08.09.1917
Efri deild: 51. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 969 í B-deild Alþingistíðinda. (479)

16. mál, dýrtíðaruppbót handa embættis- og sýslumönnum landssjóðs

Guðmundur Ólafsson:

Mjer bar það á milli við háttv. meðnefndarmenn mína, og skrifaði því undir nefndarálitið með athugasemd, að jeg gat eftir atvikum sætt mig við frv. í þeirri mynd, sem það kom í frá háttv. Nd. Jeg áleit uppbótina sæmilega; hún þyrfti ekki nauðsynlega að vera hærri, ekki síst þar sem þeir, er hlut eiga að máli, hafa á þessu ári fengið greidda ríflega dýrtíðaruppbót fyrir árið 1916.

Mjer fanst ekki óeðlilegt, að uppbótin væri heldur lægri nú. Ekki vegna þess, að hennar væri síður þörf, heldur af þeim ástæðum, er nú skal greina.

Í vetur stóð hagur landssjóðs svo miklu betur en nú, að hann skuldar jafnmargar miljónir nú og hann átti hundruð þúsunda þá, og þótt miklu af því fje hafi verið varið til skipakaupa og annara nauðsynja, og því ekki orðið beinn eyðslueyrir, er það ekki handbært nú.

Þá var sagt, að við ættum fjeð fyrirliggjandi og gætum varið því til uppbótar handa starfsmönnum landsins. Og einnig höfðu menn orð á því, að verðhækkunartollurinn hefði verið samþyktur með þetta fyrir augum á þinginu 1915, en því neita jeg algerlega

Háttv. deild mun og kunnugt, að hagur alþýðu, sem áreiðanlega á að greiða uppbót þessa einhvern tíma, er ekki eins góður og í vetur, og horfurnar fyrir hana jafnvel enn ískyggilegri en fyrir embættismenn. Einn álitlegasti bjargræðisvegurinn, síldveiðin, hefir brugðist. Ekki er heldur útlit fyrir það, að vörur þær, er bændur framleiða, verði í jafnháu verði sem síðastliðið ár. Þegar hagur þjóðarinnar er jafnþröngur sem nú, og það svo, að óumflýjanlegt þykir, að Alþingi geri öflugar ráðstafanir til þess, að landssjóður hlaupi undir bagga með almenningi og veiti hagkvæm lán til langs tíma, og jafnvel úthluti miklu af einni vöru, kolum, án endurgjalds — þegar þannig er komið hag fjöldans, verður ekki álitið ósanngjarnt að ætlast til þess af embættismönnum og sýslunarmönnum þjóðarinnar, að þeir sjeu ekki eins kröfuharðir og þeir mundu ella vera, og telji sjer skylt að taka sinn þátt í kjörum hennar og takmarka launakröfur sínar sem má. Jeg veit líka með vissu, að mörgum þeim mönnum, sem eiga að verða þessarar uppbótar aðnjótandi, er ljúft að taka verulegan þátt í kjörum alþýðunnar, þótt ekki verði því neitað, að aðrir þeirra krefji freklega rjettar síns og láti sig annað engu skifta.

Háttv. frsm. (G. G.) kvað það hafa vakað fyrir nefndinni að gæta fylsta rjettlætis. Þingið gætti ekki fylsta rjettlætis í vetur og hefir ekki heldur gert það nú. Menn hafa ekki fengið rjetta uppbót. Þá hefðu hinir hæst launuðu átt að fá hæstu upphæðina hlutfallslega, ef gengið er út frá því, að launin hafi verið nokkurn veginn hæfileg áður.

Háttv. frsm. (G. G.) sagði, að þingið í vetur hefði synt á milli skers og báru, af því að þjóðin væri fátæk. Það er rjett. Ástæðan var sú, að þingið sá sjer ekki fært að fara rjettustu leiðina. Gat að eins hjálpað embættismönnum til þess að komast sæmilega af.

Þá lýsti háttv. frsm. (G. G.) yfir því, að nefndinni hefði fallið betur í geð frv. stjórnarinnar en frv. Nd. En til þess að koma sjer ekki út úr húsi hjá háttv. Nd. hefði hún ekki breytt frv. í þá átt að hækka uppbótina. Jeg veit ekki, hvernig háttv. Nd. metur þessa tilhliðrunarsemi. En jeg hygg, að henni muni fátt um hana finnast, þar sem meiri hluti háttv. bjargráðanefndar hefir þó borið fram allmargar og miklar brtt. við frv. og það svo, að brtt. eru mun fleiri en greinar frv.

Enn fremur kvað háttv. frsm. (G. G.) meiri hluta nefndarinnar hafa sparað að nokkru leyti fyrir landssjóðs hönd. Jeg fæ nú ekki sjeð, hverjar af brtt. á þgskj. 892 fara í sparnaðaráttina. Háttv. frsm. (G. G.) láðist að taka það fram, hverjar þær væru. Í frv. háttv. Nd. er ákveðið, að af 1500 kr. launum skuli greiðast sem uppbót 40%, af 2500 kr. 25% og af 3500 kr. eða minna 10%. En í brtt. er farið fram á að greiða 40% af 1500 kr., 30% af 2300 kr., 20% af 3100 kr. o. s. frv. Í þessu virðist mjer ekki liggja neinn sparnaður. Þá hygg jeg það ekki heldur vera til sparnaðar að greiða uppbót af öllum launum, sem nema alt að 4600 kr., í stað þess, að hv. Nd. samþykti 3500 kr. sem hámark. Þá mun lítið sparast við það að greiða 70 kr. með framfæringi hverjum, í stað 50 kr.

Þá tók háttv. frsm. (G. G.) það fram, að landssjóð skifti það engu, hvort embættismenn landsins hefðu nokkra framleiðslu eða ekki. Það fæ jeg ekki skilið. Ef betur er ástatt fyrir þeim, er framleiðslu hafa, þá kemur það þingi og landssjóði við, þegar um það er að ræða að bæta svo upp kaup þessara manna, að þeir geti lifað sómasamlega. En hitt er rjett, að erfitt mun að skilgreina, hverjir hafi framleiðslu að mun og hverjir ekki.

Háttv. frsm. (G. G.) hjelt því fram, að einhleypum mönnum ætti helst að gera jafnhátt undir höfði og öðrum. Þetta hefir nefndin ekki gert, og sannar það, að hjer er ekki að ræða um það, hvað sje rjettmætt, heldur hvað komast megi af með.

Jeg hygg, að jeg þurfi ekki að drepa á fleiri atriði að sinni. Jeg hefi sýnt fram á, að brtt. fara fram á talsverða hækkun, og að hjer sje um það að ræða, hvað sómasamlegt sje að veita, en alls ekki um það að gera öllum jafnt undir höfði.