10.09.1917
Neðri deild: 56. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1037 í B-deild Alþingistíðinda. (594)

5. mál, lögræði

Framsm. (Einar Arnórsson):

Við háttv. þm. Dala. (B. J.) og jeg erum sammála í þessu máli, svo að ekki er hætt við deilum milli okkar. Um endingarnar -a og -ur í lýsingarorðum er það að segja, að báðar eru rjettar; það er að eins smekkatriði, hvor valin er. Nefndin hjer hafði, eins og hv. þm. Dala. (B. J.), hallast að lýsingarorðunum -ráður, og hún er enn á sama máli. En með því að tvísýnt er um, að frv. nái fram að ganga, ef þessu yrði breytt hjer, þá þykir nefndinni hjer rjettara að slaka til, svo að rjettarbót sú, sem frv. felur í sjer, komist sem fyrst á. Nafnorðin heldur nefndin þar á móti fast við, því að það atriðið telur hún aðalatriði í þessu efni, enda er breyting háttv. Ed. þar ekki fyllilega málslega rjett, því að -ræði hefir almennari, en -ráð einstaklegri merkingu í sjer fólgna, eins og sýnt er fram á í nál. voru. Aftur á móti verð jeg að vernda háttv. Ed. fyrir þeirri aðdróttun háttv. þm. Dala.

(B. J.), að hún af leik reyni að afnema fræðiorð, sem kennari hefir notað. Sjálfsagt er ástæðan sú, að háttv. Ed. fellir sig betur við þau orð, sem hún hefir tekið upp.