24.08.1917
Neðri deild: 42. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 266 í B-deild Alþingistíðinda. (58)

1. mál, fjárlög 1918 og 1919

Stefán Stefánsson:

Jeg skal ekki þreyta menn á langri ræðu, enda er sennilega ekki til mikils að fara hjer mörgum orðum um mál sín, þar sem svo er orðið þunnskipað á bekkjunum, sem nú er, og er það ekkert undarlegt, þótt menn sjeu orðnir þreyttir eftir svona langa fundarsetu, og allir tala að nokkru leyti um sama efni, styrkbeiðnir og fjárveitingar til ýmsra hluta; um þetta eitt snúast nú ræður manna.

Það eru margir gjaldaliðirnir, sem um mætti tala, en jeg ætla að mestu að halda mjer við einn þeirra, sem sje 150. lið á atkvæðaskránni. Er það brtt. frá okkur þingmönnum Eyfirðinga á þgskj. 571, um að veita barna og unglingakennara Benedikt Þórkelssyni 500 kr. styrk, í eitt skifti fyrir öll. Þetta er nú í 3. sinni, sem jeg flyt erindi þessa gamla manns hjer á þinginu. Þann 15. febrúar n. k. verður hann 68 ára gamall, og ætti þá vel við, að hann fengi þessar 500 kr., að afmælisgjöf. Mundi það gleðja hann mikið, því að fátækur hefir hann verið alla æfi. Þó var það svo um eitt skeið, að hann hafði dregið saman nokkrar krónur, en hjálpaði þá fátækum vini sínum, sem svo gat ekki borgað honum þessa litlu aleigu hans. Barna- og unglingakennari hefir hann verið stöðugt í 30 vetur, og eru nemendur hans rúm 500 að tölu. Öll þessi ár hefir hann unnið fyrir mjög litla borgun, en af sjerstakri alúð og samviskusemi, enda prýðisvel látinn af öllum, sem þekkja hann. Ættaður er hann úr Þingeyjarsýslu, fæddur þar og uppalinn, og er móðurbróðir þeirra Finnbogasona, Guðmundar og Karls.

Jeg býst ekki við, að þingmenn hafi allir tekið eftir því, að Skólablaðið flutti mynd af Benedikt fyrir tveimur árum síðan, og birti um leið helstu æfiatriði hans og kennarahæfileika, eftir einn af nemendum hans, Snorra kennara Sigfússon, sem nú er á Önundarfirði, og tel jeg víst, að ef menn hefðu kynt sjer það, sem þar er um þennan kennara sagt, þá mundu menn ekki hugsa sig tvisvar um, hvernig þeir ættu að greiða atkvæði um þennan lið. Annars er jeg þakklátur háttv. frsm. fjárveitinganefndar (B. J.) fyrir það, að hann hefir áskilið sjer sjerstöðu í nefndinni, til að mæla með því, að þessum gamla manni verði í eitt skifti sýnd viðurkenning.

Þegar jeg hefi flutt þessa umsókn hjer áður á þinginu, hafa fylgt henni fleiri vottorð um hann sem kennara, en nú vildi hann ekki hafa fyrir því að safna þeim, svo að í þetta skifti fylgir að eins eitt vottorð umsókninni, og er það frá síra Tómasi Bjarnasyni á Siglufirði, sem hefir þekt hann í langa tíð, og ávalt látið mjög vel af starfi hans sem kennara.

Jeg skal svo ekki mæla frekar með þessum styrk, hefi sagt í fáum dráttum það helsta, sem um manninn verður sagt, og sje enga verulega þýðingu hafa að fara um þetta fleiri orðum. Jeg hefi áður flutt þetta sem árlegan styrk. Fór fyrst fram á 200 kr. á ári og ætlaðist til, að það væri æfistyrkur. Seinna færði jeg það niður í hundrað kr., en hvorttveggja var felt. Nú vænti jeg þess, að háttv. þingmenn hafi þroskast svo að aldri og visku, að þeir virði starf þessa mæta manns svo mikils, að þeir vilji veita honum þennan litla styrk, sem þó á ekki að vera árlegur ellistyrkur, heldur sem glaðning til hans á gamalsaldri í viðurkenningarskyni fyrir vel unnið æfistarf.

Ef þingmenn þjóðarinnar eru ekki orðnir svo víðsýnir að kunna að meta vel unnið æfistarf til sannra og alm. þjóðþrifa, þótt það sje unnið kauplaust, þá verð jeg að telja það mjög sorglegt. En er það ekki einmitt miklu meira virði að vinna kauplaust til heilla þjóð sinni, að hennar fyrsta og helsta velferðarmáli, heldur en jafnvel að gegna embættum, sem vel eru launuð? — En hvað mundi hafa orðið, ef hjer hefði átt í hlut gamall embættismaður, sem staðið hefði uppi fjelaus og heilsubilaður? Ja, — þá hefðu þingmenn ekki verið að vefja það lengi fyrir sjer að greiða honum af landssjóði árl. ellistyrk Nei, það væri naumast vansalaust af þinginu, að kasta nú frá sjer þessum 500 kr. styrk í eitt skifti fyrir öll, sem er það allraminsta, sem hægt er að fara fram á.

Jeg hefði viljað minnast á einstöku liði á atkvæðaskránni, en verð að sleppa því; menn eru orðnir svo þreyttir. Þó ætla jeg að minnast á einn lið.

Nefndin leggur til að fella í burtu 1000 kr. styrkinn til Goodtemplara, sem stjórnin vill veita fjelaginu. Mjer er ekki unt að skilja, að afnám þessa styrks sje á nokkrum rökum bygt. Jeg álít, að þjóðin standi í svo mikilli þakklætisskuld við þennan fjelagsskap, að það geti ekki til mála komið að fara nú að svifta hann þessum styrk, sem hann hefir notið svo lengi, og það er leiðinlegt að heyra háttv. 2. þm. Rang. (E. J.) mæla nú með hæðnisorðum á móti styrkveitingunni, eins og hann var þó ákveðinn með setningu bannlaganna á þinginu 1909, og hefir til skamms tíma verið eindreginn fylgismaður þeirra. Mjer hefði fundist það eiga betur við af honum að fara sem fæstum orðum um þetta mál, heldur en að ganga nú svona opinberlega í berhögg við sínar fyrri skoðanir. Líka má það teljast allundarlegt, að háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) skuli treysta kennarafjelaginu best til þess að fræða æskulýðinn í bindindismálinu og um skaðsemi áfengis, þar sem það er kunnugt, að að því standa ýmsir þeir menn, sem vitanlega eru fjandsamlegir útrýmingu áfengis úr landinu. Til dæmis veit jeg ekki betur, en að fræðslumálastjórinn hafi skrifað undir áskorun andbanninga til þjóðarinnar nú nýlega, þeirra manna, sem vilja koma bannlögunum fyrir kattarnef, og veita þannig áfengisstraumnum á ný yfir landið. Hvaða ástæður liggja til þess, að háttv. þm. V.-Sk.

(G. Sv.) vill kasta verki Goodtemplara í hendur fjelags, sem þessi maður stjórnar? Jeg kalla það hlálega farið í kringum sannleikann, að leggja til að tekinn sje styrkur frá fjelagi, sem um langa tíð hefir unnið að því augnamiði, sem þingmaðurinn hefir játað að væri í alla staði lofsamlegt, og fleygja störfum þess svo í hendur annars fjelags, sem jafnvel er líklegt, að verði til hins gagnstæða.