24.08.1917
Neðri deild: 42. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 241 í B-deild Alþingistíðinda. (51)

1. mál, fjárlög 1918 og 1919

Einar Jónsson:

Jeg hafði ætlað mjer að minnast á nokkur atriði fjárlaganna, sem jeg er fylgjandi, en sleppa flestu því, sem jeg er á móti eða stendur á sama um.

Jeg finn ástæðu til að finna að við framsm. þessa kafla fjárlaganna (B. J.). Það er ekki af því, að hann sje leiðinlegur, heldur af hinu, að hann er oft þreytandi langorður. Háttv. framsm. fyrri kaflans (M. P.) sagði það, sem honum bar að segja, á helmingi skemmri tíma en framsm. þessa kafla (B. J.), og var greinargerð hans þó engu óskilmerkilegri. Annað var það og, sem mjer líkaði ver hjá honum en hjá háttv. framsm. fyrri kaflans (M. P.). Háttv. framsm. (B. J.) byrjaði á því að álasa mönnum fyrir að hafa greitt atkvæði um fyrri kaflann í hugsunarleysi eða af vanþekkingu. Þetta á ekki við, þótt menn sjeu ósamþykkir í atkvæðagreiðslu. Hver hefir sína sannfæringu, og er engin ástæða til að kenna um fávisku, þótt ekki sjeu allir á sama máli og háttv. þm. Dala. (B. J.).

Jeg skal nú fara fljótt yfir sögu.

Fyrst verður fyrir mjer liður 109 á atkvæðaskránni. Þar er ekki eingöngu farið fram á hækkun á kaupi, heldur og stofnun nýs embættis. Jeg felli mig ekki við slíkar ráðstafanir á þessum tímum, einkum þar sem mestar líkar eru til, að skólahald falli niður að vetri. Eftir athugasemdinni, sem fylgir þessum lið, að dæma, ætti enginn skaði að vera skeður, þótt beðið væri með að stofna þetta embætti.

Þá er 114. liður, um kenslukaup yfirsetukvenna; í stað 300 króna skuli koma 900. Minna má nú gagn gera. Svona stórkostleg dýrtíðaruppbót hefir ekki verið samþykt áður hjer í þinginu til nokkurs manns. Hjá efnuðu fólki fá yfirsetukonur starf sitt oft betur borgað en þær eiga skilið, og þótt þær sjeu tilhliðrunarsamar við fátæklinga, þá jafnar þetta sig. (M. P.: Þetta á að vera fyrir kenslu). Jeg læt mjer á sama standa. Aðalstarf þeirra mun vera að hjálpa konum, sem standa í barneignum (Hlátur). Þetta mun deildarmönnum ekki hafa dottið í hug, að þær ættu að gera. Þær hafa hærri daglaun fyrir starf sitt en margir aðrir starfsmenn þjóðarinnar. Þetta er aumi liðurinn, og er jeg á móti honum.

Nú kem jeg að 127. lið. Þá býst jeg við, að hv. þm. Dala. (B. J.) vilji hlusta á mig. Það er sem sje brtt. nefndarinnar um, að skálda- og listamannastyrkurinn verði 16,000 kr. í stað 12,000, eins og er í frv. stjórnarinnar. Önnur brtt. er við þennan lið um að færa styrkinn niður í 10,000 kr. Þeirri tillögu er jeg ekki meðmæltur. Fyrri tillögunni ætla jeg mjer að fylgja, en að eins með því skilyrði, að öllum skáldum og listamönnum verði þá ætlaður styrkur af því fje, en ekki dembt inn í fjárlögin einhversstaðar og einhversstaðar. Jeg skal ekki leyna því, að jeg á hjer beint við hv. þm. Dala. (B. J.). Við 3. umr. ætla jeg mjer að koma fram með brtt. um, að styrkurinn til hans til að þýða »Faust« verði alstrikaður út úr fjárlögunum, en hv. þm. Dala. (B. J.) verði svo ætlaður styrkur af því fje, sem alls er veitt skáldum og listamönnum, ef vert þykir.

Þá er 131. liður, um styrk til Sigfúsar Blöndals. Jeg hefi enga áætlun sjeð um, hvort sjálfsagt er að veita þennan styrk. En óvarlegt er að samþykkja það án þess. Jeg hygg, að þetta muni vera eitt af því, sem vel getur beðið seinni og betri tíma.

Þá er 133. liður. Þar eru Helga Jónssyni ætlaðar 3000 kr. til rannsókna á næringargildi þörunga. Í fjárlögunum eru honum ætlaðar 1800 kr. Jeg vil geta þess, að það er ekki tilgangur minn að móðga háttv. þm. Dala. (B. J.), því að hjer er um bróður hans að ræða. Jeg hefi engar áætlanir sjeð um, að hvaða gagni þetta mætti verða. Miklu hyggilegra væri að veita honum styrk eftir reikningi, sem hann sýni, að starfinu loknu. Það er venjulegt, að þegar ákveðin upphæð er veitt í einhverju skyni, þá er henni eytt allri, hvort sem fjárins þarf með eða ekki. Og þá væri Helga Jónssyni illa í ætt skotið, ef hann slæi hendinni móti peningum, þótt hann þyrfti þeirra ekki nauðsynlega með, eða ynni ekki fyrir þeim til gagns. Jeg er ekki á móti því, að honum sje veitt sú upphæð, sem er í fjárlögunum, en því verð jeg að leggjast á móti, að hún verði hækkuð fram yfir það, sem sanngjarnt er. Starf hans hefir ekki komið að svo miklu gagni það sem af er, svo að kunnugt sje.

Helga Pjetursson verð jeg að setja á bekk með nafna hans. Jeg verð því á sama hátt og jeg hefi fyr farið fram á, á móti því, að styrkurinn til hans verði hækkaður upp úr því, sem stjórnin hefir ætlast til. Mjer virðast menn að eins vera að því í gustukaskyni. En ef út á þá braut á að fara, er hætt við, að gustukamennirnir yrðu svo margir, að ekki yrði við ráðið.

Jeg bið menn að fyrirgefa mjer, þótt jeg fari fljótt yfir sögu, og þarf jeg þó naumast fyrirgefningar fyrir það, því að hætt er við, að menn verði búnir að fá meira en nóg af löngum ræðum, áður en umræðunni lýkur.

Liður 135 er brtt. frá mjer um styrkinn til Páls Þorkelssonar. Nefndin hefir ætlað honum 800 kr., en fram kom brtt. um að hann fengi 1200 kr. Jeg gat ekki felt mig við lægri upphæðina, en bjóst við, að fleiri myndu fylgja hinni hærri, og kom því með þessa miðlunartillögu. Hins vegar tel jeg sjálfsagt, að einhver tillagan sje samþykt, því að hjer er um valinkunnan sóma- og fræðimann að ræða.

Síðast skal jeg þá nefna lið 151, tillagið til stórstúkunnar. Fjárveitinganefnd vill, að liðurinn falli burt. Þessari till. nefndarinnar er jeg algerlega samþykkur, og færi henni hjer með alúðarþakkir mínar. Hæstv. fjármálaráðherra (B. K.) var að segja frá því, að ýmsir menn hafi í vetur »önglað« saman aurum, til að koma í veg fyrir bannlagabrot, en jeg hefi fulla ástæðu til að halda, að þessu tillagi sje ekki »önglað« saman í þeim tilgangi, heldur sje það ætlað til þess að borga skuldir, sem templarar hafa í ómensku sinni stofnað til, enda má hitt segja, að þeir, sem hafa af frjálsum vilja lagt fram fje til þess að finna brot á bannlögum, eigi alls ekki að fá það endurgreitt úr landssjóði. Þeir hafa enga ósk fengið frá stjórn eða þingi til slíkra afskifta, og engum unnið gagn með þeim æsingi. Annars skal jeg geta þess í þessu sambandi, að fyrst að innflutningur á víni er bannaður, þá væri full ástæða til að leyfa eða fyrirskipa útflutning á Goodtemplurum. Fyrst að vínið er rekið úr landi, er ekkert við þá að gera hjer, og mætti vel veita stórfje til að flytja þá þangað sem einhver þörf er fyrir þá, en í bannlandi nær engri átt að veita fje í fjárlögum til slíkra afnámsgripa.

Að öðru leyti mun jeg sýna með atkvæði mínu afstöðu mína til einstakra mála.