01.08.1917
Neðri deild: 22. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 996 í B-deild Alþingistíðinda. (521)

22. mál, vörutollur

Frsm (Gísli Sveinsson):

Eins og nefndarálit fjárhagsnefndar á þgskj. 228 ber með sjer ræður hún til, að frv. nái fram að ganga, og hún telur sjálfsagt, að það hefði náð fram að ganga hve nær sem það hefði komið fram, og það án tillits til þess, hverja skoðun menn annars hafa um þessi lög, vörutollslögin. Það má vera öllum vitanlegt, að nú á þessum tímum dugir ekki að rýra tekjur landssjóðs, því að ekki er útlit fyrir mikinn tekjuauka á þessu þingi, og síst er til framkvæmda geti komið bráðlega. Þessi tollur er líka svo hár, gefur svo miklar tekjur, að ekki virðist ráðlegt að ráðast í þær breytingar á honum, er geta rýrt tekjurnar. Og þótt menn skiftist í flokka um það, hvort betra væri að haga slíkum toll á þann veg, er vörutollslögin gera ráð fyrir, eða, eins og ýmsar raddir hafa heyrst um, breyta honum í verðtoll, þá virðist ekki nú heppilegur tími til að breyta honum á slíkan veg. Eins og nú stendur, í dýrtíðinni, er víst, að verðtollur væri ekki hentugri eða rjettlátari en vörutollur. Meðan dýrtíð stendur og okurverð er á öllum vörum, verður hundraðsgjald eða verðgjald öllu ranglátari og tilfinnanlegra en þungagjald.

Nefndinni þótti rjett, að það ákvæði hjeldist, sem undanfarin þing hafa ávalt sett inn í lögin, að þau skuli gilda út fjárhagstímabilið næsta. Skoðanir þm. eru mjög skiftar um þessi lög. Margir hafa hug á að gera á þeim gagngerðar breytingar, þegar tími vinst til, og sumir vilja jafnvel afnema þau með öllu. Því þykir oss rjett, að gildi laganna sje bundið við fjárhagstímabilið.

Að vísu er það rjett, sem hæstv. fjármálaráðh. (B. K.) hefir haldið fram, að alt af megi breyta lögunum eða afnema þau, þótt gildi þeirra sje ekki bundið við neinn ákveðinn tíma. En hins vegar ber að líta á það, að þetta hefir verið venja undanfarinna þinga, að framlengja lögin að eins á þennan veg, og það má ganga út frá því, að hugir manna sjeu hinir sömu nú. Þótt nefndin hafi lagt til, að frv. þetta yrði samþykt, þá er alls ekki með því neitt látið uppi um það, hverja skoðun hún hafi á tollmálum yfirleitt. Að eins sjer nefndin ekki fært að afnema vörutollinn, eins og nú standa sakir. Jeg finn ekki ástæðu til að fara fleirum orðum um frv., en tel sjálfsagt, að það nái fram að ganga.