21.08.1917
Sameinað þing: 4. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1051 í B-deild Alþingistíðinda. (629)

6. mál, þóknun til vitna

Magnús Torfason:

Eins og háttv. þingi er kunnugt er jeg ekki framsögumaður þessa máls, heldur forseti sameinaðs þings (K. D.). Hv. allsherjarnefnd Ed. hefir þess vegna óskað, að jeg mælti nokkur orð í hans stað um frumvarp þetta.

Allsherjarnefnd Ed. hefir ekki borið fram neina brtt. við frumvarpið, og táknar það, að nefndin álítur, að fallast megi á frv. óbreytt, enda þótt hún telji það dálítið skemt frá því, er það fór úr Ed.

Jeg mundi hafa sparað mjer að fjölyrða frekar um málið, ef ummæli allsherjarnefndar Nd. á þgskj. 453 hefðu ekki knúið mig til þess. Hún vill halda því þar fram, að orðin: »þó svo, að vitni sæki dómþing« í nefndaráliti allsherjarnefndar Ed. merki, að það beri vitni. En þetta hefir allsherjarnefnd Ed. aldrei komið til hugar. Allsherjarnefnd Ed. gerir glöggan greinarmun á því að sækja dómþing og bera vitni. Henni var það ljóst, að menn geta sótt dómþing án tilhlutunar málsaðilja, og að þá eigi þau enga vitnaþóknun að fá, fremur en aðrir áheyrendur. Og jeg hefi einmitt rekið mig á þetta. Jeg hefi horft á menn trana sjer fram og bjóðast til að bera vitni. Og allsherjarnefnd Ed. leit svo á, að ekki væri rjettlátt að skylda neinn til að greiða slíkum vitnum þóknun, sem fyrirfram hafa sýnt, að þau eru ekki hlutlaus. Og frá þessari skoðun hvikar nefndin ekki. Þessi athugasemd allsherjarnefndar Nd. er bygð á meinlegum misskilningi, og tilvitnunin í nefndaráliti hennar því algerlega röng.