28.08.1917
Neðri deild: 45. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 960 í B-deild Alþingistíðinda. (471)

16. mál, dýrtíðaruppbót handa embættis- og sýslumönnum landssjóðs

Jörundur Brynjólfsson:

Það er rjett athugað hjá háttv. 2. þm. Árn. (E. A.), að strikin eiga að hverfa. Það er augljóst á brtt. meiri hlutans, að ekki er til þess ætlast, að reiknuð sje 25% uppbót frá 2500 kr. launum alt niður að 1500 kr., heldur að prósentan fari smáhækkandi, eftir því sem líkingin ber með sjer, og fylgiskjal nefndarinnar sýnir. Þetta er líka auðvelt að laga. Til þess þarf ekki annað en taka strikin burt við endurprentun frv., og það verður að sjálfsögðu gert.