08.09.1917
Efri deild: 51. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 982 í B-deild Alþingistíðinda. (485)

16. mál, dýrtíðaruppbót handa embættis- og sýslumönnum landssjóðs

Fjármálaráðherra (S. E.):

Jeg skal ekki lengja umræður mikið um þetta mál. Tíminn er stuttur og lítill kostur hefir verið á að athuga það rækilega nú, og, eins og háttv. þingmönnum er kunnugt, átti jeg engan þátt í undirbúningi þess.

En eftir því, sem jeg hefi skilið háttv. nefnd, þá hefir hún viðurkent rjettmætar kröfur embættismanna til dýrtíðaruppbóta og sýnt viðleitni í að uppfylla þær.

Sú leiðin, að fara sem minst fram yfir það, sem samþ. var í háttv. Nd., virðist mjer hyggileg, þar sem tíminn er orðinn svo afmarkaður, og stórvægilegar breytingar gætu orðið til þess, að hefta framgang málsins. En þá væri ver farið en heima setið. Jeg býst því við að greiða atkv. með brtt. nefndarinnar. Þó er ein þeirra, sem jeg get ekki felt mig við. Það er sú, sem fer fram á, að þeim, sem nefndir eru í 18. gr. fjárlaganna, verði engin dýrtíðaruppbót veitt. Jeg skildi háttv. frsm. (G. G.) svo, að nefndin legði litla áherslu á þetta atriði,

Það getur verið rjett, að það rjúfi »princip« frv. að taka þessa menn með. En þegar litið er yfir þessa grein fjárlaganna, sjest það, að ekki myndi það vera mikill útgjaldaauki fyrir landssjóð að veita þeim mönnum dýrtíðaruppbót, en hins vegar er þörfin óvíða meiri en einmitt hjá því fólki, sem þar er talið. Þar eru t. d. fátækar ekkjur, sem eiga við erfið kjör að búa á allan hátt, og gamlir duglegir menn, sem búnir eru að eyða kröftum sínum í þarfir lands og þjóðar, t. d. gamlir póstar og fleiri heiðursmenn. Jeg álít því, að fult rjettlæti mæli með að taka þetta fólk með.

Jeg vildi að eins benda á þetta til athugunar.