01.09.1917
Efri deild: 45. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1014 í B-deild Alþingistíðinda. (556)

153. mál, vitagjald

Atvinnumálaráðherra (S. J.):

Mjer virðist, að tvennskonar skoðanir hafi komið fram hjá háttv. þingdm. um frv. þetta. Í fyrsta lagi sú, að hækkunin eigi að auka tekjur landssjóðs, og í öðru lagi eigi hún að stuðla að því, að vitakerfið komist sem fljótast í gott horf.

Það er vitanlegt, að hækkun vitagjaldsins mundi verða til þess, að vitunum fjölgaði. En jeg álít, þrátt fyrir það, ekki rjett að afráða þessa hækkun nú þegar. Nú er, sem kunnugt er, á ferð frv. í Nd., sem fer í þá átt að skilja fjárhag vitanna frá landssjóði. Þar er gert ráð fyrir, að landssjóður taki lán til þess að koma upp sem fyrst þeim vitum, sem nauðsynlegastir þykja. Og það er auðvitað vitanlegt, að fyr yrði hægt að endurgreiða þetta lán, ef vitagjaldið yrði hækkað. En mjer finst samt tæplega tími til kominn að hækka gjaldið nú, sjerstaklega ef hitt frv. kynni að verða felt í Nd. En þegar það frv. hefir verið samþykt og fjárhagur vitanna er aðgreindur frá landsjóði, er auðveldara að segja, hvað vitarnir þurfa, og þá er nægur tími til að hækka gjaldið. Jafnvel þótt jeg geri ráð fyrir, að vitagjaldið, sem farið er fram á með brtt. á þgskj. 748, verði ekki ofhátt síðar meir, álít jeg samt nægja að samþ. að þessu sinni þá hækkun, sem gert er ráð fyrir í frv. Og þótt það sje ekki skemtilegt að verða að breyta lögum á hverju þingi, þá finst mjer þó sjálfsagt, að þetta ákvæði verði athugað síðar.