08.09.1917
Efri deild: 51. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 972 í B-deild Alþingistíðinda. (480)

16. mál, dýrtíðaruppbót handa embættis- og sýslumönnum landssjóðs

Frsm. (Guðjón Guðlaugsson):

Háttv. 2. þm. Húnv. (G. Ó.) hafði dálítið við brtt. að athuga, eins og við var að búast, þar sem hann gat ekki skrifað undir nál. og átti ekki þátt í brtt,

Háttv. þm. (G. Ó.) áleit dýrtíðaruppbótina í vetur sanngjarna af því, að landssjóður hafi þá verið færari um að veita hana. En sanngirnin getur ekki stafað af þeirri ástæðu, heldur af hinu, að menn hefðu frekar þurft hennar þá en nú. En það mun öllum skiljanlegt, að þörfin verður því meiri, sem dýrtíðin eykst. Og háttv. þm. (G. Ó.) getur ekki neitað því, að dýrtíðin hefir aukist, og þá ætti uppbótin einnig að vera meiri.

Háttv. 2. þm. Húnv. (G. Ó.) gat þess oftlega, að þingið sýndi ekki rjettlæti hvort sem væri. En getur háttv. þm. (G. Ó.) ekki sjeð, að miklu munar, hvort reynt er að fara nálægt rjettlætiskröfunni, eða menn fara langt frá henni. Háttv. þm. (G. Ó.) reynir að fara svo langt frá rjettlætiskröfunni, sem hann telur sjer fært, en við, hinir nefndarmennirnir, viljum fara sem næst henni og fjarlægjast ranglætið sem mest. Jeg hygg, að flestir aðrir en háttv. 2. þm. Húnv. (G. Ó.) hljóti að skilja, að órjettlætið getur verið á mismunandi háu stigi.

Háttv. þm. (G. Ó.) mintist á sparnað nefndarinnar. Jeg gat um, að nefndin hefði komið með 2 brtt. til samkomulags, er færu fram á lítilfjörlegan sparnað. En jeg sagði, að dýrtíðaruppbótin væri nær sanni eftir brtt. heldur en eftir frv. Við gengum þess ekki duldir, að brtt. hækka heldur uppbótina og styrkinn til framfæringa. Brtt. voru því ekki bornar fram til þess að spara fje landssjóðs, heldur í þeim tilgangi að minka ósæmilegt ranglæti þingsins sjálfs. Háttv. þm. (G. Ó.) vill ekki minka það í þessu máli. Hreppapólitík, er verður að ranglæti, er sá ágalli, sem fylgir háttv. þm. (G. Ó.), og hefir komið fram í þessu máli og fleiri málum, t. d. því máli, sem næst verður rætt um (dýrtíðarhjálp).

Jeg sje ekki, að háttv. þm. (G. Ó.) hafi fært nein rök fyrir máli sínu, og hygg jeg, að jeg þurfi ekki að svara ræðu hans frekara.