04.09.1917
Efri deild: 47. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1019 í B-deild Alþingistíðinda. (562)

153. mál, vitagjald

Magnús Torfason:

Háttv. frsm. (H. St ) vill gera lítið úr þessari brtt. En það verður altaf að dæma hvern hlut eftir því, við hvað miðað er. Þessi 5 aura hækkun er þó á við hálfa hækkun stjórnarinnar. Jeg er þá hálfdrættingur við stjórnina, og mjer þykir engin skömm að því.

Annars skal jeg leyfa mjer að geta þess, í sambandi við 2. umr. þessa máls, að mjer hefir aldrei dottið í hug, að vitagjaldið yrði svo hátt, að það greiddi stofnkostnaðinn. Enda hygg jeg, að jeg geti sagt með sanni, að landið hafi aldrei fengið neina vexti af vitunum, hvað þá heldur endurgreiddan stofnkostnaðinn.

Þessi brtt. á að ýta undir, að vitunum fjölgi sem allra fyrst. En menn hafa ekki gert sjer ljóst, hversu mikilsvert atriði þetta er. Vitarnir eru ekki að eins samgöngubót; þeir bjarga mörgum mannslífum og fækka skipreikum. Fyrst þegar komið er hjer á sæmilegu vitakerfi, má búast við, að hin afarháu sjóvátryggingargjöld lækki. Og spari þeir því skipaeigendum útgjöld. En hækkun vitagjaldsins leggur löggjafarvaldinu þá skuldbindingu á herðar að sinna þessu alvarlega máli betur en gert hefir verið hingað til.

Jeg hygg, að þetta sje nóg til þess að sannfæra hv. deild um nauðsynina á að samþykkja þessa brtt., með því líka að gjaldið er nú svo lágt, að sumir skipstjórar útlendir henda gaman að því, hve lágt það er.