14.09.1917
Neðri deild: 60. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 986 í B-deild Alþingistíðinda. (495)

16. mál, dýrtíðaruppbót handa embættis- og sýslumönnum landssjóðs

Pjetur Jónsson:

Það er álit meiri hluta bjargráðanefndar, að frv. beri að samþykkja óbreytt, eins og það kemur frá Ed. Þarf því ekki langa framsögu. Jeg býst við, að menn hafi gert sjer grein fyrir þeim breytingum, sem Ed. hefir gert á frv. Samt skal jeg lauslega drepa á aðalbreytingarnar.

Fyrst er breytingin á 4. lið 1. gr.; er þar gerð önnur skipun á uppbótinni til þeirra, sem auk embættis síns hafa atvinnu af sjávarútvegi eða landbúnaði. Undantekningin nær einungis til prestanna og þó að eins til afgjalds af prestssetri, sem fellur undan dýrtíðaruppbót.

Næsta breytingin er um einhleypingana. Er hámarkið fært úr 2000 kr. í 2450 kr. Þannig er um búið, að þeir, sem hafa yfir 2000 kr., fá svo mikið, að uppbótin og launin nemi samanlagt 2450 kr.

Þriðja breytingin er líka hækkun á hámarki. Hefir Ed. fært hámarkið fyrir því, hverjir fá dýrtíðaruppbót, úr 3500 kr. í 4600 kr.

4. breytingin er á 4. gr. Er landsstjórninni heimilað að verja eftir till. póstmeistara alt að 20000 kr. til dýrtíðaruppbótar handa póstum. Þetta eru helstu efnisbreytingarnar.

Jeg hefi lítils háttar borið saman fjárhagslega frv., eins og háttv. Ed. hefir gert það úr garði, við frv. stjórnarinnar. Lækkunin á prósentunni frá því, sem stjórnin hafði áætlað, mun nema um 70 þús. kr. Upp á móti því kemur aftur uppbót, sem miðuð er við framfæringa, en hana hefir háttv. Ed. fært úr 50 kr. fyrir hvern framfæring upp í 70 kr. Ef giska mætti á, að framfæringar, sem þessa njóta, muni vera um eitt þúsund, verða það 70 þús., eða sem nemur prósentlækkuninni. Það eru því miklar líkur til, að það standist á, sem stjórnin áætlaði, og það, sem veitt verður.

Viðbótin til kennaranna verður samt kann ske umfram. Alls mun því uppbótin fara yfir 300 þús. kr.

Ekki voru allar breytingarnar, sem gerðar voru í Ed., meiri hluta nefndarinnar að skapi. Þó vill meiri hlutinn sætta sig við frv., eins og það er. Vill hann heldur, að frv. verði samþykt svona, en að málinu verði ef til vill hleypt í strand, því að það væri bæði ilt og ósæmilegt.

Aðalágreiningurinn, sem varð í nefndinni, kemur fram í brtt. frá tveim háttv. þingmönnum., 1. þm. Árn. (S. S.) og þm. Borgf. (P. O.). Vilja þeir fyrst koma sama skipulagi á um þá, sem framleiðslu hafa, eins og ákveðið var í frv., er það fór frá Nd. Jeg vil ekki mæla á móti þeirri breytingu í sjálfu sjer. Ef það fyrirkomulag hefði verið samþykt í vetur, þá hefði jeg verið þeirri tilhögum samþykkur. En nú horfir öðruvísi við. Í ár er ekki hægt að segja, að prestar hafi uppbót af atvinnurekstri sínum. Því er minni ástæða nú til að undantaka þá árið 1917 heldur en var fyrir árið 1916.

Nefndin hefir orðið vör við ónákvæmni í uppbótarúthlutuninni fyrir 1916. Mönnum, sem hafa ókeypis húsaleigu, hefir verið bætt upp á þeim launum, sem í ókeypis húsaleigu felast. Til þess var auðvitað aldrei ætlast. Menn eiga enga uppbót að fá á því, sem þeim er goldið in natura.

Þá vilja sömu menn (S. S. og P. O.) færa styrkinn til framfæringa úr 70 kr. niður í 50 kr. Mjer hefir altaf fundist 50 krónur á framfæring fulllítið til að gera mun á fjölskyldumanni og einhleypingi. Skoðun mín er sú, að uppbótin eigi aðallega að fara eftir þörfunum, og þörfin verður því meiri, sem framfæringar eru fleiri. Því vil jeg leggja á móti, að framfæringatillagið verði lækkað.

Um 4. brtt. skal jeg ekki ræða. Hún varðar ekki miklu.

Jeg vil mælast til, að flm. (S.S. og P.O.) tækju brtt. sínar aftur, því að það ætti helst ekki að eyða fje í að þvæla þessu máli lengur milli deildanna; og mjög væri varhugavert að gera nokkrar breytingar, sem gætu komið málinu í óefni.