13.09.1917
Efri deild: 56. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 984 í B-deild Alþingistíðinda. (489)

16. mál, dýrtíðaruppbót handa embættis- og sýslumönnum landssjóðs

Eggert Pálsson:

Jeg gat um það við 2. umr. þessa máls, að jeg mundi ef til vill bera fram brtt. við 3. umr., en jeg hefi ekki gert það. Málið var afgreitt hjer í háttv. deild við 2. umr. er klukkan var hartnær 11 í gærkveldi, og því hefir ekki verið útbýtt fyr en nú í þessu augnabliki. Það hefir því ekki verið nokkur tími til að koma fram með brtt., og jeg býst ekki heldur við því, að það hefði haft nokkra verulega þýðingu. En jeg vil taka það fram, til þess, að öllum þeim, er lesa þingtíðindin, megi vera það ljóst, að jeg hefi ekki látið af skoðun minni, heldur orðið að breyta svo vegna tímaleysis.

En jeg vil geta um annað atriði í sambandi við þetta, og það er, að álits fjárveitinganefndar hefir ekki verið leitað um málið, en það er þó beint tekið fram í 16. gr. þingskapanna, að álits fjárveitinganefndar skuli leita um öll frv., er hafa útgjöld í för með sjer. Þetta frv. hefir þó mikil gjöld í för með sjer, og þessari grein hefir verið beitt meira að segja um mjög lítilfjörleg atriði, eins og t. d. um kaup á áhöldum til síldarmatsmanna. En þetta er líklega gleymska (K. E.: Nefndin hefir gleymt því í flýtinum), og jeg er ekki að tala um þetta af því, að jeg sje í fjárveitinganefndinni, enda býst jeg við, að hún hefði ekki haft neitt við málið að athuga frá þeirri hlið.