24.08.1917
Neðri deild: 42. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 234 í B-deild Alþingistíðinda. (50)

1. mál, fjárlög 1918 og 1919

Sigurður Sigurðsson:

Ræða hv. frsm. (B. J ) er að mörgu leyti glögg og góð, hógvær og öfgalítil eða öfgalaus að mestu. Jeg er honum mjög þakklátur fyrir hans sönnu orð um landbúnaðinn og þýðingu hans. Sömuleiðis þakklátur allri háttv. fjárveitinganefnd fyrir meðferð hennar á ýmsum atriðum viðvíkjandi landbúnaðinum, í 16. gr. — Sjerstaklega er jeg henni þakklátur fyrir, að hún hefir sjeð sjer fært að leggja til, að styrkur til búnaðarfjelaga skuli veittur bæði árin. Aths. aftan við liðinn tel jeg góða. Hún bætir að mínu áliti úr því, sem oft hefir verið að fundið, að þessum styrk væri stundum miður vel varið innan búnaðarfjelaganna, bútaður niður á dagsverk eða skift milli manna eftir dagsverkatölu. Vona jeg, að athugasemdin komi í veg fyrir, að svo verði framvegis. Út af aths. hæstv. atvinnumálaráðherra, er hann óttaðist, að styrkurinn lenti ekki til fjelaga, er væru utan búnaðarsambandanna, þá er eftir mínum skilningi ekkert slíkt að óttast. Aths. segir, að búnaðarsamböndin skuli ákveða, hvernig styrknum skuli varið í hverju fjelagi, en að honum skuli skift að öðru leyti eftir dagsverkatölu. Ættu þá fjelög að geta hlotið hann, þótt ekki sjeu í búnaðarsambandi. Fyrirspurn hæstv. atvinnumálaráðherra verður sennilega að öðru leyti svarað af háttv. framsm. (B. J.). En þess skal jeg geta, að nokkur fjelög eru utan sambandanna, er hafa að undanförnu orðið styrks aðnjótandi. Sem sagt tel jeg aths. góða og vona, að hún verði til þess, að styrknum verði betur varið hjer eftir en átt hefir sjer stundum stað, og jeg get ekki sjeð, að búnaðarfjelög utan búnaðarsambandanna þurfi að verða út undan.

Um Skeiðaáveituna skal jeg fátt segja. Mjer þykir vænt um, að nefndin leggur til, að það verk sje styrkt með kostnaðar eða alt að 26000 kr. Þessi fjárveiting stendur ekki í neinu beinu sambandi við afdrif frv. um Flóaáveituna, hver sem þau verða. Þetta verk á Skeiðunum er þegar hafið; var byrjað á því í vor. Unnu oftast í því fram að slætti 100—130 manns, en í sumar hafa unnið þar 30—40 manns, og verður aftur fjölgað í haust. Þá verður búið að vinna að minsta kosti ? hluta verksins. Vona jeg því, að þessi veiting fái að halda sjer, hvað sem um Flóaáveitufrv. verður. Hinu vil jeg ekki gera ráð fyrir, að frv. það verði felt í Ed. Það væri að mínu áliti altof illa með málið farið, jafn vel sem það er undirbúið, og svo mikið áhugamál sem það er hlutaðeigendum.

Annars vil jeg minnast á brtt. mína á þgskj. 544, sem í fyrsta lagi fer fram á það, að styrkur til sandgræðslu sje færður upp í 10000 kr. hvort ár, eða til vara 8000 kr. hvort ár. Skal jeg stuttlega gera grein fyrir þessum brtt.

Það er enginn vafi á því, að meira þarf að vinna að sandgræðslu en gert hefir verið að undanförnu, og þá fyrst og fremst þar, sem svæði hafa verið girt og friðuð. Það er ekki nóg að friða landið, heldur verður líka að hjálpa því að gróa upp. Auk þess er uppblástur víða orðinn svo voðalegur, að þau svæði verður að taka alvarlega til meðferðar, girða þau og friða. En það er að vísu ekki hægt meðan girðingarefni er svo dýrt og illfáanlegt sem nú. En þegar um hægist, verður ekki komist hjá að láta skríða þar til skarar. Jeg skal nefna nokkur uppblástrarsvæði, svo sem Selvogsheiði, Kambsheiði í Holtum, aurana austan Þverár og ofan Hemlu, og enn fleiri svæði má telja, þar sem graslendi er ógnað með bráðum bana. Enn fremur þarf Meðallandssandgræðslan bráðra endurbóta við, og svona má halda áfram að telja. Öll þessi uppblástrarsvæði, og enn fleiri, þurfa bráðrar aðgerðar við, og má helst ekki dragast, að eitthvað sje gert til til þess að hefta eyðilegginguna. Hjer er um eitt hið mesta nauðsynjamál að ræða. Væri því gott, ef Alþingi sæi sjer fært að hækka fjárveitinguna, helst upp 10 þús. kr. hvort árið. Má geta þess, málinu til stuðnings, að búnaðarþingið skoraði á Alþingi að auka styrkinn, þótt háttv. fjárveitinganefnd sæi sjer ekki fært að taka þá áskorun til greina.

Á sama þskj. á jeg aðra brtt., um að lækka styrkinn til skógræktarinnar niður í 10 þús. kr. Þessi fjárveiting hefir áður verið 10 þús. kr. Jeg sje enga ástæðu til að hækka hana, á meðan forstaða þeirra mála er í höndum þess manns, sem nú er. Jeg skal ekki tala hjer um verðleika þessa manns. Í því efni nægir að benda á það, hvað háttv. fjárveitinganefnd segir í nál. sínu. Þar segir svo meðal annars:

»Meðal annars og sjer í lagi skal bent á fjáreyðsluna til fleytingar á skógvið, sem fullreynt er að ekkert vit er í, en sívaxandi fjáreyðsla til ónýtis, eins og skýrslur og reikningar bera með sjer. Lítur nefndin svo á, að það verði að varða stöðu skógræktarstjóra, ef hann heldur áfram viðarfleytingu og öðru jafnfjarstæðu á kostnað landssjóðs«.

Jeg skil það ekki, að nefndin geti annað en fallist á tillögu mína, eftir að hafa gefið slíka yfirlýsingu. Jeg trúi því ekki fyr en jeg tek á, að nefndin gangi svo frá ummælum sínum. Ef einhver breyting verður á forstöðu þessarar stofnunar fram til Alþingis 1919, þá er hægt að auka fjárveitinguna þá.

Þá á jeg eina brtt., á þgskj. 545, sem fer fram á, að Árna G. Eyland verði veitt 10 þús. kr. lán, til þess að koma á fót fyrirmyndarbúi hjer á landi. Ætlar hann sjer helst að sýna fyrirmyndartúnrækt með notkun nýtísku áhalda.

Háttv. frsm. (B. J.) sagði, að maðurinn væri bráðókunnugur fjárveitinganefndinni. Það getur vel verið. En til þess, að menn kynnist dálítið manninum, skal jeg fara um hann nokkrum orðum. Jeg býst reyndar við, að háttv. frsm. (B. J.) leggi ekki mikið upp úr því, sem jeg segi, og er þar líkt á komið með mig, hvað hann áhrærir.

Þessi Árni G. Eyland er Skagfirðingur að ætt og uppruna. Hann er útskrifaður úr Hólaskóla með ágætum vitnisburði, og er nú sem stendur ráðsmaður á stórum búgarði í Noregi. Maðurinn er mesti efnismaður, en fjevana, og treystir sjer ekki til að stofna hjer búskap af eigin ramleik. Jeg þekki það líka, að maðurinn er mjög mikill áhugamaður um landbúnaðarmál, og þarf ekki annað, til að sannfærast um það, en að kynna sjer grein eftir hann, sem kom út í »Íslendingi« nú síðastliðið vor. Þó sanna vitnisburðir hans meira í þessu efni, því að þeir eru ágætir. Hann hefir ekki enn trygt sjer jörð, en hann mun hafa hug á að setjast að í Skagafirði og hefir von um að fá jörð þar. (M. G.: Hvaða jörð er það?). Jeg hefi ekki heimild til að segja frá því opinberlega, enda hefir hann ekki fengið vissu, heldur von, um jarðnæðið. Jeg vona nú, að háttv. 1. þm. Skagf. (M. G.) láti manninn ekki gjalda þess, að hann hefir snúið sjer til mín, en ekki hans, með að koma málinu á framfæri. Það er einungis af því, að maðurinn var mjer kunnugur, en ekki honum.

Þá á jeg hjer enn eina brtt, á þgskj. 551. Hún fer fram á, að styrkurinn til skálda og listamanna verði lækkaður niður í 10 þúsund krónur. Um þessa tillögu vil jeg leyfa mjer að fara nokkrum orðum. Jeg skal þegar lýsa yfir því, að jeg legg ekki mikla áherslu á, að styrkurinn verði lækkaður úr 12 þús. kr., sem stjórnin vill láta veita. En aftur er jeg mjög mótfallinn tillögu nefndarinnar um að hækka styrkinn upp í 16 þús. kr. Og jeg skal lýsa yfir því, að verði tillaga nefndarinnar feld, þá tek jeg mína till. aftur, hvað upphæðina snertir.

Öðru máli gegnir um annan lið brtt. Á hann legg jeg miklu meiri áherslu. Þar er farið fram á að fella aths. aftan við liðinn, um að þriggja manna nefnd geri tillögur, sem stjórnin skuli fara eftir, um það, hvernig styrknum sje úthlutað. Það var lengi, að þingið úthlutaði sjálft þessum styrk, og fórst það alt af sæmilega úr hendi og áreiðanlega betur en raun hefir orðið á tvö síðustu árin. Að vísu urðu stundum snarpar umræður um einstaka menn, hjer á þinginu, og það þótti sumum óviðkunnanlegt, og því var þessi tilraun gerð. Nú hefir reynslan sýnt, að þessi nefnd hefir ekki verið vaxin þessum vanda, sem henni var á hendur falinn. Vera má, að öðru máli verði að gegna, þegar þau fjelög eru komin á fót, sem háttv. framsm. (B. J.) drap á, en nú verður einungis gert við því, sem er, en ekki hinu, sem ekki á sjer stað.

Mjer heyrðist á háttv. framsm. (B. J.), að hann væri ekki fyllilega ánægður með störf nefndarinnar, og er það ekki nema að vonum. Þessi nefnd vildi sem sje síðast láta búta þennan 10 þús. kr. styrk niður til 15 manna. Af þessum 15 eru nokkrir lítt þektir og aðrir alveg óþektir. Jeg hefi nú altaf verið þeirrar skoðunar, að þessi styrkur ætti ekki að vera nein ölmusa. Það ætti að veita hann þeim mönnum, sem styrksins eru vel verðugir, og veita þá nokkuð ríflega upphæð. Og því meiri styrk, sem mennirnir ljetu meira gott frá sjer fara. Þess vegna vildi jeg láta hækka styrkinn til þeirra manna, sem skara fram úr í þessu efni og eiga því skilið að njóta hans. Til dæmis vildi jeg, að Einar Hjörleifsson fengi hærri styrk en hann hefir áður haft. En í staðinn. fyrir að taka upp þessa sjálfsögðu reglu þá leggur nefndin til að búta styrkinn í smátt til ýmsra, að mínum dómi alveg óverðugra, manna. Og þá er styrkurinn ekki orðinn verðlaunafje, heldur óverðug ölmusa. Þessi braut, sem nefndin hefir gengið inn á, er líka hættuleg að því leyti, að hún getur leitt til þess, að allir mögulegir og ómögulegir menn fari að yrkja, til þess að fá styrk úr landssjóði. Jeg vildi því fastlega mæla með því, að stjórninni yrði falið að úthluta þessu fje. En vitanlega ætlast jeg þá til, að styrknum verði ekki útbýtt á þennan hátt, sem verið hefir nú í tvö skifti, heldur hækkað við þá, sem verðugastir eru og hlotið hafa almenna viðurkenningu. Jeg lít sem sje svo á, að þessi styrkur eigi að vera heiðursstyrkur, en engin ölmusa. Jeg verð því að halda því fast fram, að athugasemdin aftan við liðinn falli burt. Að öðru leyti tel jeg líka sjálfsagt, að stjórnin beri ábyrgð á því, hvernig með landsfje er farið, svo að þingið eigi aðganginn að henni, ef eitthvað fer í ólagi, en ekki ábyrgðarlaus nefnd, sem þingið hefir ekkert vald yfir. Tillaga um þetta sama efni kom fram á þinginu 1915, frá háttv. samþingismanni mínum (E. A.), en náði þá ekki fram að ganga. En nú vona jeg, að þessi till. komist fram.

Áður en jeg sest niður vildi jeg einungis drepa á 130. liðinn á atkvæðaskránni, um hús Einars Jónssonar myndhöggvara. Á þinginu 1914 var rætt um það, hvort taka skyldi boði þessa manns um að gefa landinu listaverk sín. Þá var gerð fyrirspurn um það, hvað myndi kosta að byggja yfir listaverkin. Háttv. núverandi frsm. fjárlaganna (B. J.) upplýsti það þá, að það myndi kosta svo sem 4—600 kr. Nú er þessi upphæð komin upp í 40—60 þús. kr., eða með öðrum orðum, upphæðin er nú orðin jafnmargir tugir þúsunda eins og hundruðin voru áður. Jeg get þessa að eins til að sýna, að ekki eru allar áætlanir öruggar.

Áður en jeg sest niður vildi jeg segja fáein orð um 3 aðrar till. en mínar.

Það er þá fyrst tillaga háttv. fjárveitinganefndar um styrk og lán handa Davíð bónda Stefánssyni í Fornahvammi í Norðurárdal, til þess að reisa gistihús á jörð sinni. Jeg vildi mæla með þessari tillögu. Þessi bær stendur uppi undir heiði, og er því alveg nauðsynlegt ferðamönnum, að þarna sje sæmilegur gistingarstaður. Ef maðurinn færi frá jörðinni, þá yrði hún seld sem afrjettarland, og yrði það til stórtjóns fyrir alla umferð milli Suður- og Norðurlands.

Sömuleiðis vil jeg mæla með því, að Jón Jónsson, háskólakennari, fái 5000 kr. styrk fyrra árið, til þess að fara utan og rannsaka útlend skjalasöfn. Jeg er ekki í nokkrum vafa um, að mjög mikils má vænta af þessum manni og rannsóknum hans.

Sama er að segja um styrkinn til þess að halda uppi alþýðufyrirlestrum. Stúdentafjelagið á miklar þakkir skilið fyrir, að það hefir haldið uppi þessum fyrirlestrum, og enginn telur það eftir, að styrkurinn til þess verði aukinn.

Jeg skal svo ekki orðlengja frekar um þetta að sinni, en mun láta það í ljós með atkvæði mínu, hvernig jeg lít á einstakar tillögur, sem jeg hefi ekki nefnt.