30.07.1917
Efri deild: 17. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1029 í B-deild Alþingistíðinda. (576)

5. mál, lögræði

Magnús Torfason:

Jeg gæti nú raunar fallið frá orðinu, eftir að hafa heyrt þessa síðustu athugasemd hæstv. forsætisráðherra. Nefndin leit svo á, að ekki væri rjett að gera neinn mun á vinnuhjúum og öðrum, eftir að þau höfðu fengið jafnrjetti á öðrum sviðum. Og ástæða er alls engin til þess í þessu efni, því að yfirfjárráðamaðurinn ræður, hver lögráða maðurinn er, og segir til, hvort hann sje hæfur til þess starfa, er honum er ætlaður með lögum þessum. Annars skal jeg geta þess, að jeg veit dæmi til þess, að merkur maður, ráðsmaður, sem átti töluvert fje og var fjárgæslumaður hinn besti, mátti ekki ráða fyrir barni sínu.

Jeg vil enn fremur leyfa mjer að benda á, að nauðsynlegt verður að fella allar breytingartillögur nefndarinnar eða samþykkja þær allar. En þingmenn ættu að geta komið með sjerstakar breytingartillögur við 3. umr., ef þeim líst svo.