í upphafi, að það er enn margt í þessari grein, sem nefndin þarf að athuga betur, þegar búið er að ráða því til lykta, hvernig um skólana fer í vetur.

Þá er 15. gr. fjárlaganna. Um hana er það sama að segja og 13. gr., að hún fjallar, eins og allir vita, um vegabætur og samgöngubætur allskonar, sem að vísu er á dálítið öðru sviði en þær, er nefndar eru í 13. gr., því að þessi grein er um mentir, vísindi og listir sem kunnugt er. Margir eru þeir, sem leggja einna mesta áherslu á 13. gr. og veit jeg, að þeir hinir sömu menn verða ósárir á þær litlu upphæðir, sem nefndin hefir lagt til að veittar verði til andlegra vegabóta. Það hefir ekki orðið hjá því komist, að greinin hækkaði töluvert frá því, sem stjórnin áætlaði, því að áætlun nefndarinnar er hjer um bil 70,000 kr. hærri en áætlun stjórnarinnar, en það kemur ekki af neinu ósamræmi milli stjórnarinnar og nefndarinnar í tillögum, heldur hinu, að stjórnin fær ekki nema lítinn hluta af þeim umsóknum, sem nefndinni berast, því að margir senda þær beina leið til þingsins, svo að stjórnin fær ekki tækifæri til að láta í ljós álit sitt á þeim. Hækkunin er í sjálfu sjer miklu minni en í fljótu bragði virðist, því að 40,000 kr. eru fluttar af fjáraukalögum, og verður því mismunurinn á áætlun stjórnarinnar og nefndarinnar ekki nema 30,000 kr. Jeg skal nú leyfa mjer að fara nokkrum orðum um þær helstu af tillögum nefndarinnar, þar eð ekki er nægileg skýring gefin á þeim mörgum í nál. Um fyrsta liðinn er ekki annað að segja en það, að þar er bara útborgun á kaupi mannsins færð frá bókaverðinum beina leið til landssjóðs, svo að maðurinn, sem á að fá borgunina, geti tekið hana hjá landssjóði, en þurfi ekki að bíða þar til forstöðumaður safnsins hefir hafið hana. Það er ekki farið fram á neina hækkun með þessari till., og ekki heldur verið að festa þessa borgun sem ákveðinn styrk eða á neinn annan hátt verið að íþyngja ríkissjóði vorum, eða hinu íslenska ríki, heldur að eins farið fram á svolítið hagræði fyrir manninn, sem á að fá þessa borgun, án þess að það kosti ríkissjóð vorn einn einasta eyri.

Þá er 117. liðurinn á atkvæðaskránni. Nefndin hefir lagt til, að í stað orðanna 9 mánuði komi 7 mánuði, eða með öðrum orðum, að maðurinn, sem áður hefir að eins haft 3 mánaða sumarfrí, en fulla vinnu bæði á safninu sjálfu og lestrarsalnum fyrir einar 1000 kr. á ári, fái nú 5 mánaða sumarfrí. Sá maður, er nú gegnir þessu starfi, er einn af alþingismönnum, alþektur fróðleiksmaður, og er því til nokkuð mikils mælst, að hann láti megnið af ársvinnu sinni fyrir einar 1000 kr. Nefndin vildi hækka kaup hans, en hann kaus sjálfur heldur að fá sig lausan í 5 mánuði, svo að hann gæti stundað aðra atvinnu að sumrinu. Þetta þótti nefndinni sjálfsagt, en jeg skyldi fyrir mitt leyti vera því jafnfylgjandi, ef stjórnin sæi sjer fært að tvöfalda upphæðina, en láta tímann halda sjer.

Næst er þá 118. liður, sem er hið sama að segja um og um 1. brtt. við þessa gr., að það er að eins flutningur, og vil jeg leyfa mjer að benda á, að það leiðir af sjálfu sjer, að ef liðurinn er samþyktur undir 1. c, verður að fella hann undir 1. f. Jeg þarf ekki að geta þess, að handritaskráin og minningarrit safnsins eru að öllu leyti sjálfsagðir liðir, því að það er ekki höfðinglegt, þótt prentun sje nú dýr, ef engin viðhöfn yrði höfð á 100 ára afmæli safnsins. Jeg skal ekki tefja hin málin með því að ræða meir um þetta, því að jeg tel alveg víst, að enginn verði því andvígur.

Þá er 121. liður, og er hann skýrður í nál. Það er flutningur á 400 krónum. Nefndin vildi ekki láta manninn missa neins í og lækkaði þennan lið úr 1800 kr. niður í 1400 kr., en flutti þessar 400 kr. á annan. stað til sama manns, svo að hann missir einkis í.

Um 2 næstu liði skal jeg ekki orðlengja.

En svo er það 124. liður. Þeir, sem aðstoðað hafa með gæslu á Þjóðmenjasafninu, hafa kvartað undan lágri borgun, og nefndin var sannfærð um, að 50 aur. um tímann væri engin borgun. — Hún leggur því til, að fjárveitingin til aðstoðar þar hækki um helming, eða úr 1000 kr. upp í 2000, í stað þess að hækka um 250 kr., eins og stjórnin hafði lagt til. Hafði hún ætlað þær 250 kr. fyrir umsjón á myndasafni Einars Jónssonar, en nú þarf þess eigi við sakir þess, að húsið kemst eigi upp.

Næstu liði ætla jeg ekki að tala um, en svo kemur 127. liður, sem er styrkurinn til skálda og listamanna. Stjórnin hafði raunar hækkað þann lið áður um 2000 kr., en það þótti nefndinni ekki nóg, og leggur því til, að hann verði hækkaður upp í 16000 kr., enda hafa henni borist margar umsóknir, sem stjórnin hefir ekki haft færi á að sjá, og það frá ýmsum góðskáldum og efnilegum listamönnum; þar á meðal eru alþýðuskáld, eins og Sveinbjörn Björnsson hjerna í Reykjavík, sem er listaskáld, og fleiri önnur góðskáld, og 3 norðan úr Þingeyjarsýslu, sem allir vita að eru listaskáld. Menn ættu í þessu sambandi að taka tillit til verðlags peninga.

Það hefir verið hjer til umræðu það, sem kallað er á dönsku, eða öllu heldur á hálfdönsku, dýrtíðaruppbót embættismanna. Því hefir nú verið harðneitað af þingmönnum að láta hana ná einnig til annara manna, sem í fjárlögum eru, en jeg vil halda því fram, að þessir menn sjeu engu síður starfsmenn landsins, þótt þeir í rauninni sjeu sjálfboðaliðar, en þeir hafa ekki heldur annað en það, sem kallað er bitlingar, en það er styrkur, sem þeim er veittur til þess að geta fleytt fram lífinu, jafnframt því, sem þeir leggja þjóðinni til kraft hugsjónanna, sem er miklu nauðsynlegri en störf embættismannanna. Þess vegna leggur nefndin til, að styrkurinn til þessara manna verði hækkaður að mun, og beinir því til deildarinnar, því að hver maður hlýtur að skynja, að sá halli, sem hvílir þungt á framleiðendum og embættismönnum, hlýtur þó að koma enn harðar niður á þessum mönnum. Það er líka erfitt verk, sem ljóðasmiðir og listaskáld hafa með höndum, því að þeir halda uppi sóma og gagni þjóðarinnar á því sviði, sem enginn vildi vinna á, ef þeir væru ekki svo ósjerplægnir að vinna það starf, sem er þjóðinni nauðsynlegt, en er tíðum þakkað miður en skyldi.

128. liðurinn er þess eðlis, að jeg þarf ekki að tala um hann. Jeg veit, að sá hv. þm. (S.S.), sem hefir borið hann fram, tekur hann aftur. Það hefir sem sje slæðst afleit ritvilla inn í tillögu hans, því að jeg býst við, að það hafi átt að standa 2 í staðinn fyrir 1 fyrir framan núllin. (S. S.: Við skulum nú sjá, hvað setur.) Nefndin getur ekki heldur fallist á, að aths. aftan við liðinn falli burt, því að þótt það sje auðvitað, að nefndin er holl stjórninni, þá vill hún þó ekki leggja það óskorað í hendur stjórninni að útbýta fjenu. Jeg vil þá um leið, úr því að jeg fór að minnast á þessa úthlutunarnefnd, segja það, að hún ætti að vera öðruvísi skipuð, en að hún er það ekki er listamönnunum sjálfum að kenna. Hún ætti að vera svo samsett, að skáldafjelag skipaði einn mann í hana, listamannafjelag einn og helst Háskólinn einn, eða þá Háskólinn, Bókmentafjelagið og Stúdentafjelagið einn í sameiningu, og gæti hann verið oddamaður. Þessi breyting getur ekki orðið fyr en fjelögin eru orðin til fyrir skáld og listamenn, en þau ættu að hafa best vit á, hverjum ætti að veita styrk og hverjum ekki.

Þá kem jeg að 130. lið. Þar tala jeg í nafni meiri hluta nefndarinnar. Hann sá sjer ekki fært að taka upp hærri upphæð en 40,000 kr. til húsagerðar yfir listasafn Einars Jónssonar. Þetta er nú auðvitað svo væn fúlga, að hægt er að halda smíðinni áfram, ef nokkurt efni fæst, svo að vel mætti við það una. En jeg læt aðra taka að sjer að halda svörum uppi fyrir þennan lið. Sjálfur vildi jeg veita hærri upphæð, en læt nú þessa tillögu afskiftalausa. Þó verð jeg auðvitað á móti, ef koma skyldi brtt. um að lækka liðinn úr því, sem hann er hjá nefndinni.

Næsta lið þarf ekkert um að segja. Það hefir áður verið um þá fjárveitingu rætt og skrifað í nál. við fjáraukalögin fyrir 1916 og 1917. Liðurinn er eðlilegt framhald af fjárveitingu, sem samþykt var í þeim lögum.

132. lið hefi jeg áður nefnt og sleppi honum því hjer.

134. liður. Eftir tillögum bjargráðanefndar er lagt til að hækka styrkinn, með því skilyrði, að maðurinn taki að sjer að rannsaka næringargildi þörunga. Nefndinni hafði borist áskoranir þess efnis, að nauðsynlegt væri að gera gangskör að því að rannsaka næringargildi ýmsra sjávarjurta. Áskoranir þessar voru frá ýmsum áhugamönnum, meðal annars frá Guttormi Jónssyni frá Hjarðarholti í Dölum, nú hjer í bæ, sem er þektur að því að vera sjerstaklega áhugasamur um ýmsar nýungar til nytsemda. Nefndin átti svo tal við þann eina mann, sem hún vissi að mundi fær um að vinna þetta verk, og kvaðst hann vera fáanlegur til að taka það að sjer, ef hann fengi þennan styrk og þyrfti ekki sjálfur að borga kostnað við ferðalög, sem hann ef til vill þyrfti að hafa, efnagreining og aðra vinnu, sem hann getur ekki sjálfur int af hendi. Því er lagt til, að hann fái allan slíkan kostnað greiddan, eins og hann þarf á að halda.

Um næsta lið vísa jeg til nál. Jeg hefi engu við það að bæta og læt útrætt um þann lið, ef ekki koma nein andmæli fram gegn honum.

Um 135. lið er það að segja, að þar á í hlut maður, sem öllum er kunnur fyrir fræðiiðkanir sínar, sem hann hefir stundað með mikilli elju og dugnaði, þrátt fyrir það, þótt hann hafi orðið að stunda iðn sína, sjer til lífsuppheldis. Eins og menn vita hefir hann einkum lagt stund á frakkneska málfræði. Nú hefir hann safnað miklu málsháttasafni, bæði á íslenskri tungu og á útlendum málum. Hann hefir unnið lengi að söfnun þessara málshátta, og er safnið nú orðið bæði stórt og merkilegt, og vill hann nú fara að gefa það út. Það er vert, að Alþingi sýni manni þessum einhverja viðurkenningu fyrir sjerstakan áhuga á þessum fræðiiðkunum. Nefndin lagði til, að honum verði veittar 800 kr. í eitt skifti fyrir öll. Síðan hefir komið fram brtt. um að hækka styrkinn upp í 1200 kr. Það er síður en svo, að það geti talist ofmikið handa þessum mæta manni. En meiri hluti nefndarinnar sjer sjer ekki annað fært en að leggja á móti þessari brtt. Aftur hefir komið fram önnur brtt., sem fer fram á að veita 1000 kr. Það hefir ekki verið leitað atkvæða í nefndinni um þessa tillögu, en bæði jeg og fleiri úr nefndinni, sem mjer er kunnugt um, munu fúsir til að sinna þeirri tillögu.

137. liður kostar ekki neitt, sparar að eins einn staf, og verður því auðvitað tekið með þökkum. Jeg orðlengi því ekki um þann lið.

Um þá 2 fræðimenn, sem næst koma, get jeg látið mjer nægja að vísa til nál. Menn þekkja þá víst báða. Um hinn síðari skal þess þó getið, að hann hefir gert mikið þjóðsagnasafn, og sækir nú um styrk til að fullgera það og búa til prentunar Hann er farinn að eldast, eftir því sem mjer er tjáð. Annars þekkja þingmenn Múlsýslunga betur til hans og geta gefið greinilegri upplýsingar um hann, ef þeim þykir ástæða til.

Þá er 140. liður. Þar er lagt til að fella í burt lið, sem jeg vona að verði búið að samþykkja á öðrum stað þegar að honum kemur hjer. Hjer er bara um flutning að ræða, og vona jeg, að engin fyrirstaða verði á því. En verði liðurinn feldur á hinum staðnum, þá verður þessi brtt. auðvitað tekin aftur. Þá eru næst 2 efni í húsgerðarfræðinga, sem báðir þurfa styrks við. Jeg leyfi mjer að vísa til orða nefndarálitsins um þessa menn.

Helgi Hermann Eiríksson er ungur efnismaður, sem dvelur á Englandi og leggur stund á námavísindi. Það er fræðigrein sem kennir mönnum að fara hyggilega með náma, og auk þess verkleg þekking, eða sú grein verkfræðinnar, sem lýtur að námarannsókn og námagrefti. Það blandast engum hugur um, að mikil nauðsyn er á slíkum mönnum hjer á landi. Þar sem nefndinni er vel kunnugt um, að maðurinn er mjög efnilegur, þá vill hún hjálpa honum til þessa náms. Og með því að nú er mjög dýrt að lifa í landi því, sem hann dvelur við námið, þá leggur nefndin til, að honum verði veitt þessi upphæð. Þótt það sje hæsti námsstyrkur, sem nokkru sinni hefir verið veittur, þá er það vitanlegt, að maðurinn þarf á miklu meira fje að halda til námsins. Mjer hefir verið sagt, að hann þurfi að minsta kosti helmingi meira til að fleyta fram lífinu. Hann sótti um 3000 kr. styrk, en nefndin sá sjer ekki fært að fara hærra en þetta.

Næsti liður á atkvæðaskránni er, að jeg hygg, till. frá háttv 1. þm. Reykv. (J. B.). Nefndin er sammála um að vera á móti þeirri till. Henni er með öllu ókunnugt um manninn og hagi hans og treystir sjer ekki til að leggja með fjárveitingu, svona út í loftið.

Næsta lið ætla jeg, að nál. skýri nægilega. Það er styrkur til háskólakennara Jóns Jónssonar frá Ráðagerði. Vill hann fara utan til að rannsaka skjalasöfn um verslunarsögu Íslands.

Eins og flestir vita hefir hann með höndum mikið verk um það efni, en getur ekki haldið því áfram, nema honum sje gert fært að fara utan. Nefndin lítur svo á, að hjer sje um svo mikið þjóðnytjaverk að ræða, að rjett sje að greiða fyrir því, svo að því geti orðið lokið sem fyrst, og leggur þess vegna til, að fjeð sje veitt.

Næsti liður er til rannsókna á bókmentasögu Íslands eftir siðaskiftin. Eins og menn vita eru bókmentir þessa tímabils því nær alveg ókunnar. Nú býðst maður til að rannsaka þetta, og þykir nefndinni rjett að gera honum fært að gefa sig við því, með þeim krafti, að ekki þurfi að líða altof langur tími þar til árangur af þessum rannsóknum getur farið að koma í ljós. Það, sem snertir svo náið þjóðerni og sögu Íslendinga, má ekki vera myrkri hulið um alla eilífð, og þingið getur ekki komist hjá því að veita styrk til þessara rannsókna fyr eða síðar. Jeg tel því ekki þurfa að mæla með þessum lið. Maðurinn, sem til verksins býðst, er ágætlega til þess hæfur, og upphæðin, sem fram á er farið, er lítil. Það er því sparnaður, en ekki kostnaður, að samþykkja þessa tillögu. Þess getur orðið langt að bíða, að jafnhæfur maður bjóðist til verksins fyrir jafnlítinn styrk. Er því sjálfsagt að grípa tækifærið.

Jeg ætla ekki að fjölyrða um 148. liðinn. Sú starfsemi er fyrir löngu þekt orðin, og það alreynt, að hún hefir komið að miklum notum, bæði hjer í Reykjavík og úti um land, og mætir hvarvetna meiri og meiri vinsældum. Fyrirlestrunum fer fjölgandi, eftir því sem árin líða. Ef menn lesa skýrslu Jóns Þorkelssonar um þessa starfsemi, þá sjest það, að mikið hefir verið gert. Þess skal getið, að í þessari skýrslu er blandað saman tveimur Guðmundum Magnússonum. Guðmundur Magnússon, skáld, hefir haldið 3 eða 4 fyrirlestra, en Guðmundur Magnússon, háskólakennari, hina 10 eða 12, sem tilfærðir eru við það nafn í skýrslunni. Jeg þykist vita, að menn verði fljótir til að samþykkja þennan lið; sömuleiðis athugasemdina, því að það er ekki nema rjett og skylt, að stúdentafjelagið á Akureyri fái sinn hluta af styrknum hækkaðan í sama hlutfalli.

149. liðurinn er nýmæli. Stjórn hins íslenska kennarafjelags skrifaði Alþingi brjef og bað um styrk til að halda fyrirlestra um uppeldismál. Nefndin leit svo á, að það væri nytsamt verk að halda fyrirlestra um þetta efni hingað og þangað um landið. Reyndar fanst henni hugsanlegt, að ekki væri alstaðar völ á nógu góðum mönnum til að halda þessa fyrirlestra. Þó ætti ekki að vera þurð á því, þar sem eru bæði kennarar, prestar og læknar, sem allir hafa eitthvað til brunns að bera í þessu efni. Þótt ekki sjeu haldnir margir fyrirlestrar á hverjum stað, þá getur það verið meira en ómaksins vert að vekja menn til umhugsunar um þessi mál og glæða hjá fólkinu fróðleikslöngun og áhuga á því að fá meira að vita um þessi efni. Það er galdurinn í allri fræðslu að vekja áhuga nemandans og kapp á að afla sjer fræðslunnar Jeg vona að þingið vilji veita þessa litlu upphæð til reynslu, til þess að vita, hvort ekki getur gengið eftir það, sem jeg nú segi.

Um 150. liðinn ætla jeg ekki að ræða. Þótt nefndin sæi sjer ekki fært að taka upp þessa fjárveitingu, þá hefi jeg áskilið mjer mitt atkvæði, af því að jeg þekki manninn og veit, að hann er alls góðs maklegur. Jeg hefi líka mælt með styrkveitingu til hans áður.

151. liðinn nefni jeg ekki. Þar sem ekki er neitt við að stríða, er ekki sigur neinn að fá, og þar þarf því heldur engan herkostnað.

Um 152. liðinn vil jeg að eins benda á nál. og það, sem þar er sagt um þessa fjárveitingu. Norræna stúdentasambandið er einskonar þjóðræknisstofnun í víðari merkingu, í sameiningaráttina meðal frændþjóðanna á Norðurlöndum. Starfsemi þessa sambands ætti að geta haft þær afleiðingar, að Norðurlandabúar lærðu að telja Íslendinga fjórðu þjóðina á Norðurlöndum og, ef guð lofar, einhvern tíma síðar meir má ske Færeyinga þá fimtu. Nefndinni finst því rjett að lofa íslensku deildinni að eiga fulltrúa á fundum sambandsins. Það kann nú svo að vera, að það þýði ekki mikið að vera orðsjúkur. En hitt hlýtur þó hverjum manni að vera áhugamál, og eins þessu fjelagi, að rjett spyrjist tíðindin, þau er berast frá landi og þjóð. En seint er um langan veg að spyrja sönn tíðindi. Og þarna hafa frændur okkar setið í 700 ár og eru litla fróðari orðnir um þjóðerni vort og þjóðarhagi. Norræna stúdentasambandið ætlar sjer að kippa þessu í lag, og eftir því, sem af stað er farið, eru miklar líkur til, að því verði eitthvað ágengt. Jeg efast ekki um, að þingið vilji styrkja íslenskudeild sambandsins til þessa.

153. liðinn ætla jeg ekki að nefna. Enginn vill vera meinsmaður þess, að hlynt sje sem best að Íþróttasambandi Íslands. Jeg veit, að öllum, sem hjer eru saman komnir og eiga að greiða atkvæði um þessi fjárlög, er kunnugt um það, hvernig það er samfara, fimleikar, fegurð og gleði. Ef menn vita það ekki, þá vil jeg benda þeim á að lesa sögu Grikkja, hinnar nafnkunnu frummentaþjóðar heimsins. Gríska menningin er fyrirmynd allrar annarar menningar í þessari heimsálfu, og enn eru þjóðirnar að læra af henni í ýmsum greinum. Engin þjóð hefir komist eins langt í því og Grikkir að skilja, hve saman tvinnað þetta er, fimleikar, heilbrigði, hreysti, fegurð og gleði. Þegar á það er litið, munu menn sjá það, að það er ekki um of, sem hlúð er að íþróttalífinu hjer á landi.

Það er auðvitað, að styrkveitingarnar í þessari grein (15. gr.) eru altof litlar, bæði hjá stjórninni og nefndinni. Vegabæturnar á þessu sviði eru altof litlar; þyrftu að vera miklu meiri. Til skamms tíma hefir alt verið í kalda koli á þessu sviði, og enginn kastaði steini úr götu. Jeg á hjer við það, að það er ekki svo langt síðan við fengum fjárráð og gátum farið að hugsa til verulegra umbóta á þjóðlífi voru, að okkur er ekki orðið það alveg ljóst, hve miklar vegabætur eru hjer nauðsynlegar. Ekki eru menn heldur farnir að skilja eins og bæri, hve mikils virði það er, sem hjer er á boðstólum. Jeg held, að menn sjeu ekki búnir að læra að meta, hve mikils fjár virði æfistarf ötuls gáfumanns er. Jeg býst reyndar við, að menn vildu gefa mikið fyrir hann, ef hann væri farinn að sýna það annarsstaðar, hve mikilsverða hæfileika hann hafði að geyma. En það er vandi að sjá, ekki einungis »hvar fjándr sitja á fleti fyrir«, heldur einnig hvar mannsefni eru í hóp ungra og framgjarnra drengja. Það er því altaf varlega gerandi að vera mjög frekur á að slátra ungviðinu, áður en reynt er, hvað verður að fóðra, eða hvað líklegt er til að launa eldið.

Það er svo langt frá, að þessar till. sjeu nægar til að greiða þeim veginn, sem erfiðast eiga allra manna í þjóðfjelaginu. Þessir menn bera óslökkvandi þrá í brjóstinu, en vantar kraftinn til að framfylgja því, sem hugurinn stefnir að. Jeg vona, að þingið finni til með þessum mönnum og sje viljugt að samþykkja einmitt þessar tillögur. Það væri fremur ástæða til að auka þær en minka. Jeg hygg, að bæði stjórnin og fjárveitinganefndin vildu láta það koma á móti, að leggja með einhverri rýmkun á fjárveitingum undir öðrum liðum, sem einstökum þingmönnum er sjerstakt áhugamál, við 3. umr, ef þingmenn vilja nú sýna þessum kröfum sanngirni og greiða veg þeirra, sem óeigingjarnastir eru. Jeg á hjer ekki við eigingirni í slæmri merkingu, heldur á jeg við það, að þessir menn hugsa ekkert um sinn hag, heldur verja þeir lífi sínu til þess að auðga aðra. Þeir, sem stunda atvinnu sína, skara eld að sinni köku og sjá sjálfum sjer borgið, sem auðvitað er rjett og heiðarlegt, en þeir, sem stunda vísindi og listir, vilja leggja alt í sölurnar til þess að fylgja hjartans þrá sinni, þótt þeir viti, að þeir geti aldrei af því lifað, og því síður aflað sjer nokkurra þæginda. Þessum mönnum er vert að hjálpa. Þeir eiga það skilið.

Þetta var nú um 15. gr.

Þá kem jeg að 16. gr. Það fylgir ávalt, sem athugasemd allra fjárlaganefnda, að það, sem lýtur að atvinnubótum, sje einna merkast af öllu, sem fram á er farið, og því sje nauðsynlegast að fylgja því fram. Því verður ekki heldur neitað, að á atvinnuvegunum byggist öll menning og alt þjóðlíf. Þetta verður ekki hvað síst sagt um landbúnaðinn, sem er höfuðatvinnuvegur þessa lands. Það er alkunna, að fyr verður engin þjóð menningarþjóð en hún tekur sjer fastan bústað og fer að erja jörðina og yrkja. Og þegar alt um þrotnar, þá er það landbúnaðurinn, sem stendur föstum fótum. Það hefir Þýskaland nú sýnt áþreifanlega. Það, sem hefir haldið því við og bjargað þjóðinni frá því að verða hungurmorða, er ekkert annað en landbúnaðurinn, sem þar hefir ávalt verið studdur með ráðdeild og stefnufestu, og stundum jafnvel — að því er sumum virðist — með óbilgjörnum verndartollum. Sama er reynslan hjer á landi. Nú, þegar sjávarútvegurinn er í þann veginn að bregðast og flestar atvinnugreinar að komast í kaldakol, þá er það landbúnaðurinn einn, sem menn byggja alt traust sitt á. Landbúnaðarmálin eru því áhugamál allra þingmanna, og fjárveitinganefndin er öll á einu máli um þær fjárveitingar, sem ætlaðar eru til stuðnings þessum atvinnuvegi.

Sama máli gegnir um hinn höfuðatvinnuveginn, fiskveiðarnar, er öðrum þræði, alt frá landnámstíð, hefir verið jafnan annar bjargræðisvegur þjóðarinnar. Nefndinni þykir rjett að veita fje til þess að koma betra skipulagi á þessa atvinnugrein, líkt og landbúnaðinn, svo að hann njóti sín betur. Nefndin hefir í tillögum sínum við 16. gr. haft fyrir augum það, sem jeg hefi nú með fám orðum gert grein fyrir í þessum inngangi.

Nefndin er samþykk hækkun stjórnarinnar á styrk til Búnaðarfjelags Íslands, og vill að auki leggja því nokkurt fje til undirbúnings húsmæðraskóla. Sömuleiðis vill hún veita því 4500 kr. til uppbóta á launum starfsmannanna þar, ráðunauta o.fl., árið 1917, líkt og öðrum starfsmönnum landssjóðs; eiga þeir, sem ættu að vera forkólfar vorir og kennendur í búnaði, eigi verra að oss en aðrir.

Þá er 156. liður á atkvæðaskrá. Jeg hefi orðið þess var, að ýmsir menn í mínu kjördæmi, og í sama streng hafa tekið ýmsar málaleitanir, sem þinginu hafa borist, hafa viljað breyta fyrirkomulagi þessa styrks, sem sje til búnaðarfjelaga, á þá leið, að hann yrði ekki bútaður svo niður sem verið hefir, svo að menn hafa fengið 10 eða 11 aura á dagsverk sín, jafnt ríkir sem fátækir, heldur skyldi honum skift milli búnaðarfjelaganna eftir dagsverkatölu, en búnaðarsamböndin ákveði svo, hvernig styrknum skuli varið, og hafa menn þá talið hentast, að sjálf fjelögin fengju þetta fje og notuðu til þess að ganga á undan öðrum í jarðabótum, jarðrækt og notkun verkfæra, einkanlega þeirra, sem teljast mega ofkostnaðarsöm til þess, að búast megi við því, að einstakir menn kaupi. Er um þetta nánara ritað í nál., eftir fyrirsögn búmanna, sem í nefndinni eru.

Í 157. lið ræðir um nýjan gest með nýju nafni. Er nafnið grafa myndað í líkingu við skafa; alveg hliðstætt orð, og hlítir sömu lögum. Þetta er verkfæri til þess að grafa skurði Mun mönnum gefa á að líta, er þeir sjá skurðgröfuna standa í miðjum skurði, sem eina gríðarstóra griðkonu, varpandi frá sjer moldu og auri. Er það hald nefndarinnar, að mjög muni þetta verkfæri spara vinnukraft manna. Vill hún, að landið kaupi verkfærið og leigi öðrum, t. d. þeim, sem nú vilja veita Hvítá yfir Flóann, svo að þar megi gróa laukar og ilmgresi, en gjaldi á síðan notendur leigu skaðlaust landinu. Þetta ber nefndin fram eftir tillögum vegamálastjórans, sem er ungur og áhugasamur og veit það, að mannsaflið er dýrasta aflið, sem fengið verður.

Í 159. lið er lögð til 26000 kr. fjárveiting til Skeiðaáveitunnar. Þetta þótti nefndinni rjett að taka upp, vegna þess, að deildin hefir nýlega samþykt að leggja fram til Flóaáveitunnar. Þeir, sem því samþyktust, munu og vera með þessu, en ef Flóaáveitan verður feld í Ed., þá er nógur tími að fella þetta á eftir.

160. liðnum er nefndin andvíg, en hefir ekki tekið ákvörðun um, hvað kynni að mega gera, þegar verkinu er lokið og reikningarnir sjást, en þangað til leggur hún á móti, með því að ella væri um að ræða fje, veitt út í bláinn.

Næstu 2 till. er sama um að segja, að nefndin getur ekki aðhylst þær. Mun jeg ekki þurfa að andmæla þeim, með því að báðar fara þær fram á hækkun.

163. liður er frá nefndinni og miðar að því að hvetja menn til dugnaðar og dáða.

Nefndin leggur á móti 164. lið, að lækka fje til skóggræðslu; telur hún veitinguna síst ofháa, heldur oflága. Þótt nefndin hafi fundið að ýmsum framkvæmdum, sem hjer að lúta,

t. d. fleytingu viðar, þá vill nefndin þó í engu halla á skógræktina sjálfa.

166. liður er að eins hallærishækkun.

Um 167. lið eru atkvæði nefndarinnar laus, með því að nefndin hefir enga afstöðu þar til tekið.

Gísli Guðmundsson, gerlafræðingur, hefir farið fram á 1800 kr. styrk. Hann hafði selt landinu verkfæri sín og fengið þó lægra fyrir en hann setti upp og slept atvinnu, til þess að taka að sjer starf það, er hann hefir. Þessi maður hafði á hendi starf Ásgeirs heitins Torfasonar, meðan hann lá, og hefir gegnt því síðan. Nú hefir nefndin lagt til þess, að hann fengi uppbót sína af forstöðumannslaunum efnastofunnar, meðan hann hefði það starf á hendi. Jeg skal þó geta þess, að jeg hefi óbundið atkvæði gagnvart þessum lið, ef síðar kann að koma fram brtt., sem fer fram á að haga þessu á annan hátt.

Jóhann Franklín, sem haft hefir á hendi leiðbeiningu við húsagerð til sveita, hefir haft lág laun, að eins 1500 kr., og þó takmarkað, hvað hann mætti setja upp í vinnukaup. Hefir hann því stórskaðast, ef borið er saman við það, sem hann mundi hafa getað unnið sjer inn við húsagerð hjer í Reykjavík. En með því að hann er samviskusamur maður og hafði fengið lítils háttar styrk, meðan hann var við nám sitt í Noregi, þá vill hann þó þrauka í starfinu, ef launin verða bætt; en auðsætt er, að kvæntur maður getur ekki lifað hjer í bæ af 1500 kr. + 4—500 kr. aukatekjur, en hjer var honum boðið að setjast að. Þegar þessa er gætt, og enn hins, að duglegir menn í þessari grein geta haft tvöfalt upp úr sjer við þetta, einkum nú á tímum, er margir slíkir menn auðgast, þá vill nefndin veita honum 2500 kr. laun og veita heimild til þess, að hann fái að auki hærra dagkaup og rífari ferðakostnað. Býst nefndin við, að þessi maður sje að svo góðu kunnur og að menn viðurkenni, hve nauðsynlegt er að halda uppi slíkum leiðbeiningum, að ekki standi á mönnum að samþykkja þetta.

Um samvinnufjelögin skal jeg að eins geta þess, að sjálfsagt mun í framtíðinni að setja upp landsskóla í verslunarfræðum, með sem bestu fyrirkomulagi, og veiti hann þá tilsögn í samvinnufjelagsskap, ásamt öðru, sem að verslun lýtur. Þetta segi jeg að eins til athugunar, en meðan svo er sem nú legg jeg með hækkun þessa liðar.

Þá er fiskveiðafjelagið fært upp um 6000 kr. Hjer er sama að segja sem um búnaðarfjelag landsins, að þessu fjelagi er ætlað að vera lífið og sálin í öðrum höfuðatvinnuvegi vorum, og er hjer því ekki um fje að ræða til eyðslu, heldur til sparnaðar. Þetta er alveg hliðstætt því að sá kartöflu í garð og fá þúsundfaldan ávöxt. Þetta mun nú þykja mikil uppskera, en úr því að jeg tók þetta dæmi, þá skal jeg jafnframt geta þess, að dæmið er satt, og hefir komið fyrir í Þjóðverjalandi. Þetta á við um garðrækt að vísu, en hjer er líka um eins konar garðrækt að ræða, sem er landssjóði fjeþúfa, og getur orðið meiri, getur veitt þúsundfalda uppskeru, auk þess sem þjóðfjelagið græðir á öllum fyrirtækjum, sem borga sig.

Jeg þarf varla að minnast á 174. lið. Það munu nú engur öfgar þykja, þótt erindrekum landsins sjeu goldnar 12000 kr. með ferðakostnaði og öllu og öllu. Jeg má að vísu muna þá tíð, er slíkt var talið til hreinna tekna, en nú er sú skoðun fyrir óðal lögð. Mönnum má liggja við kinnroða, þegar stjórnin leggur til að gjalda trúnaðarmönnum sínum minna en verslunarhús bjóða þjónum sínum, sem þau senda út til þess að bjóða vörur sínar. Jeg þekki ýmsar stórverslanir, norskar og sænskar, er gjalda hærri laun en hjer eru ætluð þeim mönnum, sem þær senda út með sýnishorn. Minna en þetta má ekki ætla manninum. En rjett telur nefndin þá, að valið á manninum skuli vera háð samþykki landsstjórnarinnar.

Uppbót sú, sem ræðir um í 176. lið, er samhljóða uppbót til búnaðarfjelagsstarfsmanna.

177. lið er gert grein fyrir í nál.

178. liður fer fram á að hækka laun umsjónarmanns áfengiskaupa. Hann hefir borið sig upp og þykir starfið tafsamt og fyrirhafnarmikið, enda eru launin í raun og veru engin borgun. Nefndin hefir fallist á þetta, en vill þó, að starf þetta falli síðar undir tollstjórnina hjer í Reykjavík, þegar hún er komin í gott horf og bæjarfógetaembættið klofið sundur.

Liðurinn 179. b. fann ekki náð hjá nefndinni, en jeg get þó ekki amast við þessu smáræði.

Námarannsóknarfjárveiting er nú óþörf í fjárlögum, með því að stjórnin hefir fengið heimild til þessa á annan hátt.

181. liður vona jeg fastlega að fram gangi. Ástæður sjá menn í nál. Lendingabætur eru mjög nauðsynlegar hvarvetna, en einkum þar, sem lendingar eru svo illar, að teflt getur verið um mannslíf. Þessi bryggjuviðgerð á Sauðárkróki er mjög nauðsynleg, og að minni ætlun einnig brimbrjótur hjá Gönguskarðsá, til þess að skjól verði þar fyrir innan. Mundi þá einnig þurfa þar botnsköfu, til þess að ekki verði þar grynningar, sem oft vilja verða í höfnum.

Þá vill nefndin mæla með styrk til gistihúsgerðar í Fornahvammi. Þessi bær er í þjóðbraut hjá fjallvegi, og nauðsynlegt að hafa þar gistihús. Menn, sem kunnugir eru og gist hafa þarna, láta sjer vel lynda viðtökurnar og vilja láta veita fjeð, og trúum vjer þeim, er ekki þekkjum til. Jeg hefi ekki komið þar nema á sumartímum, en þykist sjá, að á vetrum muni sparast margt mannslíf við að hafa bæ á þessum stað. Hjer er nánast um lendingabætur að ræða.

Í 18. gr. eru ýmsar till. um valinkunnar hefðarkonur, sem nefndin hefir orðið ásátt um að sinna. Jeg ætla ekki hjer að viðhafa orð um hverja einstaka út af fyrir sig, og jeg vona, að menn geri sem minst að því að ræða um einstaka menn. En jeg vildi þó leyfa mjer að minnast lauslega á þá þrjá prestana, Lárus Halldórsson, Gísla Kjartansson og Jónas Jónasson. — Því er þannig háttað um Lárus, að það er ungur prestur, sem jeg var mjög vel kunnugur í skóla, því að jeg kendi honum í 6 vetur. Hann er bæði gáfaður maður og góður, og þar að auki skáld gott. Má um hann segja, að honum er alt vel gefið, nema heilsan. Hann lá í Vífilsstaðahælinu í vetur, svo þungt haldinn, að fáir hugðu honum líf. En síðan hefir hann að vísu rjett dálítið við, en þó ekki svo, að nokkur batavon sje, svo framarlega sem hann þarf að vinna erfið embættisstörf. Jeg vona, að landinu farist nú vel við þennan hæfileikamann og konu hans og börn, og ljetti fyrir honum þessi ár sem hann á eftir ólifað, því að hann á engrar hjálpar að vænta annarsstaðar frá en þinginu. — Líkt er ástatt um Gísla Kjartansson. Hann er að vísu nokkuð við aldur, en hefir lengi átt við vanheilsu að búa og ekki getað þjónað brauði sínu nema á köflum. Yfirleitt er líkt ástatt um hann og síra Lárus. Nú vilja má ske sumir segja, að þessum mönnum sje ekki vandara um en öðrum að fara á sveit. En það mun þó vera álit flestra, að landið hafi meiri skyldur en svo við sína verkamenn. Þessir menn hafa báðir unnið vel í þess þjónustu, á meðan þeir entust, og vinnuveitandi getur ekki sóma síns vegna annað en bjargað þeim frá að þurfa að leita til sveitar — Alt öðru máli er að gegna um Jónas Jónasson. Hann er, eins og menn vita, þektur rithöfundur, og einn sá besti skáldsagnahöfundur þessa lands, þótt hann hafi aldrei hlotið neina viðurkenningu fyrir það af hálfu hins opinbera. Honum hefir þvert á móti verið svo smánarlega launað í því embætti, sem hann hefir haft á hendi og þjónað vel í mörg ár, að nú, þegar hann sleppir því, fæst enginn í hans stað. Nefndinni finst því ekki annað en sanngjarnt, að honum verði bætt þetta upp og gert mögulegt að lifa góðu lífi í nokkur ár, og vinna að því, sem honum lætur best.

Þá skal jeg víkja nokkrum orðum að 198.—199. lið. Einar Guðmundsson hefir verið verkstjóri landsstjórnarinnar, en er nú illa farinn að heilsu og þarf styrk til að geta notið rafmagnslækninga, sem helst mundu verða honum til bóta. Veitingin til hans er að eins fyrra árið.

Hvað snertir 199. lið þá er fordæmi fyrir þeirri heimild áður, þar sem er Bjarni Jensson læknir. Hjer er ekki um neina stóra upphæð að ræða. En það má segja manninum til lofs, að hann hefir verið óvenju heppinn með að hjálpa konum úr barnsnauð, enda hefir hann haft orð á sjer fyrir það í sínu hjeraði, eins og sjá má af því, að af þeim 70—80 konum, sem hann hefir hjálpað, hefir að eins ein dáið. Þetta er auðvitað hlutur út af fyrir sig, en nefndinni hefir þó virst alveg jafnsjálfsagt að veita honum eins og þeim, sem jeg nefndi áðan. — Þá kem jeg að 200. lið. Það þótti nefndinni sjálfsagt að auka óviss útgjöld sakir aukinnar löggæslu, og mun stjórnin kunna okkur þakkir fyrir, enda hefir nefndin vísað til gjalda í þessum lið. Um lánveitingarnar skal jeg ekki fara mörgum orðum; þar geta menn sjeð þá skilmála, sem nefndin hefir sett. — En það var síðasta till., um lán til þessa »Meginlands«. Okkur í nefndinni var algerlega ókunnugt um þetta »Eyland«—jeg sje nú að það er »Eyland«, en ekki »Meginland« —, og sáum okkur því ekki fært að mæla með þessu láni. Nefndin hefir að vísu ekki svarið við hár sitt og skegg að láta ekki sannfærast, ef nógu góð rök koma fram, sem mæla með þessu »Eylandi«. — Jeg skal að svo mæltu setjast niður og leyfa öðrum að taka til máls.