25.08.1917
Efri deild: 39. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1007 í B-deild Alþingistíðinda. (547)

153. mál, vitagjald

Magnús Kristjánsson:

Það er í raun og veru rjett, sem háttv. þm. Ísaf. (M. T.) tók fram, að það kostar meira nú að reisa vita en áður fyr. En jeg hygg, að hækkun sú á vitagjaldinu, sem í frv. er ákveðin, samsvari fullkomlega auknum kostnaði við rekstur vitanna. (M. T.: Nei). En um það þýðir víst lítið að þrátta.

Það mun víst koma oft fyrir, að skip, sem sigla til landsins, sjái engan vita. Það er því varhugavert, eins fáa vita og við eigum enn þá, að sprengja vitagjaldið fram úr öllu hófi, svo að það verði hærra en annarsstaðar, þar sem vitar eru miklu fullkomnari. Ekki veit jeg, hversu rjettlátt það er, að við tökum skatt af öðrum fyrir sólarljósið. Geri ráð fyrir, að þeir menn, sem fyrir því kynnu að verða, þættust ef til vill eiga nokkurt tilkall til þess, eins og við.