17.08.1917
Neðri deild: 36. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1033 í B-deild Alþingistíðinda. (584)

5. mál, lögræði

Forsætisráðherra (J. M.):

Stjórnin getur verið háttv. allsherjarnefnd þakklát fyrir meðferðina á frv. Nefndin hefir fært það aftur í það lag, sem það var í, er stjórnin lagði það fyrir þingið. Jeg mælti móti orðabreytingunum í Ed., sem þó voru samþ. þar. Jeg er alveg samdóma háttv. frsm. allsherjarnefndar (E. A.) um nýyrðin, sem tekin hafa verið upp aftur af allsherjarnefnd þessarar deildar, að þau eru málfræðilega og lögfræðilega rjettari en orðabreytingarnar, sem Ed. samþykti. Við getum tekið t. d. orðið »sjálfsóráða«. Það er alveg óhæft að mínu áliti. Jeg álít og, að nefndin hafi gert rjett í því að nema burt tilvitnanirnar í eldri lög. Það kom til mála hjá stjórninni, en var ekki gert af því, að við vildum láta frv. koma fyrir Alþingi í sömu mynd og það var í, þegar það kom frá lögfræðideild Háskólans. Jeg vil bæta því við, að mjer virðist varla gerandi að vera að breyta orðalagi frá því, sem lögfræðideild Háskólans lagði til. Mjer er kunnugt um, að háskólakennararnir gera sjer alt far um að finna góð orð og vanda málið á íslenskum lögum og lögfræði.