04.09.1917
Efri deild: 47. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1020 í B-deild Alþingistíðinda. (563)

153. mál, vitagjald

0563Magnús Kristjánsson:

Það þýðir lítið að ræða þetta mál. Jeg geri að minsta kosti ráð fyrir, að háttv. þm. Ísaf. (M. T.) vilji tala síðast.

Mjer fanst óþarfi af háttv. þm. (M. T.) að fara að rifja upp minningar frá 2. umr. Jeg hygg, að háttv. þm. hafi þá haft tækifæri til að láta skoðun sína í ljós.

Þessi lítilfjörlega hækkun er svo lítilsverð, að það er óþarfi að eyða mörgum orðum að henni. En jeg fæ hins vegar ekki sjeð, að hún geti haft nokkur áhrif á fjölgun vitanna.

En þar sem háttv. þm. (M. T.) sagði, að vitagjaldið væri mjög lágt, þá hygg jeg, að það sje út í bláinn mælt. Jeg held, að hjer sje vitagjaldið hærra en annarsstaðar. Jeg veit ekki betur en gjaldið sje annarsstaðar 25 aurar og sumsstaðar ekkert, þar sem vitar eru þó í mikla betra ásigkomulagi en hjer. Jeg tek þetta fram til þess að draga úr ummælum háttv. þm. Ísaf. (M. T.) um þetta atriði.

En hitt, sem háttv. þm. Ísaf. (M. T.) sagði, að landið hafi aldrei fengið neina vexti af vitunum og því síður greiddan stofnkostnaðinn, efa jeg að hann hafi rannsakað svo til hlítar, að dómur hans sje á rökum bygður. Enda þótt það væri satt, að lítið hafi á unnist í þessu efni, þá er það eðlilegt, með því að flestir vitarnir eru nýlega gerðir, og því er ekki hægt að búast við, að þeir sjeu farnir að borga sig.

Jeg geng að því vísu, að háttv. deild hviki ekki frá því, sem hún samþ. við 2. umr. málsins.