24.08.1917
Neðri deild: 42. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 252 í B-deild Alþingistíðinda. (54)

1. mál, fjárlög 1918 og 1919

Atvinnumálaráðherra (S. J):

Háttv. 2. þm. Árn. (E. A.) spurðist fyrir um það, hvort stjórnin mundi heldur kjósa, að haldið væri athugasemdinni við liðinn um styrkinn til skálda og listamanna, eða hún feld niður.

Því miður er hæstv. forsætisráðherra ekki viðstaddur, en þetta mál heyrir einkum undir hann. Verð jeg því að taka að mjer að svara fyrirspurninni fyrir stjórnarinnar hönd.

Jeg hygg, að rjettara sje, að aths sje haldið, og að nefnd sú, sem um er talað í henni, geri tillögur til stjórnarinnar um úthlutun styrksins. Það má gera ráð fyrir, að í hana verði þeir einir valdir, er gott skyn bera á listir og skáldskap. Aftur á móti er landsstjórnin ekki valin með það sjerstaklega fyrir augum, og því undir hælinn lagt, hve hæf hún er til þess að úthluta styrk þessum maklega. Stjórnin mundi hvort sem er verða að leita aðstoðar annara, og er ekki víst, að hún yrði eins heppin í valinu eins og ef fylgt er ákvæðum þeim, er þingið setur. (S. S.: Þetta er vantraust á stjórninni). Jeg tel mjer það enga vanvirðu að kannast við, að aðrir kunni að finnast mjer fremri í því að meta rjett skáldskap og listir. Og ekki tel jeg það líklegt, þótt það yrði einhvern tíma hlutskifti háttv. 1. þm. Árn. (S. S.) að úthluta styrk þessum, að honum mundi farast það betur en nefnd sjerfróðra manna, því að ekki hefi jeg heyrt, að háttv. þm.

(S. S.) hafi lagt mikla stund á þessar greinar. Tel jeg líklegra, að úthlutunin verði nær vilja þingsins, ef nefnd ræður henni, en ef stjórnin hefir hana með höndum; að minsta kosti er það eðlilegt, að svo færi.