24.08.1917
Neðri deild: 42. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 225 í B-deild Alþingistíðinda. (48)

1. mál, fjárlög 1918 og 1919

Forsætisráðherra (J. M.):

Það er alveg rjett hjá háttv. frsm. fjárveitinganefndar

(B. J.) þessa kafla fjárlaganna, að hjer er ekki um neinar deilur að ræða milli stjórnarinnar og fjárveitinganefndar um 14. gr. Jeg býst við, að stjórnin í heild sinni hafi ekkert sjerstakt við flestar af þessum breytingum að athuga.

Það virðist svo, sem nefndin hafi yfirleitt verið dálítið örlátari í útlátum en ráðuneytið. Við því er auðvitað ekkert að segja.

Hvort háttv. deild treystir sjer til að fylgja nefndinni að málum í þessu, mun sýna sig seinna. En jeg get ekki skilið, að ráðuneytið átelji háttv. deild neitt, þótt svo kynni að fara. — Um breytingar á launaupphæð háskólans er ekkert að segja. Ekki heldur um það að færa saman lið, sem snertir dr. Alexander Jóhannesson. Sama er að segja um starfrækslu »Röntgen«; að eins er jeg hræddur um, að það verði dýrara en gert hefir verið ráð fyrir, en það mun koma fram við 3. umr. Jeg get ekki annað en látið í ljós, að mjer finst nefndin hafa verið helst til örlát við leikfimikennara Kennaraskólans. Það er að vísu ekki nema sjálfsagt, að maðurinn eigi góða borgun skilið fyrir starf sitt. Ef við berum þetta saman við leikfimikennara Mentaskólans, sem hefir kent þar mjög langan tíma, þá finst mjer nokkuð hátt að ætla leikfimikennara Kennaraskólans 1700 kr., en leikfimikennara Mentaskólans að eins 1200 kr., og það er ekki hægt að segja, að hjer sje farið eftir almennum launareglum.

Jeg verð að segja, að það kemur mjer dálítið undarlega fyrir sjónir, að nefndin skuli ekki vilja láta lagfæra lóð Kennaraskólans. Mjer finst það brjóta í bág við þá stefnu, sem nefndin annars hefir tekið í öðrum atriðum. Orsökin til þessa getur ekki verið sú, að vinnan sje svo dýr, því að jeg sje ekki betur en að nefndin hafi ráðstafað allmiklu fje til ýmiskonar annarar vinnu, þrátt fyrir það. Jeg fæ ekki skilið þessa ráðstöfun nefndarinnar, og það því síður, sem hjer er um aukna atvinnu að ræða, en háttv. þingm. leggja áherslu á að veita fólki atvinnu. Auk þess er það mjög leiðinlegt að sjá áberandi óþrif í kringum hús landsstjórnarinnar, þar sem einstakir menn láta sjer mjög ant um að gera þokkalegt kringum híbýli sín.

Það er ekki meining min að fara að telja upp hjer hverja breytingu, enda munu háttv. þingm. hafa áttað sig á, hvað þeir samþ. og hvað ekki. En jeg vildi geta þess, að þótt yfirsetukonur hjer í Reykjavík kunni að hafa fulllága þóknun fyrir að leiðbeina yfirsetukvennaefnum, þá tel jeg efasamt, hvort þörf hefir verið á að hækka það eins mikið og nefndin hefir gert. Jeg verð að álíta, að nóg hefði verið að tvöfalda launin, óþarfi að þrefalda þau.

Um byggingar á skólahúsum skal jeg taka fram, að það kann að vera rjett hjá nefndinni að ætla sjer ekki að styrkja aðrar skólabyggingar en í Vestmannaeyjum, sjerstaklega þar sem svo dýrt er að byggja ný hús. En jeg held, að aths., þar sem talað er um byggingu skólahúss í Vestmannaeyjum, sje ekki allskostar rjett orðuð, þar sem sagt er: » — með því skilyrði, að stjórnarráðið samþykki uppdrátt af húsinu.« Eftir því, sem jeg veit best, þá mun skólinn þegar vera bygður, og er því orðalagið hálfkátlegt, og finst mjer óþarft að setja það, enda hygg jeg að búið sje að samþykkja uppdráttinn.

Næsta till. á undan er um, að veitt skuli fje »til kaupmannafjelagsins og verslunarmannafjelagsins í Rvík., til þess að halda uppi skóla fyrir verslunarmenn undir yfirumsjón landsstjórnarinnar.« Þetta er alveg »privat« skóli, sem hjer er talað um, og jeg veit ekki, hvernig þessari yfirumsjón ætti að vera háttað. Og það er ekki hægt að gera strangar kröfur til þeirra, sem skólann halda, ef veitt er að eins ¾ kostnaðar.

Viðvíkjandi Landsbókasafninu vil jeg taka það fram, að mjer sýnist það dálítið varhugavert að setja laun skrásetjara handritasafns Landsbókasafnsins eins og hjer sje um fasta stöðu að ræða. Það er að vísu tekið fram í nefndarálitinu, að staðan falli niður að starfinu loknu. En þó tel jeg óheppilegra að breyta þessu frá því sem áður var. Mjer finst, að nefndin hefði átt að bera sig saman við landsbókavörð eða stjórnina, áður en þetta var ákveðið. Það mun ekki vera fjárspursmál fyrir viðkomandi mann, sem öllum kemur saman um að sje starfinu vel vaxinn. En hins vegar er það hálfóviðkunnanlegt að setja á stofn stöðu, sem kemur dálítið undarlega heim við skipanir annara starfsmanna við safnið og laun þeirra. Þetta munu verða hærri laun en 1. bókavörður hefir, en þar að auki hefir þessi maður annan styrk, svo að hann hefir alls jafnvel hærri laun en landsbókavörðurinn sjálfur. Mjer fyndist rjettara, að þetta væri borgað eftir »akkorði«. Það er ákveðin upphæð, sem er veitt í þessu skyni, og er borgað eftir vinnunni, svo að þegar miklu er afkastað, eins og þessi maður gerir oft, þá er líka mikið borgað. En þegar aftur á móti launin eru ákveðin fyrirfram, þá er ekki eins mikil trygging fyrir því, að jafnmikið sje gert.

Um að aðstoð við lestrarsal Landsbókasafnsins verði að eins í 7 mánuði, eins og nefndin leggur til, skal jeg ekki mikið segja. Eins og verið hefir hefir verið álitið, að þörf væri á þessari aðstoð í lengri tíma, en það má vera, að það hafi verið talað við forstöðumann safnsins um þetta. Um aðrar breytingar við söfnin, t. d. laun aðstoðarskjalavarðar, skal jeg ekki deila. Það skiftir litlu máli, hvort þau eru ákveðin eins og stjórnin leggur til eða nefndin. En þó kynni jeg best við, að hann hefði lík laun og t. d. 1. bókavörður við Landsbókasafnið. Vel má vera, að það sje sanngjarnt að greiða betur en verið hefir aðstoð við Þjóðmenjasafnið, en þó finst mjer, að nefndin hafi gengið fulllangt í því, þar sem hún vill hækka borgunina um helming.

Hvort ástæða sje til að hækka veitinguna til kaupstaðabókasafna, skal jeg láta ósagt. Ef peningar eru nógir, þá er auðvitað ekkert um það að segja, en eins og ástandið er nú tel jeg rjettara að forðast óþarfa útgjöld, og óþarft er að hækka úr 30 kr. upp í 50 kr. styrk fyrir hverja örk til Sögufjelagsins. Jeg hygg, að þetta gæti orðið til þess, að þetta hjeldist nokkuð lengi, og yrði þá líkt og hækkun á styrknum. Ef fjelagið síðar vildi gefa út fleiri arkir, þá er ekki ólíklegt, að það vildi samt fá sama styrk fyrir örkina, og ef svo færi, þá væri þetta hið sama og að hækka styrkinn til fjelagsins.

Jeg skal ekkert hafa á móti því að hækka skálda- og listamannastyrkinn. Það er sjálfsagt ekki nema rjett þessi næstu ár, en ráðuneytinu fanst það ekki geta farið hærra en 12 þúsund krónur, og er það þó talsvert meira en áður hefir verið veitt í þessu skyni. En þegar þetta er hækkað svo, hefði mátt búast við, að það hefði verið fremur lítið, sem veitt væri einstökum mönnum í þessari grein, til fræðiiðkana, söfnunar þjóðsögum, málsháttum o. fl.

Annars ætla jeg ekki að fara að tala um einstaka menn, og veit það til einstöku manna, að ekki er vert að fara oflangt í þess konar, en mjer sýnist, sem sagt, að yfirleitt hafi háttv. fjárveitinganefnd farið heldur ört í sakirnar, ef hækkunin í 16 þús. kr. á að standa til ársloka 1919. Jeg geri ráð fyrir, að það sje mjög heppilegt að fá dr. Helga Jónsson til þessara þararannsókna, sem gert er ráð fyrir. Á hinn bóginn er það dálítið óvanalegt að gera ráð fyrir því, að það sje ótiltekið, sem hann fær í ferðakostnað. En jeg þekki þennan mann að því að fara sparlega í slíkt, svo að það myndi ekki skaða í þessu tilfelli, en annars gæti það verið mjög athugavert að hafa þetta svona ótiltekið.

Flest af því, sem mjer kemur við, eru annars smábreytingar, sem jeg nenni ekki að tala um sjerstaklega, og mun það koma fram í atkvgr., hvernig aðstaða mín er. Það er ógnarlega vel gert, að háttv. nefnd hefir verið rífleg á eftirlaun. En jeg er ekki alveg viss um nema hún hafi ekki farið út á hála braut, sjerstaklega er hún ákvað eftirlaun tveggja presta, síra Lárusar Halldórssonar og síra Gísla Kjartanssonar. Það sýnist mjög ríflegt að áætla hinum fyrnefnda 1500 kr. í eftirlaun, þegar eftirlaunalögin ákveða hæst 1200 kr. Nauðsynin er sjálfsagt mikil, en hún er víða, og skal jeg ekki tala um það, en eftir kringumstæðunum finst mjer líka mjög ríflegt að ætla sjera Gísla Kjartanssyni 1000 kr. í eftirlaun. Alt öðru máli er að gegna um síra Jónas Jónasson, og það af þeim ástæðum, er háttv. frsm. (B. J.) tók fram. Það er gamall maður, hefir lengi þjónað embætti, en er nú orðinn ófær til þess. Hann á gott skilið sem rithöfundur, og eins og háttv. framsm. (B. J.) sagði eru þessar 1600 kr. bæði eftirlaun og ritlaun og því ekki mikill styrkur í þeim notum. Þess vegna tel jeg sjálfsagt, að hann fái þann styrk, er nefndin hefir stungið upp á, en jeg get ekki látið vera að telja dálítið athugavert að ganga eins langt í hinum atriðunum. Jeg vildi skjóta því til háttv. nefndar, hvort hún sjer sjer ekki fært að athuga þetta atriði betur til 3. umr. Jeg veit, að margir eru þess hvetjandi, að síra Lárus fái þetta, en það getur dregið talsverðan dilk á eftir sjer.

Sje jeg svo ekki ástæðu til að orðlengja frekar um þetta. Aðallega vildi jeg láta það koma fram, að háttv. deild sker ekki við neglur sjer. Má vera að þess þurfi ekki, en það verður háttv. þm. að gera upp með sjálfum sjer, í sambandi við hag landssjóðs.