20.08.1917
Neðri deild: 38. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1004 í B-deild Alþingistíðinda. (538)

153. mál, vitagjald

Frsm. (Þórarinn Jónsson):

Jeg hefi fátt um þetta frv. að segja. Það er komið frá stjórninni og fer fram á ofurlitla hækkun á vitagjaldinu, vitanlega í þeim tilgangi að auka tekjur landssjóðs, með því líka að vitagjald er lægra hjer á landi en annarsstaðar, og allur kostnaður við byggingu og starfrækslu vitanna orðinn dýrari en áður.

Það er ekki gott að segja um það, hve miklu þessi tekjuauki muni nema, en ekki er útlit fyrir, að hann verði mikill fyrst um sinn. Eftir þeim tekjum, sem orðið hafa fyrri helming þessa árs af vitagjaldinu, þá er mjög vafasamt, að það nái þeirri upphæð, sem stjórnin hefir áætlað, enda þótt hækkun þessi verði samþ.

En nefndin telur, að frv. gangi í rjetta átt, og leggur því til, að það verði samþ.