24.08.1917
Neðri deild: 42. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 253 í B-deild Alþingistíðinda. (55)

1. mál, fjárlög 1918 og 1919

Gísli Sveinsson :

Það hefir heyrst á sumum háttv. þingdm. og hæstv. forsætisráðherra, að fjárveitinganefndin hafi í tillögum sínum orðið helst til ör á landsfje, og henni það jafnvel til ámælis fundið af nokkrum, sem talað hafa. Mig furðar eigi á þessu, því að engin mun sú fjárlaganefnd enn hafa starfað, að henni hafi eigi verið borið á brýn, að hún hafi að einhverju leyti verið um of örlát, og það þótt meiri afturhaldsandi hafi ríkt hjá nefndinni en hjá þessari nefnd ríkir eða getur ríkt. Jeg fyrir mitt leyti sje þó eigi, að nefndin hafi að þessu sinni farið svo gálauslega með landsfje, að orð sje á gerandi. Jeg sje ekki betur en að hún hafi fylgt þeirri hyggilegu stefnu, er hún tók sjer þegar í upphafi, og þegar hefir verið að miklu leyti samþykt af þorra háttv. þingdm. við atkvæðagreiðsluna um fyrri kafla fjárlaganna, þeirri stefnu, að taka í hvívetna tillit til ástandsins, sem nú er. Þeir hafa eigi talið rjett að skera alt við neglur, þótt fyrirsjáanlegt sje, að landssjóður muni komast í nokkra fjárþröng. Hún hefir sjeð, að óhjákvæmilegt er að hækka ýmsar fjárveitingar, sökum þess, hversu mjög flest eða alt hefir hækkað í verði, og henni hefir fundist, að það mundi ekki bæta neitt fjárhag landsins að vera að reyna að fara í feluleik með það.

Það má ef til vill finna háttv. nefnd það til foráttu, að hún hefir bætt við tillögur stjórnarinnar nýjum fjárveitingum. En þetta nýja er fremur lítilfjörlegt, því að jeg tel það ekki nýtt, þótt háttv. nefnd hafi hækkað einstaka lið frá því, sem var í frv. stjórnarinnar, sökum ástandsins nú. Það hefði beinlínis verið hneykslanlegt, ef hún hefði ekki gert það. En nýtt tel jeg það eitt, sem eigi hefir áður verið veitt fje til í fjárlögum, eða eigi stendur í fjárlagafrv. stjórnarinnar. Ef háttv. þingdm. vildu vinsa þetta nýja úr, mundu þeir komast að þeirri niðurstöðu, að það er ekki mikið, og varla ómaksins vert að reikna það út og telja það eftir.

Það getur náttúrlega verið sumt, sem ekki er öllum jafnljóst, að hverju miðar, en eftir að hafa heyrt þær skýringar, sem háttv. fjárveitinganefnd hefir gefið, get jeg ekki annað skilið en að allir viðurkenni, að breytingar þær, er nefndin fer fram á, eru sjálfsagðar og sanngjarnar, og mætti mikið vera, ef alt færi aftur á bak fyrir þá sök, að þær yrðu samþyktar. Það skyldi þá vera, að einhverjir háttv. þm. álitu, að þessar nýju fjárveitingar, ef þær ná fram að ganga, yrðu þess valdandi, að landinu hlektist á eða að það færi fjármunalega á höfuðið vegna þeirra. Nú vita það allir, að þótt dregið væri úr útgjöldunum sem svaraði nokkrum hundruðum eða þúsundum króna, þá hefði það enga verulega þýðingu, þegar litið er á fjárhaginn, því að það vita allir, að landið hlýtur að verða í skuld við lok fjárhagstímabilsins, og nú verður að gera ráðstafanir til að taka lán, sem verður að falla yfir á framtíðina, því að það er ekki nema sjálfsagt, að eftirkomendurnir beri að nokkru leyti þær byrðar, sem falla á þjóðina að ófyrirsynju nú, og vonandi kemur ekki aftur fyrir.

Jeg skal þá minnast á tvær lítilfjörlegar brtt., sem jeg á við fjárlögin, þennan kafla þeirra.

Fyrst er lítil brtt., sem er 135. liður á atkvæðaskránni, sem sje að hækka styrk þann, er fjárveitinganefnd hefir ætlað Páli Þorkelssyni, úr 800 kr. upp í 1200 kr. Það er nokkurn veginn óþarft að skýra frá, hvernig á þessu stendur, því að öllum er kunnugt, að Páll Þorkelsson, sem er einstakur gáfu- og fróðleiksmaður, hefir allan sinn aldur, og nú er hann að færast á efri ár, unnið fyrir sjer með handiðn sinni, en lagt í hjáverkum sínum stund á vísindi, einkum málfræði, svo að enginn óskólagenginn maður hjer á landi stendur honum þar á sporði, og jafnvel ekki margir þeir, er skólagengnir eru.

Maðurinn er óskólagenginn, eins og komist er að orði, en jeg skil ekki hvernig honum verði fundið það til foráttu hjá háttv. þingi, sem að meiri hluta mun óskólagengið, og ekki tel jeg það nein lýti. Hann skarar langt fram úr fjölda skólagenginna manna og hefir látið það á sjá, því að hann hefir gefið út bæði orðabækur og aðrar málfræðibækur, og þá ástundað þá fræðigrein þannig, að hann er orðinn kunnur fyrir, ekki einungis innanlands, heldur, og það ekki síður, erlendis. Nú er það kunnugt, að þótt einstakir menn leggi stund á vísindagreinar, þá græða þeir að jafnaði ekki fje á því, heldur miklu fremur tapa, en það er víst, að þessi maður hefði getað verið orðinn efnaður maður af hagleik sínum, ef fýsn hans til fróðleiks hefði ekki orðið öðrum hvötum hans yfirsterkari.

Þessi maður hefir nú farið þess á leit, að Alþingi Íslendinga sýndi honum einhvern sóma fyrir það verk og þá sæmd, sem hann vafalaust hefir unnið þjóðinni, með því að gera hana kunna á lofsverðan hátt, og að sú viðurkenning, er hann á þennan hátt fengi, gerir honum áreiðanlega mögulegt að vinna enn meira í þessa átt. Mjer þykir nú hálfkynlegt, úr því að háttv. fjárveitinganefnd ræðst í að launa þessum manni í eitt skifti fyrir öll, að hún þá skuli ætla honum einar 800 kr. Það getur ekki heitið mikið, en mjer finst það einskært sómamál, að styrkur þessi sje alls ekki minni en brtt. mín fer fram á; mjer finst það sómamál, segi jeg, að hann fái að launum ekki minni upphæð en þessa, svo að hann geti komið í verk merkilegu safni, sem hann er að vinna að, en það er safn yfir alla málsháttu og orðskviðu í íslensku, þá er finnast í bókmáli, alþýðumáli og fræðimáli, og þýðing þeirra á erlend mál, ekki orði til orðs, heldur með hliðstæðum málsháttum á öðrum málum. Mjer vitanlega er þetta einstætt í bókmentum heimsins, að gefið hafi verið út safn yfir málsháttu í ýmsum málum, hliðstæða að uppruna eða af svipuðum menningartoga spunna og sömu eða líkrar merkingar. Það er engum vafa undir orpið, að þetta er mjög merkilegt verk og alveg sjerstakt í sinni röð. Jeg sje, að hjer er að vísu komin fram önnur brtt., sem vafalaust er af góðum hug gerð. Hún er þess efnis, að ef mönnum skyldi þykja altof há þessi upphæð, sem jeg hefi farið fram á, þá verði þó þessi styrkur ekki látinn fara niður úr 1000 kr. Það lítur út fyrir, að fjárveitinganefnd ætlist til, að þessi upphæð verði að eins veitt í þetta eina skifti fyrir öll, svo að jeg þykist ekki þurfa að mæla meira með henni.

Hin brtt. mín er allóskylds efnis. Hún er 167 á atkvæðaskránni og hljóðar um, að veittar verði 600 kr. hvort árið til alþýðufyrirlestra dýralækna úti um hjeruðin, um helstu alidýrasjúkdóma. Rökin til þessarar brtt. eru þau, að jeg og nokkrir aðrir þingmenn ætluðum að koma með frv. um breytingu á lögum um dýralækna frá 3. nóv. 1915. Í þeim lögum er ákveðið, að dýralæknar skuli vera 4, 1 fyrir hvern landsfjórðung; að vísu eru þeir enn ekki nema 3, en verða vafalaust 4 með tímanum. Með þessu er nú nokkur bót ráðin á dýralæknaskortinum, en þó hvergi nærri fullnægjandi, því að í flestum hjeruðum landsins hagar svo til, að engin tök eru á að sækja dýralækni til að ráða bót á slysum eða lækna kvilla í skepnum manna. Það er að eins í þeim hjeruðum, sem næst eru dýralækninum, eða þegar um svo langæa kvilla er að ræða, að þeir haldist lengi án þess að skepnan drepist, að dýralæknarnir koma að nokkru haldi. Mörgum hefir komið til hugar, hvort eigi væri mögulegt að stofna til námsskeiða nálægt dýralæknissetrunum, sem menn gætu sótt til hvaðanæfa og lært að þekkja þá allra algengustu húsdýrakvilla og ganga frá, er slys eða meiðsl ber að höndum. Jeg er þeirrar skoðunar, að þetta gæti verið til bóta, því að upp um sveitir hafa oft verið til lagnir menn, sem hafa getað hjálpað skepnum án þess að hafa nokkurn tíma öðlast fræðilega þekkingu í þeim efnum, Enn fremur væri mörgum búfræðingum kærkomin slík frekari fræðsla. Þetta er um leið hagsmunaatriði fyrir allan almenning. Við höfðum borið þetta undir dýralækninn hjerna, en hann hafði ákveðið að vera á móti því, taldi það mundu að eins verða til þess, að upp risu lítt nýtir »skottulæknar« út um sveitir og benti okkur á þessa leið, er jeg nú hefi nefnda. Hann benti enn fremur á, að bráðlega kæmi út bók um helstu alidýrasjúkdóma, og væri þá gott fyrir búendur að hlusta á fyrirlestra til frekari fróðleiks í þessari grein. Enda þótt jeg sje nú ekki að öllu samdóma dýralækninum, sendi jeg þó fjárveitinganefnd ósk um, að hún tæki upp í fjárlög einhvern lítinn styrk til þessa, og kom mjer það mjög á óvart, er nefndin sinti því ekki. Jeg hefi nú leyft mjer að koma með þessa brtt. og fer að eins fram á 600 kr., því að jeg hygg, að 200 kr. til hvers af dýralæknunum væri nægilegt til hverrar ferðar. Þeir ættu svo að geta ferðast um landið alt fyrir áframhaldandi lítilfjörlegan styrk. Mjer kæmi það mjög á óvart, ef búendur eða fulltrúar þeirra, er hjer sitja á þingi, gætu ekki fallist á þetta. En þótt það verði felt nú, kemur það aftur æ og æ, þar til er það verður samþykt, því að það er ómetanlegur skaði, sem þekkingarleysi manna í þessu efni getur valdið.

Fleiri brtt. á jeg ekki, en áður en jeg sest, vil jeg þó minnast á fá einstök atriði. Það er þá fyrst brtt. 116 á atkvæðaskrá, sem fer fram á, að breytt verði fyrirkomulaginu með einn af starfsmönnum Landsbókasafnsins. Það vita allir hjer, að veittar eru 2400 kr. úr landssjóði til verks, er þessi maður hefir nú á hendi, en það er að skrásetja handritasafnið og semja spjaldskrá. Nú vill nefndin leiðrjetta það, sem áður hefir rangt verið, og tel jeg hana fara þar alveg rjetta leið, sem sje að setja það fast, að maður þessi fái laun sín, ekki eins og verið hefir hjá landsbókaverði, heldur beint úr landssjóði. Það mætti nú vera meira en lítil meinbægni, að meina manninum að taka laun sín þar, sem þau eru goldin og þægilegast er fyrir hann, þegar það hefir engin aukaútgjöld í för með sjer fyrir landssjóðinn. Það vita allir hver maðurinn er, að það er einn af allrafærustu starfsmönnum Alþingis, Páll Eggert Ólason, sem er alkunnur afkastamaður og fróðleiksmaður með afbrigðum og hefir mikinn áhuga á þessu verki, og það ætti líka að vera kunnugt, að verk þetta er eitt hið allravandasamasta við safnið, því að þar má engu skeika og á því eiga að byggja fræðimenn, bæði í nútíð og framtíð, að þetta verk sje vel af hendi leyst. Nú vita það þeir, er til þekkja, að hjá þessum manni er verkið nákvæmt og rjett unnið, og að hann stundar starf þetta vel. Það er því ekki nema líklegt, að menn vilja gera honum að litlu hægra fyrir en áður, með því að leyfa honum að taka kaup sitt þar, sem eðlilegast er, að hann taki það, sem sje hjá þeim, er fjeð greiðir í raun rjettri. Jeg kunni því þess vegna illa, að hæstv. forsætisráðherra skyldi einmitt fara að ráðast á þennan lið. Jeg held, að það hljóti að koma til af því, að hann hafi eitthvað viljað út á till. nefndarinnar setja, og dottið þá fyrst niður á þennan lið, af því að hann er hinn fyrsti í 15. gr. Það er fjarri öllum sanni, að það taki því að fara að fjargviðrast út af þessum lið, hversu miklir sparnaðar- og afturhaldsmenn sem menn eru, og að þeim alveg ólöstuðum, þar sem þessi liður fer ekki fram á neina nýja fjárveitingu.

Jeg vil leyfa mjer að bera fram þakklæti til háttv. fjárveitinganefndar fyrir það að hún hefir orðið við tilmælum þeim, er jeg bar fram fyrir hana, að hækka styrkinn til alþýðufræðslu Stúdentafjelagsins, því það var orðið ómögulegt að fá fyrirlesara fyrir sömu lítilfjörlegu borgunina og að undanförnu. Jeg þarf ekki að mæla frekar með þeim styrk; því hann hefir þegar fengið hina bestu stoð í hv. 1. þm. Árn. (S. S.), eins og vænta mátti.

Næsti liður, sá 149., að hinu íslenska kennarafjelagi verði veittur styrkur til alþýðufræðslu um uppeldismál, líkar mjer vel, meðal annars vegna þess, að lagt er til í 151. lið, að styrkurinn til Stórstúkunnar falli. Jeg hafði gert mjer í hugarlund, að það gæti verið álitamál, hvort ætti að fella þann styrk, þótt nú sje komið áfengisbann hjer í landi. Það mætti ætla það fje til bindindisfræðslu, eftir sem áður, en það skoða jeg sem algert uppeldismál, og því vel til fallið að láta Kennarafjelagið hafa einnig það á hendi. Jeg álít því rjett, að með styrknum til þess fjelags, sem mætti vera ríflegur, yrði styrkurinn til Stórstúkunnar látinn falla.