08.09.1917
Efri deild: 51. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 980 í B-deild Alþingistíðinda. (483)

16. mál, dýrtíðaruppbót handa embættis- og sýslumönnum landssjóðs

Atvinnumálaráðherra (S. J.):

Það er nú svo komið tíma dags og í raun og veru einnig tíma þingsins, að það er heppilegra að spara sem mest öll orð. Hitt er lakara, að það er einnig svo varið tímanum, að maður verður má ske að spara athugun, þótt stórmál komi fram á síðustu stundu fyrir þessa háttv. deild, og þá með brtt., sem tæplega getur kallast að háttv. deildarmenn geti athugað neitt nákvæmlega. Þess vegna er það líka athugavert, að umr. hv. deildarmanna hafa verið þannig vaxnar í þessu máli nú, að maður skyldi halda, að þetta væri 1., en ekki 2. umr., þegar verið er að tala um grundvöll málsins. En þetta er eðlilegt, af þeirri ástæðu, sem jeg tók fram, að háttv. deild hefir ekki gefist kostur á að athuga málið nema lítið eitt.

Þegar jeg athuga meðferð háttv. deildar á málinu og ber það saman við frv., sem kom frá Nd., þá dylst mjer eigi, að nefndin hefir leitast við að breyta ekki frv. nema svo, að þær breytingar, sem hjer kynnu að verða samþyktar, næðu einnig fram að ganga í háttv. Nd. Þetta sýnir, að sú skoðun, sem komið hefir fram í Nd., að þessi deild leitist við að sýna ráðríki í fjármálum, er ekki á rökum bygð. Það hlýtur að vaka sú skoðun fyrir þinginu, að þungamiðja fjármálanna sje hjá háttv. Nd., og jeg held, að þessi háttv. deild hafi ekki misskilið það. Jeg vildi taka þetta fram nú til skýringar, því að hjer er ekki um neinar stórvægilegar breytingar að ræða, fjárhagslega skoðað, og því síður grundvallarlega.

Það var eitt mörgum orðum og miklum tíma til að tala um, hvort þetta væri uppbót eða hjálp, og get jeg ekki annað sjeð en að háttv. deild hafi skilist, að það væri svo, að það mætti fremur kalla uppbót en hjálp. Þetta er líka svo frá landsstjórnarinnar hálfu, þótt það verði minna en ætlað er, við meðferð þingsins á málinu. Fyrir mitt leyti hallast jeg í raun og veru meir að skoðun háttv. 1. þm. Rang. (E. P.), enda hefir það einnig komið til tals með stjórninni, að eðlilegast væri að gefa uppbót af nokkrum fyrstu hundruðum launanna, hvort sem launin væru há eða lág. Það er, með öðrum orðum, að bæta upp það, sem nefna mætti þurftarlaun hvers manns, en stjórnin sá sjer ekki fært að leggja það til, þegar litið var á, hvernig þingið skildist við málið á síðastliðnum vetri.

Jeg skal ekki blanda mjer inn í deilu háttv. 4. landsk. þm. (G. G.) og háttv. 2. þm. Húnv.

(G. Ó ), þó að mjer virðist, að hinn fymefndi hafi þar rjettara fyrir sjer. Meiningin væri þá, að launalögin, meðan þau væru í gildi, yrðu að skoðast nokkurn veginn rjettlát, því að svo verður að líta á, að þingið telji ekki annað rjettlátara en þau gildandi lög. En með því að svona er liðið á tímann, þá virðist mjer, að málið megi ekki eyðileggjast fyrir þref og þjark og því verði að beygja af, þó að menn verði ekki að öllu leyti ásáttir. Jeg býst við að greiða atkv. með flestum brtt. nefndarinnar, þó ekki með 11. brtt., því að hún færir málið þó enn þá fjær því, sem jeg vildi kalla rjettlætisgrundvöll í því.

Jeg hefi svo ekki meira að segja og mun ekki aftur taka til máls um þessi atriði. Jeg skal að eins taka það fram, að mjer virðist, að betra væri að greiða lægri prósentur yfirleitt heldur en að vera að bæta inn í frv. ýmsum nýjum, svo að segja ómögulegum, ákvæðum í framkvæmdinni.