01.08.1917
Neðri deild: 22. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 998 í B-deild Alþingistíðinda. (522)

22. mál, vörutollur

Fjármálaráðherra (B. K.):

Jeg er háttv. nefnd þakklátur fyrir það, að hún vill láta frumvarpið ná fram að ganga. Landssjóður má ekki við því að missa svona mikilvægan tekjulið; mætti ekki við því, þótt hann væri minni. Eina breytingu hefir nefndin gert, og sje jeg enga ástæðu til að gera neina aths. við það. Það stendur á sama, hvort lögin gilda um ákveðinn tíma eða ekki, því að ekki er mikil fyrirhöfn að framlengja þau, þegar þar að kemur. Hins vegar álít jeg fyrir mitt leyti óþarft að hafa þetta ákvæði svona, því að jafnvandalítið er að afnema lögin eða breyta þeim, þótt eigi sje gildi þeirra bundið við ákveðinn tíma.

En það var eitt atriði í ræðu háttv. frsm. (G. Sv.), sem jeg vil nota tækifærið til að fara nokkrum orðum um. Það er það, að frv. þetta hafi komið nokkuð seint fyrir þingið. Jeg hefi því meiri ástæðu til að bera fram afsökun mína í þessu efni, sem áður hafa verið gefin tilefni til þess við umræður hjer í deildinni.

Eins og mönnum er kunnugt um þá hafa engar fastar áætlunarferðir verið milli Íslands og Danmerkur síðan þingi var slitið í vetur. Þegar forsætisráðherra fór utan síðast, bar þá ferð svo bráðan að, að ómögulegt var að afgreiða öll frv., er fyrir þingið áttu að koma. Það var rjett með herkjumunum, að skrifstofan, sem jeg hefi yfir að segja, gat flaustrað af fjáraukalögunum fyrir 1916—17. Tíminn leyfði ekki meira. Stjórnin hafði talað sig saman um það, hvernig haga skyldi uppburði stjórnarfrumvarpanna, og orðið ásátt um, að ekki væri ástæða til að rembast við að láta þau öll vera tilbúin í þingbyrjun. Þessi stjórn, sem nú situr í valdasessi, hafði í svo mörg horn að líta þennan stutta tíma, sem hún var búin að sitja við stýrið áður en þing kom saman, að tíminn varð mjög takmarkaður til að undirbúa þingmálin. Það voru því fleiri frv. en þetta, sem hjer liggur fyrir, sem þurfti síðar að síma til konungs. En það drógst með þetta frv. þangað til 10. júlí, — ekki var nú lengra liðið af þingtímanum en það, þegar frv. var símað út — og 12. júlí var svarið sent frá Kaupmannahöfn. En svarið kom ekki hingað fyr en 21. júlí. Stjórnin á því enga sök á því, að drátturinn varð svona langur. Þetta geta menn sannfærst um að er satt, með því að líta á símskeytið sjálft í stjórnarráðinu. Þingið má jafnvel búast við, að stjórnarfrv. eigi eftir að koma fram enn. Það segir sig sjálft, að þetta getur altaf komið fyrir, að stjórnin leggi fram frv. eftir að þing er byrjað, og allra síst er ástæða til að finna að því nú, þegar ástandið í heiminum gefur tilefni til nýrra ráðstafana svo að segja daglega.