24.08.1917
Neðri deild: 42. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 269 í B-deild Alþingistíðinda. (59)

1. mál, fjárlög 1918 og 1919

Sveinn Ólafsson:

Jeg skal ekki þreyta menn á langri ræðu, enda er það varla gustuk. Jeg á enga brtt. á atkvæðaskránni, sem jeg þarf að mæla með, en jeg læt mjer jafn ant um það, sem greiða á atkvæði um, þótt jeg eigi enga brtt. sjálfur. Og vegna þess að háttv. frsm. fjárveitinganefndar (B. J.) ljet þau orð falla, að ýmsir, sem atkv. greiddu um 13. gr. í dag, mundu vera nokkuð nærsýnir um fjárveitingar, þá vildi jeg lýsa því yfir, að hvorki jeg nje aðrir, sem mjer urðu samferða um að greiða ekki atkv. tillögum nefndarinnar í dag, getum viðurkent, að hann sje siðameistari hjer í deildinni eða eigi að ráða nokkru um atkvæði manna. Jeg segi fyrir mig, að jeg vil vera sjálfráður, þegar jeg greiði atkvæði um fjárlögin, eins og önnur mál, og fer þar að einskis manns fyrirmælum og læt mig engu skifta, hvort jeg fæ ofanígjöf hjá háttv. þm. Dala. (B. J.) eða ekki.

Háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) sagði eitthvað á þá leið, að sparnaður væri sama sem afturhald. Þessa kenningu má hann eiga mín vegna. Hún leiðir til örbyrgðar, ef henni er fylgt í ystu æsar, en jeg tek mjer ekki nærri þótt jeg verði kallaður afturhaldsmaður fyrir það, að jeg greiði atkvæði á móti þeim liðum á atkvæðaskránni, sem jeg álít, að hægt sje að ósekju að spara. Því verður nú ekki neitað, að það eru stóralvarlegir tímar, sem yfir standa. Og þótt þessir nýju fjármálamenn vorir haldi því fram, að litlu skifti um 1, 2 eða 3 miljónir, sem landssjóður skuldi, þá verð jeg að líta annan veg á það mál. Jeg tel siðferðilega skyldu hvers þingmanns að takmarka þau útgjöld, sem hægt er að takmarka.

Þá eru hjer örfáir liðir á atkvæðaskránni, sem jeg get ekki leitt hjá mjer að nefna, og kem þá fyrst að brtt. frá háttv. 1. þm. Árn. (S. S.), sem er 164. liður á atkvæðaskránni. Mjer þótti miður, að þessi brtt. skyldi koma fram, einkum nú, þar sem fyrir liggur umsókn frá skógræktarstjóra, studd af skógarverðinum á Hallormsstað, um endurbyggingu baðstofunnar þar. Hallormstaður með skóginum er eign landssjóðs og er einhver fegursti staður á landi hjer, gimsteinn í íslenskri náttúrufegurð, sem oss er skylt að sýna sóma, en vansæmd að láta níðast niður. Þann stað ætti hvert íslenskt ungmenni að heimsækja, og þar er auðfengin fyrirmyndin um prýði sveitabýlanna með skóggræðslu. Þessi húsabót er allsendis óumflýjanleg, þótt dregist hafi lengi. En nú má ekki lengur við svo búið standa, og skal jeg láta þess getið, að jeg mun koma með brtt. um þetta við 3. umr., sem fara mun í öfuga átt við það, sem háttv. 1. þm. Árn. (S. S.) leggur hjer til.

Háttv. 2. þm. N.-M. (Þorst. J.) hefir gert nokkra grein fyrir 139. liðnum á atkvæðaskránni, 400 kr. árlegum styrk til Sigfúsar Sigfússonar. Jeg býst nú við, að hjer sje enginn eins kunnugur starfi þessa manns og högum og jeg, og jeg hefi átt lítils háttar þátt í að liðsinna honum. Jeg verð að segja það, að mjer þykir upphæðin nokkuð lág, sem þessum manni er boðin, en þess er nokkur von, með því að fáum mun kunnugt um, hvernig á stendur.

Það er rjett hjá háttv. 2. þm. N.-M. (Þorst. J.), að þetta þjóðsagnasafn er geysistórt, mun vera í 16 bindum. Um gildi þess geta verið skiftar skoðanir, og getur þar margt til álita komið, með því að safnandinn hefir fylgt þeirri reglu, að fella ekkert niður, sem fróðleikur er í, en margt er þar fáheyrt og ábyggilegt, margt, sem reynast mun seinni tíðar mönnum stór fengur í. En einmitt nú er ástæða til þess að veita þennan styrk, af því að maðurinn er nú að hreinrita safnið, eins og hann ráðgerir að afhenda það landsbókasafninu. Og svo er annað. Höfundurinn er að missa sjón, er aldraður og lúinn, og hefir varið sínum litlu eigum til að leita sjer lækninga á sjóndeprunni. Hann hefir að vísu fengið nokkra bót á sjóninni, en búast má við, að hún þrjóti áður varir, og verður hann þá að fá aðstoð til afritunarinnar. Maðurinn hefir varið allri æfi sinni í þetta starf og öllu, sem hann hefir eignast. En hjer er nú svo mikill fróðleikur saman kominn, að jeg er viss um, að margur, sem styrks nýtur, hefir ekki unnið hálft á við þennan mann, og væri ekki um of, þótt honum væri veittur tvöfaldur styrkurinn. Hjer er líka um unnið verk að ræða en ekki um neina vonarvinnu. Jeg vænti þess, að háttv. deild sýni höfundinum þann sóma að veita honum þessa litlu upphæð, og jeg veit, að hún muni gleðja hann mjög, þótt lítil sje í samanburði við verk hans.

Jeg vil þá minnast lítið eitt á 133. lið á atkvæðaskránni, styrk til Helga Jónssonar, grasafræðings, 3000 kr. á ári. Mig furðaði á þeirri upplýsingu eins háttv. þm., að hjer væri um dýrtíðarráðstöfun að ræða, og svo verð jeg að líta á að sje, þar sem till. er fram komin eftir tilmælum bjargráðanefndar. Þau tilmæli benda á það, að þessi háttv. nefnd sje ekki neitt sjerlega skygn, því að ef þetta eiga að vera bjargráð, þá mun langur uppi áður en ávextirnir koma í ljós, og enginn ætlast víst til í alvöru, að hann uppskeri matjurtir úr fjörunni á næsta vetri. Vjer þekkjum allir söl og vitum að þau má nota til fæðu, en aðrar þangtegundir munu vart koma að liði fyrst um sinn. Ef maðurinn á að rannsaka þangtegundir til þess að leita manneldisjurta, þá ætla jeg, að annað mundi nær en að leita meðal þörunga, eða að annarstaðar væri um auðugri garð að gresja. Á landi mundi margt af því tagi auðfengnara, svo sem fjallagrös, hvannir, ber o. s. frv. Af því að þetta er sett fram sem dýrtíðarráðstöfun, þá mæli jeg á móti fjárveitingunni. Á hinn bóginn neita jeg því ekki, að þetta gæti haft vísindalegt gildi, og ef til vill komið að notum í framtíðinni, en jeg hefi enga trú á því, að með þessu sje nokkru bjargað í dýrtíðinni eða í nánustu framtíð. Hitt er öllum kunnugt að þari er ágætt gripafóður og að söl hafa verið notuð til manneldis. Þess kyns hagnýtingu þörunga þekkir almenningur og þarf ekki landslaunaðan ráðunaut við.

Loks skal jeg minnast á 109. lið á atkvæðaskránni, um föst laun handa fimleikakennara Kennaraskólans. Mjer finst, að á þessum tíma gætum vjer vel látið vera að mynda þetta embætti, þótt jeg fúslega játi, að fimleikar sjeu nauðsynlegur liður í uppeldi æskulýðsins. Mjer þykir annað liggja nær en að stofna launahá embætti handa kennurum á þessum tíma, þegar skólar verða ef til vill að leggjast niður vegna dýrtíðarinnar.

Þessa tvo liði hefi jeg nefnt sem vott um fráleitar dýrtíðarráðstafanir, en um marga aðra er líkt farið, og mun jeg minnast þeirra við atkvæðagreiðslu.