01.09.1917
Efri deild: 45. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1008 í B-deild Alþingistíðinda. (550)

153. mál, vitagjald

Frsm. (Halldór Steinsson):

Eins og háttv. þingdm. er kunnugt hefir fjárhagsnefnd haft mál þetta til athugunar, og hefir henni komið saman um að leggja það til, að frv. verði samþykt óbreytt, eins og það kom frá háttv. Nd. Eins og sjest á nefndarálitinu þá hefir nefndinni ekki dulist það, að vitagjaldið, sem nú er ákveðið, er helst til lágt, og skal jeg reyna að sanna það með örfáum orðum.

Fyrsti vitinn, sem reistur var á Íslandi, var Reykjanessvitinn; það var árið 1878. Sama ár voru afgreidd lög um það, að vitagjaldið skyldi vera 40 aurar á smálest af hverju skipi, sem hafnaði sig milli Reykjaness og Snæfellsness, en 20 aurar á smálest af þeim skipum, er höfnuðu sig milli Snæfellsness og Horns. Næsta ár var gjaldið fært niður í 20 aura af skipum, er kæmu milli Reykjaness og Öndverðaness, en 15 aurar af skipum, er höfnuðu sig annarsstaðar á landinu.

Nú liðu svo rúm 30 ár, að engu var breytt, en á þinginu 1911 var gjald þetta ákveðið 20 aurar fyrir öll skip, sem að landi kæmu, hvar sem það væri. Þá hafa skipin orðið að gjalda sama vitagjald fyrir 30 vita og þau guldu fyrir tvo árið 1880; þá voru ekki komnir nema Reykjaness- og Gróttuvitinn.

Allir sjá, að ekkert samræmi er í þessu; gjaldið hefði auðvitað átt að hækka eftir því, sem vitunum fjölgaði, Og þótt nú svo væri, að það hefði verið fullhátt fyrst, þá er það þó oflágt nú, þegar vitunum hefir fjölgað svo mjög.

Á þinginu 1913 var sú breyting ger, að gjaldið skyldi hækka úr 20 aurum upp í 25 aura. Voru vitarnir þá orðnir 37, og ef 25 aura gjald var þá sanngjarnt, ætti 35 aura gjald nú engu síður að vera það, þar sem nú eru fullbygðir 47 vitar, því að auðvitað mælir öll sanngirni með því, að gjaldið hækki eftir því, sem vitunum fjölgar. Nú er hagur landssjóðs ekki svo, að hægt sje að fullgera alt vitakerfi landsins á fáum árum, en, eins og kunnugt er, liggur nú fyrir þinginu frv., þar sem teknir eru upp þeir vitar, er vitamálastjóri telur að nauðsynlegir sjeu og nægja muni landinu, en ómögulegt er að segja, hve nær þeir allir verða fullgerðir; það fer eftir hag landssjóðs og ástæðum þjóðarinnar á komandi árum.

En meðan vitakerfið er ekki fullgert, og segja má, að það sje hvorki heilt nje hálft, þá getum við auðvitað ekki verið eins kröfuharðir í þessu efni og aðrar þjóðir, sem hafa fullkomið vitakerfi.

Að öllu samanlögðu virðist það því sanngjarnt, að vitagjaldið verði hækkað um 10 aura, frá því sem nú er, en ekki meira. Vil jeg því leggja það til, að frv. verði samþykt óbreytt, og vil jeg geta þess um leið, að jeg get alls ekki fallist á brtt. háttv. þm. Ísaf. (M. T.), að gjaldið verði hækkað upp í 50 aura. Skal jeg svo ekki fjölyrða frekar um málið að sinni.